154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

378. mál
[18:36]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Núna hafa bankarnir birt uppgjör sín eftir fyrri hluta þessa árs og nemur samanlagður hagnaður þeirra 60 milljörðum kr. Gera má ráð fyrir að næstu mánuðir verði þeim jafn gjöfulir og að árshagnaður þeirra verði a.m.k. 80 milljarðar. Athugum að hér er um hagnað að ræða, ekki veltu heldur hagnað eftir að allur launakostnaður, húsnæðiskostnaður, skattar, risna og hvað eina sem rekstur banka felur í sér, hefur verið greiddur. 80 milljarðar er fáránlega há tala í hagnað sem hefur hækkað frá undanförnum árum og stafar ekki síst af því að verið er að veita fjármunum heimilanna til þeirra í bílförmum á færibandi. Fyrst og fremst er nauðsynlegt að við áttum okkur á að þetta fé verður ekki til úr engu. Miðað við að landsmenn séu 380.000 þá eru þetta 210.000 á hvert einasta mannsbarn á Íslandi, eða 840.000 á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þessi hagnaður er þannig tekinn af okkur, fólkinu, heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Þetta eru fjármunir sem einstaklinga og fyrirtæki myndi muna um. Þetta fé er ekki orðið til af því að bankamenn séu svo klárir í fjárfestingum og dæmin um að þeir séu það alls ekki eru fjölmörg. Þessar tölur sýna einfaldlega fram á aðstöðu bankanna og skjaldborgina sem reist hefur verið í kringum þá. Þessar tölur sýna fram á að litið er á okkur, fólkið í landinu, sem einhvers konar fóður eða auðlind sem þeir geta gengið í að vild.

Það er staðreynd að þegar stýrivextir lækkuðu mikið frá undirritun lífskjarasamninga skilaði sú lækkun sér seint og illa út í samfélagið. Aftur á móti hafa bankarnir verið gríðarlega fljótir að hækka í öll þessi 13 skipti sem stýrivextir hafa verið hækkaðir á undanförnum mánuðum. Fjármunir bankanna komu í raun frá heimilunum, frá fólkinu í landinu með beinum og óbeinum hætti. Heimilin eru undirstaða þjóðfélagsins því að án þeirra væri ekki þörf fyrir nein fyrirtæki, hvað þá einhverja fjárfesta. Vaxtastig bankanna er augljóslega óþarflega hátt og það getur ekki talist eðlilegt að ef svo fer sem horfir jafngildi hagnaður bankanna því að hver einasti einstaklingur í 380.000 manna þjóðfélagi leggi 210.000 kr. í púkkið á einu ári. Það er ansi margt sem fjögurra manna fjölskylda gæti gert og myndi örugglega vilja gera fyrir 840.000 kr. frekar en að leggja þessa stóru upphæð í þegar yfirfullar fjárhirslur bankanna.

Það er kominn tími til að ríkisstjórnin fari að forgangsraða þannig að heimilin og fólkið sé sett ofar fjármagni. Og það væri algerlega stórkostlegt þó að það sé því miður fjarlæg draumsýn, ef ríkisstjórnin myndi stöðva óheftan aðgang bankanna að auðlindinni heimilunum eða léti þá a.m.k. greiða bankaskatt upp á 0,838% svo að hægt væri að nýta þetta fé til samfélagslegra verkefna. Þetta nær ekki einu sinni 1% en myndi samt auka tekjur ríkissjóðs um 30 milljarða. Það jafngildir t.d. 12 varnargörðum á Reykjanesi, sem ríkisstjórnin sá ástæðu til að skattleggja heimilin sérstaklega fyrir. Það stóð ekki í henni að skattleggja heimilin. Og 30 milljarðar er meira en það sem við leggjum í nýsköpun og næstum það sama og við áætlun í lyfjakostnað á næsta ári, svo einhver dæmi séu nefnd.

Við skulum ekki gleyma því að bankarnir eru stærstu kennitöluflakkarar landsins. Þeim var bjargað úr gjaldþroti með því að ríkið gaf þeim nýja kennitölu og leyfði þeim að halda áfram rekstri án þess að nokkuð annað sem máli skipti breyttist. Það er staðreynd að bankarnir hafa margfaldað álagningu sína síðustu ár, svo mikið að það nemur mörg hundruð prósentum. Þrátt fyrir lækkun bankaskatts hafa lægri vextir og lægri fjármögnunarkostnaður bankanna að mestu farið í vasa þeirra sjálfra og auðvelt er að álykta sem svo að bankarnir hafi tekið til sín mesta ávinning vaxtahækkana síðustu ára. En þrátt fyrir að bankarnir hafi stöðugt aukið álagningu og hirt ávinning af lækkun bankaskatts er fólkinu á gólfinu fækkað, útibúum lokað og þjónustan stórlega skert. Til að bæta gráu ofan á svart þá reisti banki allra landsmanna nýjar höfuðstöðvar í mikilli óþökk þjóðarinnar á dýrasta byggingarreit landsins, sannkallaðan minnisvarða um samfélagsmein. Herlegheitin kostuðu aðeins litlar 12.000 milljónir.

En af hverju er svona gríðarleg tregða gagnvart því að láta bankana greiða innan við 1% bankaskatt? Það má leiða líkur að því að staðan væri betri í fjársveltum grunnstoðum samfélagsins, eins og í heilbrigðismálum og menntakerfinu, svo ekki sé minnst á aðbúnað aldraðra, svo örfá dæmi séu tekin, ef bankarnir væru að greiða aðeins meira til samfélagsins, t.d. því sem þessu nemur.

Að þessu sögðu er náttúrlega ekki sjálfgefið í eðlilegum bankarekstri að hagnaður bankanna sé þetta mikill. Ástandið er í hæsta máta óeðlilegt og þessir fjármunir eiga með réttu að vera í höndum heimila og fyrirtækja fólksins í landinu. En ótti og meðvirkni stjórnvalda með bönkunum er með ólíkindum. Með vaxtahækkunum undanfarinna mánaða er verið að veita fjármunum heimila og fyrirtækja til bankanna í stríðum straumum. Að auki hafa þeir hagnast gríðarlega allt frá því að stærsta kennitöluflakk sögunnar átti sér stað og enn eru þeir að fá meira. En þrátt fyrir það virðast þeir alltaf eiga að vera algerlega stikkfrí þegar kemur að því að leggja eitthvað til samfélagsins. Þeir taka bara.

Árið 2019 var smánarlega lágur bankaskattur upp á 0,36% lækkaður í 0,145%. Með öllum þessum aukastöfum er ekki víst að allir átti sig á að bankaskatturinn var minna en 0,4% og er núna minna en 0,15%.

Í greinargerð með frumvarpinu um lækkun bankaskatts árið 2019 stóð, með leyfi forseta:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er m.a. lögð áhersla á að unnið verði að frekari skilvirkni í fjármálakerfinu með það að leiðarljósi að lækka kostnað neytenda.“

Ég ætla ekki að tjá mig um skilvirkni í fjármálakerfinu en hitt er ljóst að kostnaður neytenda hefur ekki lækkað þrátt fyrir að bankaskatturinn hafi verið lækkaður. Það þarf virkilega brengluð gleraugu til að halda því fram að það markmið hafi náðst. Á minnisblaði sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk frá fjármálaráðuneytinu var svar við spurningu þar sem ég bað um að reiknað væri út hversu miklar tekjur ríkissjóður myndi fá ef bankaskattur yrði aftur hækkaður úr 0,145% í 0,376%, sem er það sem hann var fyrir breytinguna í Covid. Í svarinu kom fram að væri skattprósentan 0,145% mætti gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af sérstökum skatti á fjármálastofnanir eða bankaskatti myndu nema 6,5 milljörðum kr. En væri skattprósentan hækkuð úr 0,145% í 0,376% mætti gera ráð fyrir að tekjur af skattinum árið 2024, að öllu óbreyttu, myndu nema 16,8 milljörðum kr. Við erum að fá 6,5 milljarða en gætum með þessari hækkun, bara í það sem hann var áður, fengið 16,18 milljarða í ríkissjóð. Þarna munar litlum 10,3 milljörðum kr. En fjármálaráðuneytið lét í svari sínu ekki þar við sitja heldur taldi sig einnig þurfi að útskýra fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd að sennilega myndi þetta ekki alveg virka svona. Í svarinu stóð, með leyfi forseta:

„Hér er um einfaldan útreikning að ræða miðað við óbreyttan skattstofn. Áhrif slíkrar skattahækkunar eru þó margslungnari en svo og því líklega um ofmat að ræða. Skattbyrðin leggst ekki að öllu leyti á greiðendur skattsins heldur viðskiptavini þeirra einnig. Auknar álögur á fjármálastofnanir stuðla að auknum vaxtamun og minni útlánavexti sem hefur áhrif á fleiri skattstofna, þar með taldar ráðstöfunartekjur lántakenda. Þar að auki leggst skatturinn á skuldir stofnananna og dregur því úr hvata þeirra til að stækka efnahagsreikning sinn og auka útlán. Erfitt er að meta afleidd áhrif slíkrar skattahækkunar á aðra skattstofna nema að því leyti að þau yrðu neikvæð fyrir tekjur ríkissjóðs og vega því að einhverju leyti gegn tekjuauka af hækkun bankaskattsins sjálfs.“

Já, þetta eru skemmtilegar og óneitanlega merkilegar pælingar hjá fjármálaráðuneytinu því að í svari sínu leitast það við að finna allar þær afsakanir sem til eru fyrir því að hækka ekki bankaskattinn. Það þykir mér merkilegt af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi vegna þess að þetta sýnir skýrt fram á tök bankanna á fjármálakerfinu og hvernig æðstu stjórnvöld bugta sig og beygja fyrir valdi þeirra. Meðvirknin er algjör. Staðreyndin er sú að bankarnir eru aflögufærir. Þeir eiga fullar hirslur fjár og ættu frekar en flestir aðrir sem skattlagðir eru án slíkra hugleiðinga um langtímaáhrif að leggja meira til samfélagsins og ef þessum rökum fjármálaráðuneytisins væri fylgt þá mætti velta fyrir sér hvort við ættum að skattleggja nokkuð vegna þess að ég hugsa að öll fyrirtæki velti með einum eða öðrum hætti skatttekjum eða skattlagningu út til neytenda. Í öðru lagi er bara vægast sagt sjaldgæft að fjármálaráðuneytið tjái pólitíska afstöðu með þessum hætti og taki fram hvort heldur kosti eða meinbugi á tillögum sem fram koma. Sem dæmi má nefna tillögu Flokks fólksins um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust þar sem eingöngu kostnaður ríkissjóðs hefur verið reiknaður af fjármálaráðuneytinu. En þar var ekkert tekið tillit til þeirra tekna sem ríkissjóður myndi óneitanlega fá á móti, bara kostnaðar. Í þessu sambandi væri líka gaman að spyrja fjármálaráðuneytið hvaða áhrif þau telja gríðarlegar vaxtahækkanir undanfarinna mánaða, sem velt hefur verið yfir á neytendur með grimmilegum hætti, hafi á heimilin, hvort þau sjái ekki fyrir sér að smá gjaldskrárhækkanir hér og þar, upp á kannski 2.000–5.000 kr. á mánuði hjá þeim sem nota þjónustuna, séu ekki skárri en 300.000 kallinn sem þau hafa engar áhyggjur af en heimilin bera nú í aukinni vaxtabyrði.

Enginn, ekki einn einasti flokkur eða stjórnmálamaður sem setið hefur í ríkisstjórn hefur haft döngun í sér til að takast á við bankana og á því hefur engin breyting orðið á undanförnum mánuðum. Allir hafa þeir varið rétt bankanna til að féfletta heimili og minni fyrirtæki, fólkið í landinu, og nú blasa afleiðingarnar við. Þegar fjármunir sem þessir hverfa úr samfélaginu og inn í lokaða hít þá hefur það keðjuverkandi áhrif á allt samfélagið. Einstaklingar sem hafa lifað við stanslausar fjárhagsáhyggjur myndu ekki vera að upplifa sömu pressu og þeir upplifa núna. Og nú eru margir að missa móðinn sem gæti endað með veikindaleyfi því að langvarandi fjárhagsáhyggjur eru meðal algengustu ástæðna t.d. kulnunar.

Fjármálaráðherra og ríkisstjórninni allri finnst að einkavæða eigi sem mest af hagnaði bankanna í stað þess að beina honum inn í samfélagið. Hjá þeim er samstaða um að þessi gríðarlegi hagnaður sé best kominn inni í hítinni fyrir örfáa útvalda að njóta. Jú, við þurfum kerfi utan um fjármál okkar, launareikninga, millifærslur, kortaviðskipti, lán og fleira þess háttar. En hver er raunkostnaðurinn við það allt? Hvernig getur það staðist að þessi þjónusta, sem í eðli sínu er ekkert annað en bókhald og að færa tölur á milli dálka, sé jafn frek til fjörsins og raun ber vitni?

Við í Flokki fólksins höfum ítrekað mælt fyrir bankaskatti, þó að hingað til hafi tillögur okkar bara snúist um að koma honum í það sem hann var fyrir lækkun, 0,376%. En núna teljum við allar ástæður til þess að ganga lengra. Við erum að horfa upp á hamfarir á Reykjanesi sem bætast ofan á allan þann vanda sem fyrir var sem ekki verður rakinn hér. Það er löngu kominn tími til að bankarnir séu ekki eins og heilagar og ósnertanlegar kýr sem enginn má koma við og engar skyldur bera. Hver er samfélagsleg ábyrgð og eigendastefna stjórnvalda sem enn þá eiga einn og hálfan banka? Er virkilega til of mikils mælst að bankarnir og eigendur þeirra gefi þau fyrirmæli að vegna stöðunnar, sem hjá mörgum er skelfileg, sé nauðsynlegt að þeir ýti til hliðar arðsemissjónarmiðum og dusti rykið af samfélagslegu ábyrgðinni og taki þannig þátt í að hlífa viðskiptavinum sínum og samfélaginu við hugmyndafræði sem mergsýgur samfélagið? Hagnaður bankanna á heima í vösum fólksins í landinu en þeir oftaka af þeim. Ef heimili og fyrirtæki hefðu þessa fjármuni í sínum höndum myndi það skila sér til baka til ríkisins með ýmsum hætti, auk þess að létta lífsbaráttu okkar allra. Væri það heimsendir fyrir fjármálakerfið að vera rekið á núlli eða tapi í eitt eða tvö ár á meðan varnarbaráttan og viðspyrnan á sér stað? Það að allt þetta fé, líklega 80 milljarðar á þessu ári, sem kemur frá fólkinu í landinu með einum eða öðrum hætti, skuli vera fyrir fjárfesta til að leika sér að, byggja sjálfum sér hallir og borga sjálfum sér bónusa, nær ekki nokkurri átt. Við segjum: Hingað og ekki lengra. Fólkið fyrst svo allt hitt. Almenningur er ekki fóður fyrir bankana. Bankana fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir bankana.