154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

framkvæmd markaðskönnunar og undirbúningur útboðs á póstmarkaði.

462. mál
[19:15]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna er nú hv. þingmaður líka að lýsa þjónustu sem einmitt Íslandspóstur býður upp með á svokölluðum póstboxum, svo það sé sagt. En mig langar aðeins að grípa hérna niður í setningu í greinargerðinni, með leyfi forseta, hvar segir:

„Það virðist alveg ljóst að hægt er að ná fram stærðarhagkvæmni við veitingu lágmarkspóstþjónustu með útvistun verkefna Íslandspósts ohf. til sambærilegra aðila sem sérhæfa sig í mismunandi þáttum póstþjónustu víða um landið.“

Fyrir það fyrsta vil ég spyrja hv. þingmann: Á hverju byggir þessi fullyrðing að það virðist vera alveg ljóst að svo sé hægt að gera? Hv. þingmaður kom hérna með dæmi, sem á sannarlega við í einhverjum tilfellum, að við sem einstaklingar í samfélaginu sækjum alls kyns þjónustu út fyrir heimilið okkar og fáum hana ekki inn um lúguna eða alveg heim að dyrum. En það eru alltaf einhverjir hópar samfélagsins sem ekki geta það og þurfa að reiða sig á aðra einstaklinga til þess að sinna þessu. Og það er nú kannski atriði sem ég vil horfa sérstaklega til og velti því upp spurningunni: Treystum við því eða eru forsendur fyrir því, sem kannski kemur í ljós með einhvers konar frumathugun sem málið fjallar um, að þegar upp er staðið með skilgreiningu á lágmarksþjónustu getum við tryggt að einstaklingar sem eiga þess ekki kost að sækja þessa þjónustu — nú er ég að tala t.d. um lögblinda og/eða fatlaða eða einstaklinga sem með einhverjum hætti eiga rétt á þessari þjónustu á jafnræðisgrunni, svo ég vísi aftur til orðskýringarinnar sem ég fór yfir í fyrra andsvari. Getum við treyst því og telur hv. þingmaður að markaðurinn geti leyst þetta mál? Eða erum við í einhverjum tilfellum að hafa þá ofurtrú á markaðnum að við leyfum okkur bara að láta þessa hópa sem minna fer fyrir í samfélaginu falla á milli skips og bryggju?