tóbaksvarnir.
Virðulegi forseti. Þetta mál er búið að vera til umfjöllunar í velferðarnefnd í dágóðan tíma, var á síðasta löggjafarþingi, 153. löggjafarþingi, og er hér aftur á þessu þingi, Ég er á því að þetta sé góð leið, hvort sem við viljum tala um forsjárhyggju eða hvað það nú er. Við erum gjarnan spurð að því hvaða meðul við höfum notað til að ná jafn langt í forvörnum og draga úr tóbaksnotkun eins og raun ber vitni. Við erum auðvitað meðal fyrstu þjóða til að innleiða viðvörunarmerki. Þegar ég fór að lesa í kringum þetta mál sá ég að það var síðan 1971 og þá fannst mér vera ótrúlega langur tími liðinn. Ég var í þeim hópi sem notaði talsvert mikið af þessari vöru, hvort heldur hún var með mentólbragði eða tóbaksbragði, og ég man þegar myndmerkingarnar komu fram og hvaða áhrif það hafði. Síðan var tekin ákvörðun um að tóbak mætti ekki sjást. Ég held að þetta allt skipti máli. Ég er alveg sammála því sem hér er nefnt, að taka upp einsleitar umbúðir og annað slíkt og ég held að þetta séu bara allt þættir í því að hjálpa til við að draga úr neyslu. Ég tel ekki að þetta séu fyrst og fremst miðaldra konur sem eru að reykja Salem eða Capri eða eitthvað þó að það sé eflaust stór hópur fólks sem er miðaldra sem neytir þessarar vöru.
Nú er það svo að söluaðilar hafa vitað af þessu lengi en ástæðan fyrir þessum lengda tíma er kannski fyrst og fremst til þess að þeir sem neyta hafi þá rými til þess, kjósi þeir það, að skipta yfir eða jafnvel bara að hætta. Það væri náttúrlega langbest. Þess vegna er aðlögunartíminn lengdur hér að tillögu nefndarinnar. Ég held að það sé ástæða til að taka utan um þetta eins og hér var nefnt áðan. Við erum gjarnan að setja heimsmet í öllum sköpuðum hlutum. Við erum þjóð sem neytir ekki 3% vara með einkennandi bragði eða mentól eins og kemur fram í álitinu heldur svo margfalt meira, það er miklu stærri hópur hér sem neytir þessarar vöru. Það er eins með nikótínpúðana, við erum líklega önnur stærsta þjóðin, alla vega Evrópuþjóðin, sem er að neyta þeirra, þ.e. í magni. Ég er algjörlega á því að við verðum að ná utan um þetta. Ég hef miklar áhyggjur af þeirri vöru og líka í rauninni veipinu. En þessir púðar — bara síðast í vikunni frekar en rétt fyrir síðustu helgi var ungur piltur, 17 ára, kominn með eitrun og var fluttur inn á Landspítala. Styrkleikinn er jafnvel slíkur að það geta verið álíka mikil áhrif af einum púða, getur verið það í styrkleika, eins og af heilum tóbakspakka. Það er kannski eins og mörg hver átti sig ekki á því. En aðalmálið er auðvitað það að þetta er gríðarlega ávanabindandi og ég myndi vilja að ráðherrann tæki þetta upp og það þyrfti ekki að bíða eftir einhverju frá Evrópu til þess. Mér finnst ástæða til að við tökum utan um þetta. Ég hitti nú bara í gær konu í mínum stigagangi sem er leikskólakennari sem sagði að það færi gjarnan tími í það á morgnana að tína upp af skólalóðinni púða þannig að börnin héldu ekki að þetta væri tyggjó eða eitthvað og væru að stinga þessu upp í sig því þetta er, eins og við höfum heyrt og hér var nefnt, skilið eftir úti um allt.
En þetta er svo dæmigert virðist vera fyrir okkur Íslendinga að taka allt svona með miklu trukki og dýfu. Það er áhyggjuefni að þetta færist einhvern veginn til, fyrst var það veipið, og það var einmitt þetta með bragðefnin og stundum með tóbaki og stundum ekki, og nú eru það þessir púðar sem tröllríða öllu. Það má vel vera að einhverjum finnist það vera of mikil afskiptasemi af hálfu ríkisins að taka utan um það með stífum hætti. Sumir eru á því að þetta eigi bara að fá að fjara út og deyja út með einhverjum kynslóðum sem eru að reykja og eru stærstu neytendur mentólsígaretta. En ég held að við eigum að hjálpa til og þess vegna er ég fylgjandi þessu máli og tel að þetta sé forvörn, ekki síður en annað sem við höfum gert þegar kemur að notkun á tóbaki.