154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:12]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 er kveður á um heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna, eflir eftirlit með störfum lögreglu og hefur að geyma lagafyrirmæli um vopnaburð lögreglumanna.

Frumvarp þetta er afrakstur vinnu dómsmálaráðuneytisins sem staðið hefur yfir undanfarin ár og varðar greiningu og endurskoðun á þeim lagaheimildum sem lögregla hefur til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum í því skyni að stemma stigu við skipulagðri brotastarfsemi og brotum sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins.

Með aðgerðum af þessu tagi er átt við heimildir lögreglu til að hafa afskipti af einstaklingum, bein eða óbein, í því skyni að koma í veg fyrir að afbrot verði framið án þess þó að grunur um slíkt brot sé til staðar. Í b. lið 1. gr. lögreglulaga er kveðið á um afbrotavarnahlutverk lögreglu og er það að nokkru nánar útfært í 15. gr. laganna. Lögin mæla hins vegar ekki fyrir með skýrum hætti í hverju slík afskipti geta falist eða hversu umfangsmiklar aðgerðir lögreglu í þágu afbrotavarna kunna að vera. Af því leiðir að lögregla verður að styðjast við almennar heimildir laganna er hún sinnir hlutverki sínu á þessu sviði, m.a. í formi upplýsingaöflunar og eftirlits með stöðum og fólki.

Með frumvarpi þessu er ætlunin að skýra, útfæra og styrkja heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna og bæta þar með starfsumhverfi lögreglu. Er eins og áður segir einkum horft til þess að efla getu lögreglu til að koma í veg fyrir skipulagða brotastarfsemi og brot sem beinast gegn öryggi ríkisins. Til að átta sig betur á samhengi þessa við störf lögreglu er í frumvarpinu sérstaklega fjallað um lagaheimildir hér á landi og þær bornar saman við heimildir lögreglu á hinum Norðurlöndunum. Af þeim samanburði er ljóst að starfsumhverfi, stofnanauppbygging og lagaheimildir lögreglu á sviði afbrotavarna eru mun takmarkaðri hér á landi samanborið við nágrannaríki, einkum að því er varðar öryggi ríkisins. Segja má að með samþykkt frumvarpsins verði í raun engin breyting þar á, en stigið verður hins vegar skref í þá átt að lögregla geti unnið með markvissari hætti í þágu almennra afbrotavarna, sem og til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi og tryggja öryggi ríkisins og almennings.

Sé horft nánar til efnis frumvarpsins er annars vegar kveðið á um almennar heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna og hins vegar afbrotavarnir þegar kemur að aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi og afbrotavarnir í þágu öryggi ríkisins. Í grófum dráttum má greina þær heimildir sem frumvarpið hefur að geyma í þrennt:

Í fyrsta lagi er verið skjóta skýrri lagastoð undir heimild lögreglu til að afla og nýta upplýsingar sem hún býr yfir í því skyni að stemma stigu við afbrotum. Í því felst heimild til að nýta upplýsingar til greiningar en jafnframt að afla upplýsinga með almennum aðgerðum í þágu afbrotavarna, þar á meðal með því að hafa eftirlit á almannafæri, vakta vefsíður sem opnar eru almenningi og með samskiptum við uppljóstrara. Aðgerðir af þessu tagi verða ekki taldar með tæmandi hætti og er því gert ráð fyrir því í frumvarpinu að þær verði nánar útfærðar í reglugerð sem ráðherra setur. Til viðbótar er kveðið á um sérstaka heimild fyrir lögreglu til að afla upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum og stofnunum ef upplýsingarnar eru nauðsynlegar og til þess fallnar að hafa verulega þýðingu fyrir störf hennar í tengslum við rannsókn alvarlegra brota gegn öryggi ríkisins, eða til að afstýra slíkum brotum.

Í annan stað er mælt fyrir um afmarkaða heimild lögreglu til að hafa eftirlit með einstaklingum sem tengjast skipulögðum brotasamtökum eða sem sérgreind hætta kann að stafa af fyrir öryggi ríkisins eða almennings. Kjarninn og mikilvægi þessarar heimildar felst í því að lögreglu verður kleift að hafa eftirlit með slíkum einstaklingum án þess þó að þeir séu grunaðir um tiltekið brot. Aðalatriðið er að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar um að viðkomandi hafi annað hvort tengsl við skipulögð brotasamtök eða af honum kunni að stafa sérgreind hætta. Sé hins vegar grunur um brot til staðar er lögreglu eftir sem áður heimilt að hafa eftirlit með viðkomandi á grundvelli laga um meðferð sakamála. Heimild þessi er því nauðsynleg viðbót við heimildir lögreglu til að stemma stigu við skipulagðri brotastarfsemi og koma í veg fyrir brot sem geta ógnað öryggi ríkisins og borgaranna.

Umrædd ákvæði frumvarpsins fela í sér heimild fyrir lögreglu til að fylgjast með ferðum einstaklings á almannafæri og veita viðkomandi eftirför á milli staða. Er hér um að ræða aðgerð sem almennt er nefnd skygging og hefur m.a. það að markmiði að staðreyna grun um afbrot. Lögregla skal þó aldrei viðhafa ítarlegra eftirlit en nauðsynlegt er. Þá skal hún gæta meðalhófs og tryggja að ekki sé gengið nær friðhelgi viðkomandi en tilefni er til hverju sinni.

Þar sem eftirlit af þessu tagi er sértækt í þeim skilningi að það beinist að ákveðnum aðilum, einum eða fleiri, er kveðið á um að beiting þess sé háð ákveðnum skilyrðum. Eftirliti verður þannig aðeins beitt hafi lögregla áreiðanlegar upplýsingar um að tiltekinn einstaklingur eða hópur einstaklinga hafi tengsl við skipulögð brotasamtök eða af honum kunni að stafa sérgreind hætta fyrir almannaöryggi. Þá verður úrræði þessu aðeins beitt að undangenginni ákvörðun lögreglustjóra og skal sú ákvörðun í kjölfarið borin undir stýrihóp um skipulagða brotastarfsemi til staðfestingar. Það er því á ábyrgð lögreglustjóra hverju sinni að ákvörðun um að viðhafa eftirlit með einstaklingi uppfylli skilyrði laganna. Ákvörðun skal jafnframt skráð í kerfi lögreglu og um leið tilkynnt gæðastjóra lögreglu. Gildissvið frumvarpsins er þrengt verulega með þessum skilyrðum og verður eftirliti þar af leiðandi ekki beitt við hefðbundnar aðgerðir í þágu afbrotavarna heldur aðeins þegar þær varða skipulagða brotastarfsemi eða teljast ógn við öryggi ríkisins eða almennings.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um að lögreglu verði við tilteknar aðstæður heimilt að beita þvingunarúrræði í því skyni að koma í veg fyrir brot gegn öryggi ríkisins. Nánar tiltekið er um heimild til haldlagningar að ræða er beinist að þriðja aðila og verður henni aðeins beitt að undangengnum dómsúrskurði. Þá eru þau skilyrði sett að haldlagning sé nauðsynleg og líkleg til að veita lögreglu upplýsingar sem hafi verulega þýðingu fyrir aðgerðir til að koma í veg fyrir brot gegn öryggi ríkisins, auk þess að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist þess. Mikilvægi heimildar af þessu tagi felst í því að lögreglu verður gert kleift að afla nauðsynlegra upplýsinga hjá þriðja aðila óháð þagnarskylduákvæðum í lögum.

Virðulegi forseti. Skipulagðri brotastarfsemi hér á landi hefur vaxið fiskur um hrygg á síðasta áratug líkt og skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra og magn haldlagðra fíkniefna sýna glöggt fram á. Innlend sem og erlend brotasamtök stunda skipulagðan innflutning á fíkniefnum sem og aðra fjölbreytta brotastarfsemi sem ógnar grundvallarhagsmunum íslensks þjóðfélags. Þróun þessarar starfsemi er okkur ekki hagfelld eins og atburðir undanfarið gefa til kynna og merkir lögregla aukna hörku í starfsemi brotasamtaka hér á landi. Manndráp, alvarlegar líkamsárásir og aukinn vopnaburður sýna slíkt svart á hvítu. Að sama skapi má ekki gera lítið úr möguleikanum á að hér á landi kunni að verða framin hryðjuverk eða önnur alvarleg brot gegn öryggi ríkisins eða tilraun til slíks atburðar skipulögð. Nýleg skýrsla greiningardeildar gefur einmitt til kynna sú hætta hafi aukist, í samræmi við þróun í nágrannaríkjum okkar.

Með frumvarpi þessu er löggæsluyfirvöldum veitt nauðsynleg verkfæri til að takast á við þá alvarlegu ógn sem hér hefur verið lýst. Það er grundvallarforsenda fyrir því að íslenskum stjórnvöldum takist að draga úr umfangi skipulagðrar brotastarfsemi að lögreglu verði veitt raunveruleg og skilvirk úrræði til að grípa til aðgerða áður en grunur um afbrot er til staðar og ná þannig að uppræta starfsemi skipulagðra brotasamtaka og vinna gegn frekari uppgangi þeirra. Í frumvarpinu felast afmarkaðar heimildir til handa lögreglu til að vinna markvisst gegn skipulagðri brotastarfsemi og vernda öryggi ríkisins og almennings. Öfugt við það sem virðist oft mega ráða af opinberri umræðu felur frumvarpið ekki að nokkru leyti í sér víðtækar eftirlitsheimildir með almennum borgurum eða að verið sé að setja á stofn einhvers konar leyniþjónustu.

Hin hliðin á þessu máli er að heimildum þeim sem mælt er fyrir um í frumvarpinu fylgir auðvitað mikil ábyrgð og er mikilvægt að tryggja að þeim verði aðeins beitt að uppfylltum skilyrðum laga og ekki í meira mæli en nauðsynlegt er. Vegna þessa gerir frumvarpið ráð fyrir því að eftirlit með störfum lögreglu verði eflt verulega og að sérstakt eftirlit verði með aðgerðum lögreglu í þágu afbrotavarna.

Í þessu skyni verður komið á fót innra gæðaeftirliti hjá embætti ríkislögreglustjóra og skal ráðherra skipa í embætti gæðastjóra lögreglu til fimm ára í senn. Jafnframt er nefnd um eftirlit með lögreglu efld til muna og verður nefndarmönnum fjölgað úr þremur í fimm og starf formanns gert að fullu starfi og skal ráðherra skipa formann til fimm ára. Þá verður starfsmönnum nefndarinnar einnig fjölgað.

Vegna eðlis og umfangs tiltekinna aðgerða sem lögreglu verður heimilt að beita í þágu afbrotavarna er kveðið á um í frumvarpinu að nefnd um eftirlit með lögreglu skuli hafa eftirlit með að aðgerðir uppfylli skilyrði laganna. Nánar greint, skal lögregla, þegar tiltekinni aðgerð er lokið, tilkynna nefndinni um það eins fljótt og unnt er. Jafnframt skal lögregla við upphaf aðgerðar skrá hana í kerfi lögreglu og tilkynna um það til gæðastjóra lögreglu þannig að tryggja megi rekjanleika aðgerða. Telji nefndin tilefni til skal hún taka aðgerð til skoðunar og sé afstaða nefndarinnar að aðgerðir lögreglu hafi ekki uppfyllt skilyrði laga getur nefndin beint því til lögreglustjóra að tilkynna viðkomandi að hann hafi sætt eftirliti. Er lögreglustjóra skylt að verða við slíkum tilmælum. Vakni hins vegar grunur um refsiverða háttsemi skal nefndin án tafar senda héraðssaksóknara eða eftir atvikum ríkissaksóknara málið til meðferðar. Með þessu er tryggt að einstaklingar geti leitað réttar síns komi til þess að aðgerðir hafi verið viðhafðar að ósekju eða ekki uppfyllt skilyrði laga að öðru leyti.

Loks er mælt fyrir um að nefndin skuli skila Alþingi skýrslu ár hvert um störf sín þar sem upplýst er um viðeigandi tölfræði varðandi eftirlit nefndarinnar, almennar ábendingar og athugasemdir varðandi verklag og starfshætti lögreglu, aðgerðir lögreglu í þágu afbrotavarna og tillögur að úrbótum á lögum, ef við á.

Frumvarp þetta veitir þannig ríkt og nauðsynlegt aðhald með störfum lögreglu, ekki aðeins á sviði afbrotavarna, heldur einnig almennt og er því ekki aðeins til þess fallið að bæta starfsumhverfi lögreglu heldur einnig auka réttaröryggi borgaranna.

Að lokum skal nefnt að frumvarp þetta kveður á um lögfestingu tiltekinna grundvallarákvæða í gildandi reglum um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna frá árinu 1999 sem birtar voru fyrst opinberlega með auglýsingu nr. 156/2015. Reglur þessar voru settar á grundvelli 1. mgr. 3. gr. vopnalaga, nr. 16/1998, er kveður á um að ráðherra setji sérstakar reglur um vopn í eigu lögreglu. Eðlilegra er hins vegar að kveðið sé á um meðferð og notkun vopna í lögreglulögum og reglum settum á grundvelli þeirra frekar en í vopnalögum. Frumvarpið hefur ekki að geyma efnislegar breytingar á þeim reglum sem gilda um þau vopn sem lögreglu er heimilt að nota og hvernig meðferð þeirra er háttað heldur er fyrst og fremst verið að flytja lagastoð reglnanna yfir í lögreglulögin.

Jafnframt er lagt til að mælt verði fyrir um í lögum um starfsemi stýrihóps lögreglu um aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi en hópurinn starfar í dag undir forystu héraðssaksóknar og hefur það hlutverk að samræma aðgerðir lögreglu á landsvísu í málaflokknum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir aðalatriðum frumvarpsins og legg til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og góðrar 2. umræðu.