154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:28]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég styð það eindregið að lögregla fái auknar heimildir til að taka á skipulagðri glæpastarfsemi en það er ekki sama hvernig það er gert. Ég treysti því að þetta frumvarp verði rýnt mjög rækilega í allsherjar- og menntamálanefnd út frá þeim kröfum sem við gerum í réttarríki.

Ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra um mjög afmarkað atriði. Nýlega var greint frá umfangsmikilli lögregluaðgerð í fjölmiðlum þar sem einn hinna handteknu var grunaður um að vera meðlimur í hryðjuverkasamtökum. Haft var eftir samskiptastjóra ríkislögreglustjóra á vef Heimildarinnar að núgildandi lagaumhverfi hefði komið í veg fyrir að lögregla gæti notað og lagt til grundvallar í málinu allar upplýsingarnar sem hún bjó yfir og hafði m.a. fengið frá erlendum lögregluyfirvöldum, enda hefði það getað stefnt lífi og limum uppljóstrara, upplýsingagjafa, í hættu.

Ég vil því spyrja: Er hæstv. ráðherra sannfærður um og hefur ráðherra fengið það kirfilega staðfest að staðan í þessu máli og öðrum (Forseti hringir.) sambærilegum hefði verið önnur ef ákvæði þessa frumvarps sem hér er rætt í dag hefðu verið orðin að lögum og að lögregla hefði þá getað byggt á þeim upplýsingum (Forseti hringir.) sem hún hafði?