tóbaksvarnir.
Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yndislega ræðu, þetta var æðislegt. Takk kærlega fyrir. Saumaklúbbar Íslands — þetta er frábært. Ég bara tek hjartanlega undir hvert orð sem kom þarna fram. Það er nefnilega svo auðvelt að klæða svona mál í einhvern búning þess að það sé verið að bjarga börnunum en ég held að ræða hv. þingmanns hafi einmitt skýrt sýnt fram á að hvað þennan veg varðar þá kemur þetta í rauninni því máli ekkert við. Þetta er ekki í alvörunni til að vernda börnin. Það er eitthvað annað þarna á bak við. Það eru aðrar og betri leiðir til að vinna að forvörnum og fræðslu, sem sagt koma í veg fyrir að fólk velji ógæfulega hluti til að gera, í staðinn fyrir að nota stóra bannhamarinn og lemja á fólki og segja skamm þegar þetta er bara ákvörðun fólksins sjálfs. Þegar það skaðar aðra er það allt annað mál, allt annað mál, en þetta er ekki þannig tilfelli að mínu mati. Óbeinar reykingar skaða vissulega aðra en við erum með alls konar annað til að glíma við það og ef það væri í raun og veru eitthvað sem við værum að nálgast værum við að banna sígarettur almennt séð en ekki bara mentól. En við höfum ekki farið þangað, alveg eins og við höfum ekki bannað áfengi sem líka skaðar aðra, eins og þegar fólk er ölvað og þess háttar, af því að við segjum einmitt að það sé á ábyrgð fólksins sem drekkur en ekki áfengisins sjálfs. Þetta á við um fleiri vímugjafa. En mig langaði bara að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.