154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:49]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég sé alveg skýr í máli mínu þá er í þessu frumvarpi talað um bein tengsl við skipulagða brotastarfsemi sem geta leitt til þess að lögreglan hefur eftirlit með einstaklingi, þ.e. að lögregla hafi áreiðanlegar upplýsingar um að tiltekinn einstaklingur taki virkan þátt í eða hafi bein tengsl við skipulögð brotasamtök eða að sérgreind hætta kunni að stafa af viðkomandi fyrir öryggi ríkisins eða almenning. Þá getur lögregla fylgst með ferðum hans á almannafæri eða öðrum stöðum sem almenningur hefur aðgang að, en lögreglustjóri þarf að gefa heimild fyrir þessu eftirliti.