154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

breyting á ýmsum lögum í þágu barna.

240. mál
[22:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Í frumvarpinu er mat á kostnaðaráhrifum þess og þar er í raun bara vísað í fjárheimildir í fjármálaáætlun 2022–2026 og í fjárlögum 2022 þar sem er talað um 1,9 milljarða, eða svo, sem eru veittir til að standa straum af kostnaði hjá ríki og sveitarfélögum við innleiðingu verkefnisins. Nú hefur ítrekað komið upp úr dúrnum að þetta er mjög líklega vanáætlun á raunverulegum kostnaði þess að innleiða farsældarlögin í raun og veru ef það á að gera það með einhverjum sóma, en ekki bara af hálfum hug, til þess að ná virkilega markmiðum laganna. Lögin eru vel upp sett að langmestu leyti. Ég segi að langmestu leyti af því að ég geri ég ráð fyrir því að það þurfi alltaf að uppfæra eitthvað smá en ég hef enga sérstaka athugasemd um neitt þar, bara framtíðarþróun og svoleiðis. En það sem út af stendur er enn þá fjármögnunin.

Mig langaði að velta því fyrir mér og spyrja hv. þingmann: Var fjallað um fjármögnun þessa frumvarps og þessara laga í umfjöllun nefndarinnar?