sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.
Forseti. Fyrstu upplýsingarnar sem ég fékk var að það ætti að hækka prósentuna um 1,5%. Það voru fyrstu upplýsingarnar sem ég fékk um þetta þannig að ég var pínu varkár um það sem væri að gerast með þetta frumvarp enda sé ég ekki að það nái sínum markmiðum. Það er einfaldlega ástæðan fyrir því að ég er ekki með á þessari breytingu, það er mjög einfalt. Flokkur fólksins þarf ekkert að útskýra fyrir öðrum hvort ég er meðflutningsmaður á málum eða ekki. Ég hef talað um það áður þegar Flokkur fólksins er eitthvað að básúna um það fram og til baka að hinir og þessir flokkar séu ekki meðflutningsmenn á rosalega góðu málunum þeirra — sem, afsakið, mér finnst stundum ekkert rosalega góð. Við erum með ýmsar aðrar tillögur um það hvernig á að ná þeim markmiðum sem er verið að leggja fram í þessu máli. Ef það á t.d. í alvörunni að ná 30 milljörðum úr bönkunum vegna arðgreiðslna er til að byrja með hægt að gera lægri ávöxtunarkröfu af hendi ríkisins á bankana sem ríkið á til þess að lækka einmitt þau gjöld o.s.frv., sem neytendur og viðskiptavinir þeirra banka þurfa að leggja í bankana, sem við síðan tökum út sem arð. Bara óbein skattskylda. Það er hægt að losa um tekjur í rauninni þannig, tekjur almennings. Hin leiðin er að fara í arðinn þegar hann er greiddur út; þegar búið er að ákveða hversu miklar arðgreiðslur á að taka út þá tekurðu arðinn af, af því að þá er ekki hægt að svindla einhvern veginn á þann hátt að hérna er bankaskattur sem er allt í einu orðinn rosalega stór og það fer bara beint í færslugjöldin eins og hv. þingmaður útskýrir. Þess vegna finnst mér þetta mál núna sérstaklega, ekki þegar það var með lægri prósentu, bara einfaldlega lélegt og þess vegna er ég ekki með á því.