154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:36]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég bið hæstv. ráðherra að leiðrétta mig ef ég fer rangt með, en það er minn skilningur af svörum hæstv. ráðherra að það sé engin vinna í ráðuneytinu við að setja á fót sjálfstætt eftirlit með lögreglu líkt og tíðkast í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við. Ég bið hæstv. ráðherra um að leiðrétta mig ef þetta var rangt skilið. Það að fjölga í nefnd sem hefur ekki þau völd og þær heimildir sem hún þarf og þá virðingu sem hún þarf til að sinna sínum störfum bætir augljóslega ekki úr þessum vanda.

Hin spurningin sem mig langar til að beina til hæstv. ráðherra varðar atriði sem kemur fram í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um að hafa eftirlit með einstaklingi verður aðeins tekin af lögreglustjóra og skal bera hana undir stýrihóp um skipulagða brotastarfsemi til staðfestingar svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur sólarhringum eftir að ákvörðun er tekin.“

Við meðferð málsins á síðasta þingi var sú athugasemd gerð af hálfu margra aðila að það væri eðlilegt að krefjast dómsúrskurðar, staðfestingar dómara, á þessum heimildum. Viðbrögð ráðuneytisins voru að bæta við stýrihópi (Forseti hringir.) um skipulagða brotastarfsemi sem er skipaður lögreglustjórum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna er ekki gætt samræmis í lögunum (Forseti hringir.) og farið fram á staðfestingu dómara frekar en nýrrar nefndar sem í ofanálag er innanborðs?