154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

framkvæmd markaðskönnunar og undirbúningur útboðs á póstmarkaði.

462. mál
[19:12]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og er í rauninni glöð að heyra að góður vinur minn, hv. þingmaður, er ekki alveg sammála mér. Það er bara eðlilegt því að þetta eru ekki flokkar sem eru alveg á sama stað þegar kemur að þessu. Þessari þingsályktunartillögu er beint til innviðaráðherra sem fer með póstmálin og gengur einmitt út á það að framkvæma þessa markaðskönnun. En ég segi líka í greinargerðinni að ég tel að í kjölfarið þá verði ástæða til að selja Íslandspóst og það væri þá verkefni fjármálaráðherra sem fer með hlutabréf okkar í Íslandspósti, þannig að það væri annað mál. En það er ekki hægt að ráðast í slíka sölu öðruvísi en að framkvæma þessa markaðskönnun. Hv. þingmaður spyr mig hvað ég telji vera svona lágmarksþjónustu. Íslandspóstur er með bréfdreifingu tvo daga í viku og það er það sem hefur verið skilgreint sem lágmarksþjónusta og ég veit að mörgum finnst það slök þjónusta. Ég held að við séum bara að horfa fram á svolítið breytta tíma og þó að það kunni að vera huggulegt að fá bréfpóst inn um lúguna þegar einhver vill fara þá leið að senda manni þannig póst þá er það þannig að við þurfum sem einstaklingar og fjölskyldur, og það á ekki síður við á landsbyggðinni, að fara annað til að sækja alls konar aðföng, til að mynda matvöru, mögulega olíu á bíl ef fólk er ekki með rafmagnsbíl sem það getur hlaðið heima, þannig að mörgu leyti er ekkert óeðlilegt við það að þú getir nálgast póstinn þinn annars staðar þar sem þú þarft hvort sem er að koma við. Og mér persónulega, virðulegur forseti, finnst það vera miklu betri þjónusta sem einkafyrirtæki hafa verið að veita og ég ætla að nefna bara Dropp sem dæmi. Ég pantaði með stuttu millibili tvo hluti. Annar var sendur með Íslandspósti. Þar kom póstbíll sem keyrði hálft höfuðborgarsvæðið inn götuna mína til að hringja bjöllunni og enginn svaraði og þá var farið til baka með pakkann og honum komið fyrir á pósthúsi. Ég þurfti þá að mæta á pósthús á mjög skilgreindum opnunartíma sem hentaði mér engan veginn og var langt frá mínu heimili og langt frá mínum vinnustað, á meðan Dropp sendi pakkann á næstu N1 verslun og ég gat bara komið við á leiðinni heim, opið til tólf, og voðalega þægilegt. (Forseti hringir.) Svona getur markaðurinn sinnt þessu mun betur heldur en ríkisrekna fyrirtækið Íslandspóstur.