154. löggjafarþing — 40. fundur,  29. nóv. 2023.

tóbaksvarnir.

226. mál
[22:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég átta mig alveg á því en vangavelta mín snerist ekki um það. Fólk hefur minnkað tóbaksneyslu sína á undanförnum árum en bara farið í önnur úrræði, ef það má orða það svo, sem eru þá með bragði. Við sem löggjafi þurfum þá væntanlega að elta þau úrræði og banna bragð þar o.s.frv. Vangavelta mín snýst ekki um upprunann og hversu óhollt tóbakið er og ýmislegt svoleiðis heldur að þeirri baráttu að löggjafinn sé einhvern veginn að ganga um með hamar og lemja á fólki fyrir að neyta ógáfulegra efna, huga ekki frekar að hinum endanum og reyna að höfða til fólks, að það sé kannski ógáfulegt að gera það eða að gera það alla vega á ábyrgan hátt. Ég skil vel að það sé rosalega hentugt að setja þann miða á að þetta sé til þess að koma í veg fyrir að börn séu að neyta þessara efna. Það er verið að reyna að gera það líka með klámefni á netinu, það má ekki dulkóða og það eiga að vera auðkenningar og ýmislegt svoleiðis til að koma í veg fyrir að börn geti horft á klám. Þessi miði er notaður til þess einmitt, þetta er allt gert til að vernda börnin. En það er einhvern veginn svo mikil leti því að þetta kemur til með að gerast. Fólk kemur til með að neyta tóbaks og/eða annarra og ógáfulegra vímuefna, kaffis eða hvað sem það er, og mér finnst mjög skrýtið að við hérna á löggjafarþinginu þurfum að ganga á eftir fólki sem er að neyta misgáfulegra efna og lemja með einhverjum lagahamri. Nei, má ekki, skamm, mátt ekki, en ef þetta er ekki með bragðefni, þá gjörðu svo vel, annars ekki. Það er þaðan sem hugsun mín kemur, ekki hver tilgangurinn sé, að útrýma þessu eða eitthvað svoleiðis. (Forseti hringir.) Mér finnst það tilgangslaust, það mun ekki ganga, en kannski er verið að beina fólki í einhver hollari efni, ég veit það ekki.