154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að inna ráðherra eftir svörum um athugasemdir sem hún lét falla í ræðu sinni þar sem hún sagði, með leyfi forseta:

„Öfugt við það sem virðist oft mega ráða af opinberri umræðu felur frumvarpið ekki að nokkru leyti í sér víðtækar eftirlitsheimildir með almennum borgurum eða að verið sé að setja á stofn einhvers konar leyniþjónustu.“

Varðandi þessa fyrstu fullyrðingu hæstv. ráðherra, að ekki sé verið að leggja til víðtækar eftirlitsheimildir með almennum borgurum, þá langaði mig að lesa upp fyrir hæstv. ráðherra ætlaða 15. gr. a, „Aðgerðir í þágu afbrotavarna“. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Lögreglu er heimilt, í því skyni að stemma stigu við afbrotum, að nýta, svo sem til greiningar, allar þær upplýsingar sem hún býr yfir eða aflar við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna, þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi.“

Þetta eitt og sér eru víðtækar eftirlitsheimildir með almenningi. Þarna erum við að tala um aðgang að öllum eftirlitsmyndavélum landsins (Forseti hringir.) sem lögregla fær heimild til að vakta til að setja í einhvern gagnagrunn. Er ráðherra virkilega að segja okkur að það sé ekki verið að gefa út víðtækar eftirlitsheimildir með almenningi?