framkvæmd markaðskönnunar og undirbúningur útboðs á póstmarkaði.
Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um að fela ráðherra að framkvæma markaðskönnun og undirbúa útboð á póstmarkaði. Með mér sem flutningsmenn eru hv. þingmenn Diljá Mist Einarsdóttir, Hildur Sverrisdóttir, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Njáll Trausti Friðbertsson og Vilhjálmur Árnason. Þingsályktunartillagan hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að láta gera markaðskönnun þar sem metið verði hvort nauðsynlegt sé að tryggja alþjónustu með samningi, útnefningu eða útboði skv. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 98/2019, um póstþjónustu, og hefja í kjölfarið undirbúning útboðs á þeim þjónustuþáttum eða landsvæðum þar sem lágmarksþjónusta er ekki veitt á markaðsforsendum.“
Við flutningsmenn teljum nauðsynlegt að ráðherra láti gera þessa markaðskönnunum til að fá yfirsýn yfir það hvaða þáttum alþjónustunnar, sem sagt lágmarkspóstþjónustu, er verið að sinna á viðskiptalegum forsendum. Jafnframt þarf að greina hvort önnur fyrirtæki en Íslandspóstur ohf. myndu veita lágmarkspóstþjónustu á þeim fáu stöðum þar sem samkeppni er ekki til staðar ef þau þyrftu ekki að keppa við niðurgreiddan rekstur. Markmiðið væri að greina hvort hægt sé að leysa alþjónustuskyldu Íslands með öðrum hætti en því að útnefna Íslandspóst sem alþjónustuveitanda til ársins 2030, t.d. með útboði ef þörf er á því. Það er brýnt að ljúka vinnunni áður en alþjónustuframlag er veitt vegna ársins 2023. Í kjölfar útboðs er mikilvægt að ráðist verði í sölu á Íslandspósti ohf.
Með frumvarpinu sem varð að lögum um póstþjónustu, nr. 98/2019, var gerð lagabreyting í samræmi við þriðju pósttilskipun Evrópusambandsins á sviði póstþjónustu sem m.a. laut að því að opna póstmarkaðinn fyrir samkeppni með því að afnema einkarétt ríkja á sviði póstþjónustu. Með frumvarpinu var lagt til að einkaréttur á póstþjónustu yrði afnuminn og að alþjónusta væri tryggð og þess getið hvernig hún yrði skilgreind og veitt og hvernig skyldi fara með kostnað við alþjónustu ef hún yrði ekki leyst af hendi á markaðslegum forsendum.
Nú eru tæp fjögur ár liðin frá gildistöku þessara laga og ljóst að markmið þeirra um hagkvæmni og aukna samkeppni hafa ekki náðst. Keppinautar Íslandspósts hafa kvartað mikið undan fyrirtækinu sem og bágu eftirliti af hálfu eftirlitsaðila. Telja þeir að verið sé að veita framlag vegna alþjónustu þar sem virk samkeppni sé til staðar og því ekki keppt á jafnræðisgrunni.
Af stuttri yfirferð yfir sambærilega þjónustu ýmissa fyrirtækja að dæma er ljóst að líklega er samkeppni í einhverri mynd í öllum þáttum póstþjónustu á Íslandi. Stór hluti þeirrar þjónustu er veittur á stöðum sem þáverandi Póst- og fjarskiptastofnun skilgreindi sem óvirk markaðssvæði þar sem alþjónustuveitandi getur sótt um framlag frá ríkinu vegna þjónustu ef um tap er að ræða. Póstdreifing er með þjónustu sex daga vikunnar í 44 af þeim 58 póstnúmerum í þéttbýli sem metin eru á óvirku markaðssvæði af hálfu eftirlitsaðila. Þjónustan er keimlík bréfadreifingu Íslandspósts en sú þjónusta er veitt tvo daga vikunnar. Í sömu póstnúmerum veita Samskip og Eimskip þjónustu tvo til fimm daga vikunnar, sem mætti kalla alþjónustu í þjónustuþáttunum flutningur um landið og afhending pakka. Jafnframt reka þessi fyrirtæki móttöku- og vinnslustöð í Reykjavík, líkt og Íslandspóstur, en fjölmargar stöðvar í þeirra eigu eða samstarfsaðila þeirra er einnig að finna víða um landið. Í 56 af 58 póstnúmerum á óvirkum markaðssvæðum í þéttbýli eru reknir einhvers konar afgreiðslustaðir sem vel gætu rúmað hefðbundin störf afgreiðslustaða vegna alþjónustu. Við matið er byggt á afgreiðslustöðum samkeppnisaðila, svo sem Dropp og flutningafyrirtækja, samkvæmt heimasíðum þeirra, ásamt bensínstöðvum og matvöruverslunum, samkvæmt þjónustukorti Byggðastofnunar.
Það virðist alveg ljóst að hægt er að ná fram stærðarhagkvæmni við veitingu lágmarkspóstþjónustu með útvistun verkefna Íslandspósts ohf. til sambærilegra aðila sem sérhæfa sig í mismunandi þáttum póstþjónustu víða um landið. Það er ekki löglegt að niðurgreiða póstþjónustu sem veitt er á venjulegum viðskiptagrundvelli. Samkvæmt lögunum þarf mögulega að bæta tilnefndum veitendum alþjónustu kostnað við þjónustu sem þeir veita en er ekki veitt á venjulegum viðskiptagrundvelli. Nú þegar hefur yfir milljarður verið greiddur Íslandspósti, og ég held að það sé nærri 2 milljörðum, fyrir að veita þjónustu á venjulegum viðskiptagrundvelli og/eða þjónustu sem fyrirtækið veitir umfram lágmarkskröfur. Tilfærslurnar hafa valdið mikilli röskun á samkeppni og eftirspurn og orðið til þess að fyrirtæki sækja ekki frekar inn á þennan markað vegna niðurgreiddrar þjónustu ríkisins og það er algerlega ótækt.
Virðulegur forseti. Í stuttu máli þá er ég með þessari þingsályktunartillögu að segja að ríkið á ekki að reka flutningsfyrirtæki. Ríkinu ber að tryggja ákveðna lágmarksþjónustu þegar kemur að póstsendingum en í breyttum heimi hefur póstþjónusta breyst mikið og snýr nú meira og meira að pakkasendingum og minna að bréfapósti. Einhver samkeppni er í bréfdreifingu í flestum þéttbýlum landsins en fjöldi fyrirtækja sinnir pakkasendingum og er hægt að senda pakka um allt land með einkaaðilum. Eftir að netverslun jókst til muna hefur fyrirtækjum sem bjóða upp á þessa þjónustu fjölgað. Þau fyrirtæki kvarta mikið undan Íslandspósti og telja að verið sé að veita ríkisframlag í samkeppnisrekstur. Ég tel að ríkið geti vel tryggt lágmarksþjónustu með því að bjóða þjónustuna út þar sem ekki er samkeppni til staðar. Snýr það þá fyrst og fremst að bréfdreifingu í dreifbýli og á minnstu þéttbýlisstöðunum. Ekkert er því til fyrirstöðu að ríkið selji fyrirtækið Íslandspóst og/eða eignir þess. Það er alveg ljóst að hægt er að ná fram þessari stærðarhagkvæmni og ég er algerlega sannfærð um það að þeim fjármunum sem liggja í eignum Íslandspósts, sem er bæði húsnæði um landið, bílar og aðrir innviðir sem tengjast póstþjónustu, væri betur varið í þjónustu sem skiptir okkur öll máli eins og til að mynda heilbrigðisþjónustu eða löggæslu.