154. löggjafarþing — 72. fundur,  13. feb. 2024.

bókun 35 við EES-samninginn.

635. mál
[16:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við fáum tækifæri hér í þinginu til að ræða um þá skýrslu sem ég ákvað að leggja hér fyrir þingið vegna bókunar 35 við EES-samninginn. Þessa skýrslu, virðulegi forseti, kynni ég hér í dag en hana má rekja til umræðna sem fram fóru fyrir u.þ.b. ári síðan þegar þáverandi utanríkisráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á EES-lögunum frá 1993. Það frumvarp snýr að því að móta nýja lögskýringarreglu við framkvæmd bókunar 35 við EES-samninginn.

Umræður um málið leiddu í ljós að margir virtust telja að efni málsins væri annað heldur en raunin er. Í þessu ljósi held ég að það verði hreinlega að segja að sumir hafi misskilið efni frumvarpsins og umræðan síðan að verulegu leyti byggst á þeim misskilningi. Þeir sem þannig tjáðu sig áttuðu sig ekki á því að með frumvarpinu var ekki á nokkurn hátt hróflað við bókun 35 heldur sneri frumvarpið að því hvernig staðið hefur verið að framkvæmd þessarar bókunar innan íslenskrar lögsögu. Þessari skýrslu er ætlað að vera grundvöllur að, ég vonast til þess, málefnalegri umræðu. Henni er um leið ætlað að varpa ljósi á framkvæmd bókunar 35 í þau 30 ár sem hún hefur gilt hér. Framkvæmd þessi breyttist vegna dóma Hæstaréttar og síðari túlkunar dómstóla á túlkun 3. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið.

Þess má geta hér svona í framhjáhlaupi að Hæstiréttur Íslands hefur einmitt þessa dagana til meðferðar mál sem sýnir að það eru dæmi um að einstaklingar byggi rétt sinn og kröfu beint á EES-samningnum. Við erum í grunninn sem sagt í því ljósi að fjalla um rétt einstaklinga til þess að njóta, ja, við skulum segja þess ávinnings sem EES-samningurinn hefur í för með sér. Ég nefni þetta tilvik, þetta mál sem er nýlega dómtekið í Hæstarétti til vitnis um það að við erum með splunkuný dæmi um að einstaklingar vísi beint í EES-reglurnar og vilji byggja rétt sinn á þeim. Í því ljósi hlýtur öllum að vera ljóst hversu miklu það skiptir að við framkvæmum þá bókun 35 í samræmi við það sem upphaflega stóð til.

Í upphafi þessarar skýrslu er farið yfir hvað felst í bókun 35 við EES-samninginn og hvernig bókunin var innleidd. Þá er fjallað um þær umræður sem áttu sér stað við lögfestingu EES-samningsins með lögum nr. 2/1993, m.a. út frá stjórnskipun og fullveldi, en einnig út frá tveggja stoða kerfi samningsins. Þegar málið var rætt á sínum tíma fór ekkert á milli mála hvað fælist í bókun 35; að tryggja jafna réttarstöðu Íslendinga á sameiginlega innri markaðnum. Í skýrslunni er síðan rakið sameiginlegt mat stjórnvalda og flokka á Alþingi allar götur síðan um að samningurinn í heild sinni sé okkur hagfelld umgjörð í Evrópusamvinnunni og ítrekað, eins og við þekkjum, vísað til þess að við viljum byggja tengsl okkar við Evrópu á EES-samningnum, t.d. í stjórnarsáttmálanum, aftur og aftur.

Í skýrslunni er lýst framkvæmd ákvæðisins í 3. gr. EES-laganna, en eins og ég sagði í upphafi er misbrestur á henni ástæða þess að flutt var frumvarpið í fyrra, misbrestur sem valdið hefur athugasemd frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Við honum má bregðast með breyttri framkvæmd ákvæðisins hér eða bíða þess að EFTA-dómstóllinn taki fyrir kæru frá ESA og kveði upp sinn dóm. Ég verð að segja að það kæmi mér ekki á óvart að einhverjir myndu segja að það sé enginn misbrestur. Þau sjónarmið verða þá að fá að komast að hér í umræðu um þetta mál og ég myndi gjarnan vilja fá rökstuðning fyrir því og heyra málflutning fyrir því að málsgrundvöllur ESA í þessu máli sé ekki á nægilega traustum stoðum reistur. Þá kemur það bara fram í umræðunni og við tökum tillit til þess þegar við tökum næstu skref enda eigi þau sjónarmið sterkan hljómgrunn hér í þinginu. Ég hef hins vegar ekki heyrt það enn sem komið er. Ég hef talið að fyrri kosturinn, þ.e. að bregðast við með breyttri framkvæmd, sé skynsamlegri kostur og ég tel skýrsluna leiða það í ljós að sá kostur er vel fær. Í þessu sambandi má segja að til fyllingar þessari skýrslu og frekari skýringa sé vönduð greinargerð sem fylgdi frumvarpinu sem lá hér fyrir þinginu í fyrra. Það er efnislega í sjálfu sér málið sem við höfum gert ráð fyrir að komi hér fram og er á þingmálaskránni. En ég er ekki að leggja hér fram skýrslu og kalla eftir umræðu og sjónarmiðum þingsins bara til þess að koma síðan fram með málið algjörlega óbreytt. Ég mun að sjálfsögðu hlusta eftir því sem heyrist hér í þinginu og er opinn fyrir því að taka við hugmyndum um það hvernig menn gætu með öðrum hætti en þessum breytt framkvæmdinni. Ég tel hins vegar að færð hafi verið ágæt rök fyrir þeirri leið sem áður hefur verið kynnt þinginu. Í greinargerð frumvarpsins eru helstu lögfræðilegu rök skýrð en síðan í þessari skýrslu er kannski meira litið til pólitískra sjónarmiða og farið dýpra í það hvernig við höfum framkvæmd EES-samninginn.

Virðulegi forseti. Í þessari skýrslu er ætlað að setja í samhengi frumvarpið sem lagt var fram á fyrra þingi og dýpka umræðu um það mál. Þetta er sannarlega mikilvæg umræða og ég ætla að fá að lýsa því sjónarmiði mínu hér að það hefur oft á tíðum því miður gerst að okkur mistekst að ræða af einhverri yfirvegun og á dýptina stór álitamál og mikilvæg, einfaldlega vegna þess að umræðan hefst með tillögugerð og þar með fara allir ofan í einhverjar skotgrafir og svo blandast málin hérna inni í þinglokasamninga og við komumst aldrei á dýptina í umræðunni og það fara aldrei fram málefnaleg skoðanaskipti um það sem helstu máli skiptir. Við því má stundum bregðast með því einfaldlega að ræða málið á breiðum grundvelli án þess að fyrir þinginu liggi nákvæmlega útfærð tillaga og þaðan í raun og veru sprettur hugmyndin um að leggja hér fram þessa skýrslu.

Ólíkt því sem gildir innan Evrópusambandsins fá EES-reglur ekki lagagildi eftir upptöku í EES-samninginn og lögfestingu á Alþingi eða innleiðingu stjórnvalda samkvæmt heimild Alþingis. Með þessu er ég að vísa til þess að við höfum verið að byggja á tveggja stoða kerfi og um inntak bókunar 35 var samið við gerð EES-samningsins. Í henni felst þjóðréttarleg skuldbinding sem hefur ekki haggast. Þrátt fyrir bókunina á Alþingi alltaf síðasta orðið um hvaða lög gilda í landinu. Þetta er algjört grundvallaratriði. Það er enginn að leggja til að því sé breytt. Í frumvarpinu sem hér lá áður fyrir var enda alltaf talað um gerðir sem réttilega hafa verið innleiddar í íslenskan rétt.

Virðulegi forseti. Við gerð EES-samningsins var samið um svonefnt tveggja stoða kerfi. Sjálfstæðar stofnanir EFTA-ríkjanna sem eiga aðild að EES-samningnum hefðu á hendi eftirlit með því að EFTA-ríkin stæðu við samningsskuldbindingar sínar. Þessar stofnanir eru ESA og EFTA-dómstóllinn. Það er rakið í skýrslunni að ESA átti frumkvæði að málarekstri gagnvart íslenska ríkinu sem okkur ber að ljúka á farsælan hátt með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. EES-samningurinn var jú gerður í hennar þágu. Einstaklingar og fyrirtæki eiga að geta gengið að rétti sínum vísum samkvæmt samningnum. Frumvarpið sem forveri minn lagði fram á Alþingi í fyrra en var ekki útrætt var leið til þess að leysa málið á okkar forsendum. Þar stóð til að standa við þá skuldbindingu sem felst í EES-samningnum um bókun 35, þessa 30 ára gömlu skuldbindingu. Við fögnum jú 30 árum EES-samningsins á þessu ári, 30 ára afmæli 1. janúar síðastliðinn. Með þessu, með því að standa við þessa skuldbindingu er um leið staðinn vörður um EES-samninginn sjálfan sem okkar mikilvægasta viðskiptasamning og ég vil leyfa mér að segja einfaldlega staðinn vörður um þá leið sem flestum landsmönnum hugnast í Evrópusamvinnu Íslands.

Í þessu sambandi og sem snýr að frumvarpinu sem lagt var fram í fyrra er rétt að nefna mikilvæga ábendingu sem fram kom við meðferð málsins. Hún var á þá leið að skilja mætti frumvarpsákvæði á þann hátt að reglugerðir stjórnvalda sem innleiddu EES-reglur gætu gengið framar lögum frá Alþingi. Slíkt var að sjálfsögðu ekki tilgangurinn og var þetta reyndar áréttað í greinargerð en við munum eftir atvikum taka sérstaklega á þessu atriði við undirbúning endurframlagningar málsins og við þá vinnu hefur orðalagi ákvæðisins verið breytt til að gera þetta alveg skýrt. Hér er ég að vísa í undirbúning á þingmáli sem er á þingmálaskrá.

Virðulegi forseti. Það hefur einnig verið rætt hvort EES-samningurinn sé farinn að ganga of nærri stjórnarskránni með tilliti til framsals valds, umræða sem hefur lifað allt frá því að EES-samningurinn var lögfestur fyrir 30 árum. Þar er reyndar mikilvægt að halda til haga að íslenskir dómstólar hafa ekki gert athugasemdir við þátttöku Íslands í EES-samstarfinu allar götur síðan. Stjórnarskrárumræðan er umræða sem við eigum að halda áfram. Það er gott að hún sé lifandi en hún stendur að mínu mati ekki í vegi fyrir því að leysa það úrlausnarefni sem snertir bókun 35. Niðurstaðan frá því fyrir 30 árum um að bókunin rúmist innan stjórnarskrárinnar stendur óhögguð. Þar hefur ekkert breyst. EES-samstarfið hefur á hinn bóginn orðið víðtækara en það var þá og það hefur allt gerst með samþykkt Alþingis sem ber að sjá til þess að réttur borgaranna skerðist ekki.

Ég ætla ekki að fara mikið dýpra í umræðu um stjórnarskrána og EES-samninginn en mér finnst þetta vera mikilvæg umræða. Það var að mínu viti mjög góð umræða um þetta í EES-skýrslunni sem kom út fyrir nokkrum árum síðan þar sem var reynt að leggja mat á helstu kosti EES-samstarfsins og þá reynslu sem við höfum haft í þessi þá tæpu 30 ár. Það er nú það sem er, held ég, ágætt í þessu þegar við ræðum um EES-málin hér á þingi, ég held að við séum öll sammála um mikilvægi samningsins og þátt hans í að skapa það samfélag framsækni og velmegunar sem við Íslendingar njótum. Í þessum samningi birtist einnig hvernig við höfum nýtt fullveldi okkar til samstarfs við aðrar þjóðir í okkar eigin þágu. Það eiga fá ríki eins mikið undir því og við að staðið sé við alþjóðaskuldbindingar og að alþjóðalög séu virt. Núverandi óvissa í alþjóðamálum hvetur til þess að smáríki árétti mikilvægi alþjóðalaga og þjóðréttarskuldbindinga. Því ber Íslandi auðvitað að virða og taka alvarlega þær grunnreglur sem EES-samningurinn byggist á og bókun 35 er þar engin undantekning.

Ég vil með þessari skýrslu leggja grunn að ítarlegri og vandaðri umræðu á vettvangi þingsins áður en næstu skref eru stigin í málinu. Og þannig að það sé alveg skýrt: Ég er tilbúinn að leggja fram frumvarpið að nýju til að vinna að lausn málsins á okkar forsendum frekar en að bíða niðurstöðu EFTA-dómstólsins, eins og ég sagði hér í upphafi. Það kunna að vera sjónarmið uppi um það að málsgrundvöllur ESA sé ekki nægilega þéttur, ekki nægilega vel rökstuddur. Það má alveg koma fram. Þau sjónarmið verða að fá að komast að ef þau eru hér lifandi í þinginu. Í því sambandi verð ég hins vegar að vísa til þess að stjórnvöld hafa fengið lögfræðinga ítrekað til að skoða málið og það hafa verið starfandi nefndir til að leggja mat á möguleg viðbrögð og niðurstaðan hefur ítrekað verið sú að það væri rétt að bregðast við.

Það sem mér finnst skipta máli áður en við hefjum að nýju umræðu um þetta mál, þessa stöðu sem uppi er vegna túlkunar á bókun 35, er að ég vonast til þess að umræðan fari ekki fram á þeim forsendum að hugmyndir um að bregðast við áliti ESA feli það í sér að við ætlum að gefa frá okkur tveggja stoða kerfið, að við ætluðum að breyta þeirri grundvallarreglu að Alþingi eigi síðasta orðið um það hvaða lög gildi í landinu. Þetta mál snýst ekki um það. Frumvarpið sem lá fyrir þinginu á síðasta ári snerist ekki um að gera þá breytingu. Ég hyggst ekki leggja fyrir þingið frumvarp sem myndi fela neitt slíkt í sér.

Virðulegi forseti. Með vísan til þess sem ég hef hér sagt þá hef ég ákveðið að óska eftir því að þessari skýrslu verði að lokinni umræðunni vísað til hv. utanríkismálanefndar. Ég er að vonast til þess að nefndin geti tekið þessa skýrslu til umfjöllunar og skilað áliti. Það væri mjög gagnlegt fyrir næstu skref. Það myndi þroska umræðuna áfram í átt að því að við tækjum ákvörðun um það hvernig ætti að bregðast við. Ég held að það sé bara sjálfsagt að segja frá því að ég legg það mat á málin að ef við ekki tökum ákvörðun á þessu þingi, að breyta framkvæmdinni, þá megi búast við því að málið sem ESA hefur sett af stað fari á næsta stig og það verði tekið fyrir EFTA-dómstólnum. Það má ekki skilja mig þannig að ég líti á það sem einhvern hræðilegan atburð. Ég er bara frekar að færa rök fyrir því að það sé ekkert unnið með því, að við getum brugðist við, það sé hægt að breyta framkvæmdinni, og þetta verðum við í sameiningu að vega og meta.