154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil undirstrika það að ég tel mjög mikilvægt að þetta mál fái efnislega meðferð og vona að það náist sem mest þverpólitísk samstaða um það að styðja við lögregluna, bara þannig að það sé sagt, ekki síst til þess að auka öryggi þjóðarinnar, öryggi landsmanna þegar kemur að síbreytilegum heimi. Hitt er síðan að þegar ég fer yfir fjáraukalög þá sé ég ekki forgangsraðað verulega í þágu lögreglunnar. Við vitum það nú þegar að á meðan útþensla ríkissjóðs hefur verið með þeim hætti sem hún er undir forystu Sjálfstæðismanna hefur ekki verið sett fjármagn í löggæsluna. Það er staðreynd. Þess vegna vona ég að sjötti eða sjöundi ráðherra Sjálfstæðisflokksins sýni núna dug og frumkvæði í því að hlúa betur að lögreglunni. Ég tel mikilvægt að stjórnsýslulögin hafi verið dregin fram hér. Ég held að þau muni koma hér að mjög miklu gagni. Ég vil þó vara við því að stjórnsýslulögin verði einhver skjöldur fyrir ríkisstjórnina af því að það verður að segjast eins og er að þessi ríkisstjórn sem nú situr (Forseti hringir.) hefur ekki beint verið að hlýða stjórnsýslulögum eða fylgja þeim eins og á að gera. (Forseti hringir.) Verkefnið þegar kemur að stjórnsýslulögum hefur ekki beint verið til fyrirmyndar.