154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

aðgerðir varðandi fíknisjúkdóma og geðheilbrigðismál.

[15:09]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Eitt er víst að ég ber traust til ráðherrans. Ég ber traust til hæstv. ráðherra, Willums Þórs Þórssonar, og að hann muni gera allt sem í hans valdi stendur til að vinna að þessum málum heill. En það breytir ekki þeirri staðreynd að það ríkir algjört ófremdarástand í málaflokknum. Ég veit ekki hvað er til ráða. Ég kannski vissi það ef ég hefði haft tækifæri til að vinna í málaflokknum en því miður get ég með engu einasta móti skilið hvað í rauninni er hér á ferðinni. Fyrir utan það langar mig að nefna þá fordóma sem ríkja gegn fíknisjúkdómum sem eru ekki síðri en virðast vera gegn geðsjúkdómum, að einstaklingar sem eru virkilega að leita sér hjálpar og í endurhæfingu vegna fíknisjúkdóms eru sviptir endurhæfingarlífeyri á meðan. Það er eins og þeir séu ekki lengur til. Það er eins og þeir eigi ekkert heimili þar fyrir utan, börn eða ábyrgð eða neitt. Þeir eru bara sviptir öllu, takk fyrir kærlega pent. Ég skora því á hæstv. ráðherra að við tökum saman höndum hér og nú og breytum þessu, að þetta ár verði bara sett undir það að a.m.k. byggja þessa stoð betur fyrir fólkið okkar.