154. löggjafarþing — 35. fundur,  22. nóv. 2023.

framkvæmd markaðskönnunar og undirbúningur útboðs á póstmarkaði.

462. mál
[19:17]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Höfum við ofurtrú á markaðnum? Ég hef mikla trú á markaðnum, mun meiri trú held ég en hv. þingmaður, en ég er ekki að leggja til sölu á póstinum eða einkavæðingu á póstinum einkavæðingarinnar vegna, alls ekki. Það eru sumir innviðir sem er bara skynsamlegt að ríkið eigi og reki. Ég held að póstþjónusta sé ekki þar á meðal. Já, hér er sagt í greinargerðinni að við teljum að það sé auðveldlega hægt að sýna fram á það að markaðurinn geti í mjög mörgum tilfellum sinnt þessari þjónustu og við sjáum það bara í dag, við sjáum hvernig póstþjónusta hefur þróast úr því að vera bara bréfsendingar í umslögum í það að vera pakkasendingar. Við erum með ríkisrekið fyrirtæki sem er í rauninni orðið pakkasendingafyrirtæki í dag og er þar af leiðandi á markaði sem áður var bara einkamarkaður og pósturinn hefur hægt og rólega, eða kannski frekar hratt, þróað sig inn á þann markað. Það er algjörlega ótækt. Þegar kemur að þeim sem mögulega eiga erfitt með að sækja póstsendingar þá eru þeir engu að síður í þeirri stöðu að þeir þurfa að sækja alls konar annars konar þjónustu, til að mynda matvörur. Í einhverjum tilfellum eru matvörur sendar heim og fólk getur nýtt sér slíka þjónustu og það sama ætti að geta átt við um póstinn. Ég held líka, hv. þingmaður, að hérna getum við sparað kolefnissporið svolítið. Ég held nefnilega að markaðurinn myndi finna skynsamlegar lausnir í því að nýta þær ferðir sem þegar er verið að fara inn á heimili fólks eða með sendingar inn í dali, til bóndabæja og annað ef markaðurinn fengi tækifæri til að ráða því. Þá er ég bara að vísa í mjólkurbílinn eða eitthvað slíkt sem jafnframt getur verið póstbíll.