154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:13]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Þetta dæmi sem hv. þingmaður nefnir væri hægt að afgreiða með því að gefa auknar heimildir en afmarka þær. Þetta eru miklu víðtækari heimildir í þessu frumvarpi. Frekar ætti að reyna að átta sig á hvaða vanda við ætlum að reyna að uppræta eða laga og koma þá með afmarkaðar heimildir, það væri t.d. ein leið til að nálgast þetta. En enn og aftur ítreka ég mikilvægi þess að við, eins og öll hin Norðurlöndin, komum okkur upp sjálfstæðu eftirliti með störfum lögreglunnar. Eftir það getum við rætt hvaða heimildir þarf. Öryggi skiptir gríðarlega miklu máli en við verðum líka að átta okkur á því að frelsi okkar í samfélaginu frá því að sæta óþarfavaldbeitingu af hálfu yfirvaldsins skiptir líka gríðarlega miklu máli, að þetta jafnvægi sé rétt. Annars er hætta á því að við gröfum undan trausti og trú fólks á samfélaginu, á kerfinu okkar, og að við sköpum meira ofbeldi heldur en það sem við erum að reyna að koma í veg fyrir. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.