154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég byrjaði á að segja að mér finnst þetta frumvarp algjörlega ótímabært í aðstæðum sem við búum við núna sem er að það er ekki raunverulegt sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu eins og staðan er í dag. Eftirlitið sem fer fram með starfi lögreglu er, getum við sagt, þríþætt. Það er annars vegar nefnd um eftirlit með störfum lögreglu sem hefur sjálf lýst því mjög skýrt yfir að hana skorti bæði lagaheimildir og getu til að sinna störfum sínum almennilega. Hún getur líka bara gefið lögreglunni álit þannig að það er í raun takmarkað bit í þessu eftirlitsbatteríi. Nefndin hefur líka lýst því yfir að það er mjög erfitt fyrir hana að fá aðgengi að upplýsingum frá lögreglu þrátt fyrir að hún eigi rétt á aðgengi að þessum upplýsingum. Til að þessi nefnd um eftirlit með störfum lögreglu geti talist sjálfstætt stjórnvald sem hefur eftirlit með lögreglu þá þyrfti hún að hafa sjálfstæðar rannsóknarheimildir og helst sjálfstæða getu til þess að sækja mál fyrir dómstólum og vera algerlega sjálfstæð og óháð lögreglunni. En svo er ekki og ég veit ekki til þess að það sé nokkuð sem standi til í þeim efnum að breyta, þótt það sé ágætt út af fyrir sig að nú eigi a.m.k. að vera starfandi formaður. Og ef ég skil frumvarpið rétt þá á sá formaður að hafa þetta að aðalstarfi og fá laun fyrir það. En mögulega skil ég það ekki rétt, mér finnst það ekki mjög skýrt í frumvarpinu hvort svo sé. Þar er a.m.k. einn starfandi, en það setur okkur samt í þá stöðu að þá er formaðurinn, sem er skipaður af ráðherra, í raun með miklu betri getu til að stjórna för í nefndinni en allir aðrir sem eru tilnefndir af félagasamtökum og öðrum af því að viðkomandi er að vinna við þetta í fullu starfi en allir aðrir í einhvers konar sjálfboðavinnu eða hlutastarfi. Eins og ég segi, nefnd um eftirlit með störfum lögreglu stenst bara ekki þær kröfur sem Mannréttindadómstóllinn setur um sjálfstætt og óháð eftirlit með störfum lögreglu.

Næst ber að líta til héraðssaksóknara sem tekur við ábendingum og kærum vegna mögulegs refsiverðs athæfis lögreglunnar. Héraðssaksóknari tekur á sama tíma við kærum um brot gegn valdstjórninni þannig að hann getur í raun verið að taka við kærum frá sitthvorum aðilanum; einhverjum sem lögreglan segir að hafi slegið lögreglumann og einhverjum sem segir að lögreglan hafi slegið sig. Þetta getur verið sama málið frá sitthvorum aðilanum og á heima á sama stað; brot gegn valdstjórninni og svo brot lögreglu í starfi. Þetta er strax óþægilegur árekstur á milli atriða, fyrir utan að ríkissaksóknari benti á það í Hraunbæjarmálinu, þegar maður féll fyrir hendi lögreglu, eina andlátið sem hefur borið að með þeim hætti, með dauðsfalli, að það væri óæskilegt að ríkissaksóknari færi með eftirlit með störfum lögreglu vegna tengsla ríkissaksóknara við lögreglu, þ.e. samstarf þeirra á milli. Ég tel að það sé ekkert gríðarlega mikill munur á samstarfi milli héraðssaksóknara og lögreglunnar og ríkissaksóknara og lögreglunnar, þótt einn munur sé vissulega sá að það er ríkissaksóknara að gefa ákveðin fyrirmæli, en það snýr að saksóknaranum, ekki lögreglu. Mér finnst héraðssaksóknari heldur ekki vera rétta embættið til þess að sinna þessu. Það færi miklu betur á því að það væri sjálfstætt embætti sem sinnti þessu eins og er t.d. í Danmörku. Þar er sjálfstæð stofnun sem hefur eftirlit með störfum lögreglu, rannsakar ætluð brot, tekur líka við kvörtunum, eins og nefnd um eftirlit með störfum lögreglu gerir, og hefur vald til þess að sækja mál fyrir dómstólum gegn brotlegum lögreglumönnum t.d. Sú stofnun er algerlega utan við löggæslukerfið. Hún er sjálfstæð, það er hægt að reiða sig á að hún sé sjálfstæð.

Ef við skoðum svo hvernig eftirliti með svona eftirlitsheimildum, eins og verið er að leggja til í þessu frumvarpi, er háttað í Danmörku þá er önnur sjálfstæð stofnun sem hefur samtímaeftirlit með þeim aðgerðum, þ.e. hún getur fengið aðgang að því hvaða aðgerðir eru í gangi. Hún fer í áhættumat; hvar er líklegast að misnotkun eða einhvers konar mistök geti átt sér stað. Hún skrifar reglulega skýrslur. Hún er með mikla eftirfylgni og meira að segja kvartar sú nefnd, sem er sjálfstæð, hefur mikið fjármagn og miklar eftirlitsheimildir með lögreglunni, yfir því að fá ekki nógu mikinn aðgang að upplýsingum. En ókei, hún er alla vega sjálfstæð og hún gefur reglulega skýrslu til þingsins og fleira og fleira, bara svo við berum okkur saman við Norðurlöndin eins og okkur er svo tamt að gera hér.

Því er ekki fyrir að fara hér. Við erum ekki með neina sjálfstæða stofnun sem sinnir þessu hlutverki. Það er bara þannig. Meira að segja ríkissaksóknari, sem er síðasta eftirlitseiningin sem ég ætlaði að tala um hérna, sem er handhafi æðsta valds þegar kemur að saksóknum á Íslandi, á samkvæmt lögum að hafa eftirlit með þeim eftirlitsheimildum sem lögreglan hefur samkvæmt núgildandi lögum, þ.e. lögreglan getur samkvæmt dómsúrskurði fengið að hlera fólk og getur samkvæmt dómsúrskurði sett upp myndavélar heima hjá fólki og fylgst með hvað það er að gera heima hjá sér eða inni á einhverjum stöðum, jafnvel vinnustöðum eða einhverju öðru slíku. Þessum eftirlitsheimildum lögreglunnar fylgja kvaðir á lögregluna, að ríkissaksóknari geti haft eftirlit með þessum aðgerðum, að lögreglan fylgi þeim reglum sem lögreglunni ber að fylgja þegar hún viðhefur svona eftirlit. Þær reglur eru t.d. að lögreglunni ber að eyða þeim gögnum sem hún fær, sem sagt upptökum á símtölum fólks á milli eða upptökum á heimilum fólks eftir ákveðinn tíma. Henni ber að tryggja að það sé ekki aðgangur annarra óviðkomandi lögreglumanna eða annarra í kerfinu að þessum upptökum sem geta innihaldið mjög viðkvæm persónuleg samtöl og alls konar athafnir. Lögreglunni ber að tilkynna viðkomandi um að hann hafi sætt þessu eftirliti að ákveðnum tíma liðnum eftir að eftirlitinu er hætt. Þetta á allt að vera skráð, þetta á allt að vera skýrt, það á að vera aðgangsstýring og ég veit ekki hvað og hvað. Og þessu á ríkissaksóknari að geta fylgt eftir að sé gert.

En hver er raunveruleikinn? Ríkissaksóknari hefur frá 2017 gefið út hvert opinbera ákallið á fætur öðru til hæstv. dómsmálaráðherra, til ríkislögreglustjóra, til lögreglunnar og sagt: Ég get ekki sinnt þessu eftirliti vegna þess að lögreglan neitar að færa það inn í kerfi sem ég get haft eftirlit með. Þau gögn sem ég kemst í á pappírsformi og í einhverri frístandandi tölvu inni í einhverju herbergi sýna fram á það að lögreglan er ekki að skrá. Lögreglan er ekki passa upp á aðgang, lögreglan er ekki að sinna því að fylgja þeim reglum sem henni ber að fylgja við þær ótrúlega þungbæru eftirlitsheimildir sem hún hefur nú þegar, sem henni er treyst fyrir. Þannig að það er ekki skýrt hver hefur aðgang að símhlerunum sem lögreglan gerir. Það er ekki skýrt hver hefur aðgang að þessum myndböndum sem lögreglan getur tekið. Lögreglan neitar að bregðast við endurteknu ákalli. Það er búið að koma opinbert bréf frá ríkissaksóknara frá 2017, á hverju ári, nýtt, nýtt, nýtt, nýtt. Það breytist ekkert. Lögreglunni gæti greinilega ekki verið meira sama um skilaboð frá æðsta handhafa saksóknaravalds á Íslandi en svo að hún bara neitar að færa kerfið yfir í LÖKE. Hún neitar að færa allar sínar upptökur yfir í LÖKE. Hún neitar að leyfa ríkissaksóknara að sinna því lögboðna eftirliti sem ríkissaksóknari á að hafa með eftirlitsheimildum lögreglunnar.

Þannig að já, virðulegi forseti, ég er að segja að þetta sé ótímabært frumvarp vegna þess að lögreglan sætir ekki einu sinni því eftirliti sem henni ber samkvæmt lögum núna að sæta. Af hverju ættum við að trúa því að tvö stöðugildi í viðbót hjá nefnd um eftirlit með störfum lögreglu og einhver gæðastjóri sem er innan húss hjá ríkislögreglustjóra, jú, og fyrirgefið, einhver stýrihópur sem samanstendur af lögreglustjórum, sé einhvern veginn að bæta sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu þegar lögreglan neitar að sæta eftirliti sem hún nú þegar á að sæta með þeim heimildum sem hún nú þegar hefur.

Hér er algerlega byrjað á vitlausum enda, virðulegi forseti. Hér ætti auðvitað dómsmálaráðherra að vera löngu búinn að tryggja að lögreglan sæti þessu eftirliti. Það er alveg ótrúlegt að það hafi bara verið látið viðgangast að vanvirða ríkissaksóknara með þessum hætti ár eftir ár, trekk í trekk. En svona er þetta. Og áður en við förum að ræða það að færa lögreglunni eftirlitsheimildir með almennum borgurum, sem þetta frumvarp felur í sér, þá þurfum við að koma á fót alvöru sjálfstæðu eftirliti með lögreglu og skikka lögregluna til að sæta því eftirliti sem hún þó á að sæta. Þangað til er ekki hægt að tala um að hún eigi að fá meiri heimildir til að fylgjast með almennum borgurum. Það er bara ekki hægt, virðulegur forseti. En auðvitað er verið að gera það hér.

Svo ég ræði nú aðeins um frumvarpið á þessum fimm mínútum sem ég á eftir: Í fyrsta lagi þá langar mig að koma að einum efnislegum agnúa sem mér finnst mikilvægt að við ræðum. Hann snýr að ábendingum sem komu frá umboðsmanni Alþingis um að leyfa erlendum lögreglumönnum að starfa hér á landi. Ég vildi bara benda á að ég tel að greinarnar í þessu frumvarpi séu engan veginn fullnægjandi til að bregðast við þeim ábendingum sem komu frá umboðsmanni Alþingis varðandi að það vantaði skýrt lagaákvæði inn í lögin um að það megi leyfa erlendum lögreglumönnum að starfa hér á landi. Hér er verið að gefa ráðherra reglugerðarheimild til að ákveða nákvæmlega hvernig þetta eigi að vera gert. Ég held að það bregðist bara ekki við þeim ábendingum umboðsmanns sem þarf varðandi lagaheimild. Lagaheimild er sterkari en reglugerðarheimild og þetta er ekki bara nógu gott. Ég vildi bara benda á það.

Síðan vildi ég að bregðast við orðum ráðherra, kannski með ítarlegri hætti en ég gat í einnar mínútu andsvari hérna áðan þegar kom að því að ráðherra hélt því fram að hér væri ekki verið að leggja til víðtækt eftirlit með almenningi. Ég vil bara segja það mjög skýrt að hér er verið að leggja til víðtækt eftirlit með almenningi. Þetta eru forvirkar rannsóknarheimildir að því leytinu til að það er verið að leggja til að lögreglan gæti safnað upplýsingum, fylgt eftir fólki sem er ekki grunað um að hafa framið nokkurn glæp.

Þessar heimildir hefur lögreglan nú þegar, hún þarf bara að hafa grun. Hún þarf ekki að hafa rökstuddan grun, hún þarf bara að hafa grun um að refsivert hátterni hafi átt sér stað eða sé að fara að eiga sér stað. Þetta eru heimildir sem lögreglan hefur nú þegar. Við erum að tala um að lækka þennan þröskuld, grun, sem sagt ekki rökstuddan grun heldur grun, niður í hugtak sem er hvergi skilgreint, ekki í frumvarpinu, ekki neins staðar annars staðar. Ég veit ekki til þess að það séu til einhver dómafordæmi um hvað áreiðanlegar upplýsingar þýða. Það má segja að þetta sé lítils háttar betrumbót á frumvarpinu eins og það var, sem var náttúrlega algjör hrákasmíði, sem hélt því fram að ef lögreglan er með upplýsingar, sama hverjar þær eru, bara Gróa á Leiti getur hringt í lögguna og sigað henni á — ég veit ekki hvern. Hér er verið að leggja til smávægilega uppfærslu á því en það er algjörlega óskýrt hvað þetta þýðir. Hvað eru áreiðanlegar upplýsingar? Það er bara alls ekki ljóst. Það er ekki skilgreint.

Það að lögreglan geti fylgst með öllum myndavélum, eftirlitsmyndavélum, fylgst með af opinberum vefsíðum og fylgst með eftirliti á almannafæri án þess að það séu einu sinni upplýsingar, þetta er bara almennt gagnasafn lögreglunnar. Hún er bara að safna og safna í sarpinn, hún ætlar að eiga gagnagrunn með aðgengi að öllum upptökum, með aðgengi að öllum myndavélum og með eftirliti á almannafæri.

Mér fannst kannski ásetningurinn skýrari í fyrra frumvarpi þar sem var talað um að það væri hægt að hafa eftirlit með stöðum sem væru eins og félagsheimili fyrir skipulögð glæpasamtök. Ég held að það sé svolítið pælingin: Hér höldum við að sé eitthvað og við ætlum bara að vera hér að vakta þetta, við ætlum að vakta allar myndavélar sem eru hérna og við ætlum að hanga hérna á einhverjum bílum og ætlum að fylgjast með. Það er ekki lengur jafn skýrt í þessu frumvarpi hvernig stendur til að gera það. En það er, held ég, undirliggjandi planið og það eina sem þarf að liggja fyrir í því er, já, áreiðanlegar upplýsingar sem við vitum ekki hvað þýðir. Eru það áreiðanlegar upplýsingar ef Gróa á Leiti hringir í lögregluna og segist vita það fyrir víst að nágranni hennar sé hryðjuverkamaður? Hann er alltaf að fá einhverja brúna menn í heimsókn, það getur ekki annað verið en að hann sé hryðjuverkamaður. Eru þetta áreiðanlegar upplýsingar? Ég veit það ekki. Það kemur ekki fram í þessu frumvarpi hvað teljast vera áreiðanlegar upplýsingar. Það er mikið áhyggjuefni fyrir borgararéttindi einstaklinga í þessu landi og það er verið að færa lögreglunni ríkar eftirlitsheimildir með almenningi vegna þess að það þarf ekki einu sinni að vera grunur um að þú sért þátttakandi í alþjóðlegri glæpastarfsemi eða skipulagðri glæpastarfsemi. Það er enginn grunur til staðar, bara einhverjar áreiðanlegar upplýsingar sem við vitum ekki hvers eðlis eru eða þá að þú viljir fremja einhvers konar hættulega árás. En það þarf ekki að vera grunur um það, bara áreiðanlegar upplýsingar sem við vitum ekki hvað er.

Ég næ ekki að komast yfir eftirlitsþáttinn neitt frekar en ég hef gert nú þegar en ég vildi bara nefna í lokin að það að nefnd um eftirlit með störfum lögreglu skuli ekki vera látin vita af þessum eftirlitsaðgerðum lögreglunnar fyrr en eftir að þessu er lokið gerir þetta náttúrlega algjörlega gagnslaust ákvæði vegna þess að það er ekkert sem segir okkur að lögreglan muni skila inn þessum upplýsingum. Miðað við hvernig hún er að skila upplýsingum um eyðingu gagna, að tilkynna um að eftirlit hafi verið framkvæmt, að passa upp á aðgengi að hlerunum o.s.frv., þá sýna verkin það bara að það er ekkert sem segir okkur að lögreglan muni sinna þessari tilkynningarskyldu sinni, nákvæmlega ekki neitt. Og það eru engin viðurlög ef hún gerir það ekki. Það er ekkert þarna sem passar upp á borgararéttindi hins almenna borgara. Ég hef áhyggjur af því, virðulegi forseti, þegar tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins koma hingað upp með mál, flokks sem telur sig vera frelsisflokk, sem hugsar svona lítið um hvaða áhrif þetta hefur á borgararéttindi samborgara okkar. Það er bara augljóst af lestri þessa frumvarps að það er engan veginn í forgrunni heldur er búið að hnoða saman því sem lögreglan telur sig þurfa án þess að lagt hafi verið mat á það hvort þetta sé ekki bara óásættanlegt inngrip í friðhelgi einkalífsins, sér í lagi miðað við það hvernig eftirliti með lögreglunni er ótrúlega ábótavant á Íslandi í dag.