154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:11]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég get verið algjörlega sammála því að eftirlit með löggæslu er alveg ofboðslega mikilvægt og ég vona svo sannarlega að það komi skýrt í gegn í þessu frumvarpi. Kerfið okkar er auðvitað þannig að við erum með þessa nefnd, en hún hefur eftirlit með mjög afmörkuðum þætti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Annars er það héraðssaksóknari sem hefur eftirlit ef um refsiverða háttsemi er að ræða í störfunum. Á síðasta þingi, þegar við ræddum þetta mjög mikið í allsherjar- og menntamálanefnd, var alveg ljóst að við vorum ekki öll á sömu blaðsíðu um hvað þetta frumvarp raunverulega fjallaði og hvers konar heimildir væru til staðar. Ég vona því svo sannarlega að við getum öll komið okkur á sömu blaðsíðu í því. Þá var ljóst að í rauninni erum við kannski að tala um ýmislegt sem mörgum finnst bara sjálfsagður hlutur í dag. Til að mynda fengum við dæmi um heimildir ef hingað kæmi til lands aðili sem er kannski þekktur fyrir að stunda mótmæli á hinum Norðurlöndunum og standa þar að Kóranbrennum, sem er fullkomlega löglegt og er fullt frelsi til að tjá þá skoðun. Í kringum slíkar athafnir getur samt oft skapast ýmis hætta. Þess vegna hafa t.d. lögregluyfirvöld á Norðurlöndum sérstakt eftirlit með viðkomandi aðila til að koma í veg fyrir að framin verði hryðjuverk eða að einhver önnur mótmæli verði sem geta ógnað öryggi almennings. Þegar íslenska lögreglan fékk ábendingar um að einhver slíkur aðili væri að koma til landsins taldi hún sig ekki hafa neinar heimildir því að það var enginn grunur um refsiverða háttsemi. Það var enginn grunur um að viðkomandi aðili væri kominn til landsins til að stunda einhverja glæpi. Ef svo væri þá væri hægt að óska heimildar á grunni sakamálalaganna og fá þá leyfi frá dómstólum til að hlera eða fylgja eftir viðkomandi aðila. En þarna þurfti lögreglan kannski að hafa bara svona óbeint eftirlit með viðkomandi, fylgjast með hvar hann væri á opinberum stöðum. Það er eitthvað sem mér finnst algerlega sjálfsagt og þegar við fórum yfir það í nefndinni vorum við öll sammála um að þetta væri að sjálfsögðu hluti af afbrotavörnum.