154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:50]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við erum hér að ræða afbrotavarnir, mál sem gera á lögreglunni heimilt að bregðast betur en hún getur nú við skipulagðri glæpastarfsemi sem ég held að ekkert okkar velkist í vafa um að fer vaxandi hér í samfélaginu okkar líkt og víðar. Þetta er mál sem fyrirrennari hæstv. dómsmálaráðherra lagði upphaflega fram í árslok 2022 og er síðan eitt þeirra mála sem stjórnvöld kipptu snögglega út af lista þegar þau fóru í skyndilegt sumarleyfi síðastliðið vor. Og nú er málið komið aftur fram.

Það hefur verið mjög skýrt, ekki bara í máli stjórnvalda, dómsmálaráðherra hverju sinni, heldur líka í máli lögreglu að lögreglan hér á landi hefur takmarkaðri heimildir en hún hefur á öðrum Norðurlöndum til rannsókna og afbrotavarna. Ekki síst er það lögreglunni hér fjötur um fót í rannsóknarsamstarfi sem nær yfir landamæri. Við höfum líka fengið mjög skýrar vísbendingar um það frá lögreglunni í öðrum Norðurlöndum og frá stjórnvöldum þar að það að hafa veikan hlekk í slíkri keðju sem norræn samvinna er er mjög slæmt. Sú staða er ekki bara vond fyrir okkur heldur líka fyrir nágrannaþjóðir okkar og getur auðvitað komið í veg fyrir árangursríkt samstarf, sem ég held að fyrst og síðast myndi koma illa niður á okkur.

Þegar málið var reifað fyrst og lagt fram snerist gagnrýnin, svona eins og ég næ utan um það, fyrst og fremst að tvennu; að þess þyrfti að gæta að heimildir lögreglu gengju ekki gegn friðhelgi einkalífs og síðan að samhliða auknum heimildum þyrfti að efla eftirlitið með lögreglunni og það helst áður en þær heimildir sem frumvarpið kvæði á um tækju gildi. Þetta óvænta hlé síðastliðið vor gerði það að verkum að ráðuneytið og nýr ráðherra í kjölfarið fengu greinilega færi á að breyta málinu. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur farið hér vel yfir það hvaða breytingar voru gerðar á málinu og lúta þær ekki síst að eftirlitinu með lögreglu í ljósi þessara nýju heimilda sem verið er að leggja til.

Ég er þeirrar skoðunar, í ljósi þeirrar stöðu sem við búum við og þeirrar reynslu sem ekki bara við heldur nágrannalöndin búum nú yfir, að það sé mikilvægt að lögreglan búi yfir heimildum og verkfærum í samræmi við nágrannaþjóðir okkar til þess, eins og ég fór yfir, að hún geti sinnt starfi sínu og gætt öryggis borgaranna frammi fyrir nýjum og óþekktum aðstæðum og til þess að samstarfið við nágrannaþjóðir okkar sé árangursríkt á þessu sviði. Á sama tíma er það auðvitað gríðarlega mikilvægt að löggjafinn standi vörð um friðhelgi einkalífsins og gæti þess að heimildir lögreglu gangi ekki með óhóflegum hætti gegn þessari friðhelgi, sér í lagi ef það er ekki skýrt að því eigi að fylgja öflugt, sjálfstætt og óháð eftirlit.

Lögreglan hefur sjálf kallað eftir skýrara eftirliti. Ég hef ekki rætt við þann einstakling innan lögreglunnar sem ekki bara sér heldur óskar eftir því að slíkt eftirlit sé til staðar. Það er einfaldlega öllum til bóta. Í þessu frumvarpi eru tekin skref í þá átt en athugasemdir sem borist hafa í umsögnum bera það líka með sér að það er rými til að huga betur að umfanginu og skipan þess eftirlits. Síðan er ekki alveg ljóst hvort breytingarnar sem gerðar hafa verið á málinu núna í meðförum nýs ráðherra séu í nægilegu samræmi við annars vegar óskir lögreglunnar og hins vegar í samræmi við umfang heimildanna til eftirlits með borgurum landsins. Ég bendi á umsögn Persónuverndar af því tilefni. Þetta er auðvitað atriði sem allsherjar- og menntamálanefnd mun fara vel yfir í vinnu sinni við málið.

Mig langar hins vegar að nefna aðra breytingu, og ég er ekki sú fyrsta sem gerir það hér í þessari umræðu, sem myndi hafa afar jákvæð áhrif á öryggi og starfsaðstæður lögreglumanna sem og á afbrotavarnir og öryggi borgaranna. Það er að fjöldi lögreglumanna haldist í við í hendur við fólksfjölgun almennt og flóknari og stærri viðfangsefni sem lögreglan stendur frammi fyrir. Þingflokkur Viðreisnar fór nýlega í heimsókn til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ég verð að segja að — nú er ég að forðast að nota þá enskuslettu sem mér hefði verið tamt að nota af þessu tilefni, ég ætla ekki að gera hæstv. forseta það að þurfa að slá í bjöllu af því tilefni — það opnaði augu mín fyrir því sem ég hafði ekki algjörlega gert mér grein fyrir, hvers lags ofboðslegur samdráttur hefur orðið og fækkun í lögreglunni. Það er fækkun vissulega á landsvísu þar sem tæplega 900 lögreglumenn voru á landinu öllu 2013, og þá held ég að allt sé talið til, nemar og aðrir slíkir, en síðan hefur orðið gríðarleg fólksfjölgun. Fjöldi ferðamanna hefur sprungið út og viðfangsefnin hafa orðið flóknari. Það vantar einhver hundruð lögreglumanna upp á að við séum með nægilegan fjölda í takt við þessa þróun.

Höfuðborgarsvæðið sker sig úr að því leyti til að þar er staðan verst. Lögreglumönnum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað á síðustu 15 árum, ekki hlutfallslega miðað við íbúafjölda heldur hefur þeim einfaldlega fækkað. Þegar síðan eru skoðuð þau atriði sem hafa áhrif á afbrotavarnir þá liggja fyrir upplýsingar um að það er einna mest fylgni á milli fjölda lögreglumanna og færri afbrota. Þetta er skammsýni sem ég á erfitt með að átta mig á, hvernig við höfum látið mál þróast á þennan hátt. Árið 2007 voru lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu 339, árið 2022 voru þeir 297. Þetta er 12% fækkun á sama tíma og íbúum svæðisins hefur fjölgað um 26%. Í ljósi þess að þetta er þéttbýlt svæði þá skerum við okkur ekki bara úr á landsvísu með það hversu fáir lögreglumenn eru miðað við höfðatölu heldur eru viðfangsefnin flókin. Hér eru stærstu afbrotin, alvarlegustu afbrotin, líka þegar kemur að skipulagðri glæpastarfsemi. Höfuðborgarsvæðið sker sig líka úr þegar við berum okkur saman við þéttbýli og borgir í öðrum löndum í kringum okkur.

Það sem ég kalla eftir hér er að við lítum líka til þess að á sama tíma og við erum að taka mikilvægt skref í þá átt að fjölga verkfærum eða bæta verkfæri lögreglunnar þá tryggjum við að það séu einhverjir til að beita þeim verkfærum. Þetta er auðvitað angi af stærra máli. Ég treysti því að allsherjar- og menntamálanefnd fari vel yfir þetta tiltekna mál sem við ræðum akkúrat hér. Ég treysti því líka að hæstv. dómsmálaráðherra, ráðherra lögreglumála, hafi augun á boltanum þegar kemur að stöðu löggæslunnar í heild sinni og ég treysti því líka að hæstv. ráðherra láti aðgerðir í þá veru fylgja orðum. Það verður að segjast eins og er að hæstv. ráðherra situr hér sjöundi í röð ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Ekki einn þeirra talaði á þann veg að ætlunin væri að draga úr löggæslu á landinu, heldur þvert á móti. Ég myndi segja: Allt er þegar sjö eru og nú erum við með ráðherra sem vonandi lætur verkin tala.