154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

378. mál
[18:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessu þingmáli, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, hækkun bankaskatts. Ég tel að hér sé um eðlilega hækkun að ræða og mikilvæga hækkun á þeim tíma sem við erum nú í íslensku samfélagi, tímum mikillar verðbólgu, og ekki síst vegna þess að í ár stefnir í 80 milljarða kr. hagnað stóru viðskiptabankanna þriggja. Fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins var hagnaðurinn 60 milljarðar, þ.e. frá maí til loka september.

Með þessari tillögu er verið að leggja til að ríkissjóður fái 30 milljarða kr., verði frumvarpið að lögum, að tekjur ríkissjóðs aukist um 30 milljarða kr. á næsta ári. Og hvað er það þegar við erum að tala um 80 milljarða hagnað? Jú, það er ekki einu sinni 50% af hagnaði bankanna, þannig að bankarnir eru vel aflögufærir, mjög vel aflögufærir og ekki síst mikilvægt að horfa til þess að það ríkir gríðarlegt samkeppnisleysi á bankamarkaði á Íslandi. Samkeppnisleysið er algjört og það á tímum þegar ríkið á einn stóran banka, einn af þremur stóru viðskiptabönkunum og stóran hlut í einum af þeim. Ríkið hefur ekki markað neina einustu stefnu um það, a.m.k. ekki framfylgt henni, að auka samkeppni á bankamarkaði. Það er einfaldlega ekki verið að gera það.

Ég vil líka vekja athygli á því að hér er ekki um einstakt mál að ræða í Evrópu, bankaskatt, svo langt í frá. Við erum að leggja hér til að í stað 0,145% verði skatturinn 0,838%. Hér er miðað við gjaldhlutfall sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki og stofninn af þessum skatti á fjármálafyrirtæki er heildarskuldir bankanna, fjármálafyrirtækjanna, umfram 50 milljarða í lok tekjuárs en skuldir banka eru innlánin. Þegar einstaklingur leggur pening inn í bankann, 1.000 kr., þá skuldar bankinn 1.000 kr. plús vexti. Þannig að við erum einfaldlega að leggja til hækkun sem þessu nemur, úr 0,145% í 0,838%.

Ef við skoðum núverandi lög um bankaskatt, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, sem eru búin að vera í gildi frá 2010, í 13 ár, þá kemur í ljós að rökin fyrir bankaskattinum á þeim tíma var gríðarlegur kostnaður sem lagðist á íslenska ríkið í kjölfar hruns fjármálakerfisins sem má rekja að stórum hluta til óhóflegrar áhættusækni fjármálafyrirtækja. Í því ljósi var talið réttmætt að þeir aðilar sem störfuðu á þessum markaði greiddu ríkissjóði tiltekið framlag sem myndi nýtast við endurreisn fjármálakerfisins á næstu árum. Það var gríðarlegur kostnaður sem lagðist á ríkið eftir hrunið. Í dag er kostnaður samfélagsins gríðarlegur af því að hafa 9,25% vexti og lifa á þeim verðbólgutímum sem við búum við. Bankarnir bera ekki verðbólguáhættu á stórum hluta útlána sinna, það gera íbúar þessa lands í formi verðtryggðra lána. Því er eðlilegt að bankaskattur verði hækkaður, vegna þess gríðarlega kostnaðar sem samfélagið þarf að bera af verðbólgunni, af vaxtastiginu í landinu og þeim gríðarlegu áföllum sem eru að verða í samfélaginu, þegar snjóhengja fellur á það og afborganir af lánum eru sums staðar komnar í vel yfir hálfa milljón á einstakling. Einstaklingar eru þegar farnir að þurfa að selja ofan af sér íbúðir sínar og húsnæði vegna hinnar gríðarlegu vaxtabyrði.

En hvernig er staða bankanna? Jú, staða bankanna er eins og ég sagði áðan, fyrstu níu mánuði ársins var 60 milljarða hagnaður og það stefnir í 80 milljarða hagnað. Á verðbólgutímum þegar samfélagið ber gríðarlegan kostnað er hagnaður bankanna það mikill að það er einsdæmi orðið í sögu þeirra. Þeir eru að græða á því vaxtastigi sem er í landinu og á þeim verðbólgutímum sem við lifum núna.

Eins og ég sagði áðan er Ísland ekki eitt í því að leggja sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki ef horft er til Evrópu. Meðal ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins var mikil umræða um sérstakan bankaskatt eftir hrun og þá settu mörg ríki sérstakan skatt eða gjöld á fjármálafyrirtæki. Meira að segja framkvæmdastjórn Evrópusambandsins benti á að rökrétt væri að auka skattbyrði fjármálakerfisins vegna kostnaðarins við endurreisn þess sem lagðist á ríkissjóði ríkjanna eftir hrun. Það er nákvæmlega sama núna; kostnaðurinn af verðbólgunni er það mikill á íbúanna að það er eðlilegt að leggja sérstakan skatt á fjármálafyrirtækin sem er þá í formi hækkunar bankaskattsins.

Á þeim tíma eftir hrun þegar lögin voru sett settu Svíar t.d. á svokallað stöðugleikagjald sem lagt var á heildarskuldir fjármálafyrirtækja. Þeir voru fyrsta Evrópuþjóðin sem gerðu það og margar aðrar Evrópuþjóðir skoðuðu það og gerðu líka; Frakkar, Bretar og Þjóðverjar fóru að fordæmi Svía. Ég get tekið annað dæmi en nýlega voru samþykkt á Ítalíu lög, svokallaður hvalrekaskattur á fjármálafyrirtæki sem nam 40% af vaxtaaukningu fjármálafyrirtækja þar í landi á síðastliðnu ári, 40% skattur á vaxtaaukningu sem var þar í landi. Það var hvalrekaskattur, eingreiðsla fyrir árið 2023. Þannig að við erum ekki að tala um að það sé eitthvert einsdæmi á vestræna vísu að auka bankaskatt, svo langt í frá.

Eins og kemur fram í greinargerðinni var bankaskattur lækkaður á sínum tíma. Þessi lækkun var sögð til að auðvelda bönkum að lækka vexti á útlánum samhliða vaxtalækkunum Seðlabankans og auka útlán þeirra. Núna hafa vaxtahækkanir Seðlabankans komið með stýrivexti upp á 9,25% og þá væri eðlilegt vegna þess vaxtastigs sem bankarnir lifa við núna og hins gríðarlega hagnaðar að þeir borguðu í sameiginlega sjóði landsmanna fyrir vikið. Það má benda á það líka að þegar bankaskattur var lækkaður árið 2000, úr 0,376% í núverandi prósentu, sem er 0,145%, þá hafði það ekki áhrif á vaxtamun. Það skilaði sér ekki í minni vaxtamun. Eins og kom fram í framsöguræðu Ingu Sæland, formanns flokksins, sem flutti málið, var framsögumaður málsins, þá er þessi vaxtamunur ekki að minnka. Vaxtamunur íslensku bankanna er hár í norrænum samanburði og hann hefur lítið breyst frá því að hvítbók um framtíð fjármálakerfisins kom fram árið 2018, eða fyrir fimm árum síðan. Þess má geta að meðalvaxtamunur íslenskra banka var 2,7% árið 2022 en hjá öðrum norrænum bönkum af svipaðri stærð var hann 1,6%. Munurinn þar á 1,1%. Hann er minni hjá stóru bönkunum, þar er vaxtamunur einungis 0,9%. Vaxtamunur er því einfaldlega of hár og lægri bankaskattur hefur ekki skilað sér í lækkun vaxtamunar.

Þessi sérstaki skattur leggst á heildarskuldir skattskylds aðila. Á sínum tíma var það líka gert til þess að tryggja það að bankar gætu farið að fjármagna sig með öðrum hætti, þ.e. að vera með aukið eigið fé og tryggð innlán. Það er vissulega gott að gera það með þessum hætti og það réttlætir bankaskattinn enn frekar en það breytir ekki þeim kostnaði sem samfélagið er að verða fyrir og einstaklingar í samfélaginu sem eru að borga af verðtryggðum húsnæðislánum og hinu gríðarlega háa vaxtastigi. Það er því eðlilegt að það leggist auknar álögur á bankana sem eru ekki að bera sömu byrði af verðbólgunni. Þeir eru beinlínis að hagnast af verðbólgunni, tölurnar sýna það. Það er alveg með hreinum ólíkindum þetta samkeppnisleysi sem er á íslenskum bankamarkaði, það er nánast algjört og á þeim tímum sem við lifum núna virðist enginn metnaður vera fyrir því að minnka háan vaxtamun og fara í alvörusamkeppni.

Ég tel að þetta sé mikilvægt mál til að auka tekjur ríkissjóðs og ekki síst væri hægt að nota hluta af peningunum til að koma til móts við það fólk sem er að missa húsnæði sitt vegna þessara gríðarlega háu vaxta. Það eru þessi heimili sem bera byrðarnar af verðbólgunni og enginn annar. Vegna þess sem hefur komið fram í umræðunni í samfélaginu, að það sé verið að hækka skatta á fyrirtæki, að það sé lausn stjórnmálamanna við ýmsum vandamálum, þá skal ég segja ykkur frá einu vandamáli sem við áttum við í síðustu viku og það var varðandi byggingu innviða á Reykjanesi, að verja innviði á Reykjanesi. Hvað gerði ríkisstjórnin? Jú, þeir hækkuðu skatta á almenning, hækkuðu skatta á húsnæðiseigendur, lögðu auknar byrðar á húsnæðiseigendur. Við hérna á Alþingi Íslendinga þurftum að afgreiða þá löggjöf á einum degi sem var sjálfsagt að gera vegna innviðanna en að fara að gera það einnig varðandi aukna skattheimtu, sem á að taka gildi 1. janúar, var algjört hneyksli að mínu mati. Að sjálfsögðu átti að nota hinn almenna varasjóð í það þar sem þetta voru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg útgjöld. Það var nægur peningur í þeim varasjóði. En varðandi það að halda því fram að við séum að fara að ráðast á fyrirtæki hérna en ekki einstaklinga þá ætti ríkissjóður og stjórnarmeirihlutann að horfa í eigin barm og til þess sem þeir horfðu á við vernd innviða á Reykjanesi. Það fyrsta sem þeir horfðu á þá voru húsnæðiseigendur, að auka byrðar á þeim til að greiða fyrir framkvæmdina sem þarna var.

Ég tel að þetta sé mikilvægt mál og vonast til þess að það fái afgreiðslu. Við höfum lagt tillögu um aukinn bankaskatt fyrir alla vega tvö síðastliðin þing við afgreiðslu fjárlaga og í fyrra tóku undir þann málflutning aðrir stjórnarandstöðuflokkar og ég vonast til þess að það verði líka í ár.

.