framkvæmd markaðskönnunar og undirbúningur útboðs á póstmarkaði.
Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna á þessu máli og skil það sem svo að þetta lúti fyrst og fremst að framkvæmd markaðskönnunar. Ég hnýt þó um setningu í greinargerð sem segir, með leyfi forseta: „Í kjölfar útboðs er mikilvægt að ráðist verði í sölu á Íslandspósti ohf.“ Ég er örlítið hugsi, virðulegi forseti, yfir tillögunni og þá hugsanlega undirliggjandi markmiðum hennar sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í, sem kom inn á það að það hefur auðvitað verið mikið kvartað undan lakari póstþjónustu víða um land, ekki bara í þéttbýli heldur í dreifbýli. Póstþjónusta hefur sannarlega tekið miklum breytingum á þeim árum sem hafa liðið síðan frumvarpið varð að lögum árið 2019. Hér er talað um lágmarkspóstþjónustu og hún er skilgreind svo í lögum um póstþjónustu í 4. gr., með leyfi forseta:
„Alþjónusta: Lágmarkspóstþjónusta sem notendum póstþjónustu skal standa til boða á jafnræðisgrundvelli.“
Getur hv. þingmaður svarað mér því hér, umfram það sem lögin kveða á um, hvað er ásættanleg lágmarkspóstþjónusta? Segjum sem svo að þetta næði allt fram að ganga, að hér yrði þetta bara allt að einum stórum samkeppnismarkaði sem póstþjónustan er að einhverju leyti, ég geri mér grein fyrir því. Getur hv. þingmaður sagt mér hvað í hans huga telst vera lágmarkspóstþjónusta?