154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er nú nokkuð viss um að gæðastjórinn hafi verið inni í síðasta frumvarpi. En það breytir því ekki að það er innra eftirlit og við erum að tala um ytra eftirlit. Gæðastjóri er staðsettur hjá ríkislögreglustjóra og uppfyllir ekki skilyrði þess að vera sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu. Hvað varðar meira eða víðtækara eftirlit með almennum borgurum í Danmörku en hér þá má það vel vera en þar eru tvær stofnanir starfandi, hæstv. ráðherra. Það er annars vegar stofnun sem fylgist með þessum njósnaheimildum sem lögreglan hefur þar. Svo er önnur sjálfstæð stofnun sem tekur við kvörtunum og kærum á hendur lögreglunni fyrir brot í starfi og fyrir misferli í starfi. Þannig að þetta er sitthvor handleggurinn. Og ef ég meira að segja gæfi það eftir, að við þyrftum kannski ekki sjálfstæða eftirlitsstofnun með njósnaeftirlitsheimildum til viðbótar við sjálfstæða eftirlitsstofnun með lögreglu, þá er það samt þannig að það er eftirlitsstofnun sem er sjálfstæð sem fylgist með störfum lögreglu í Danmörku. Og burt séð frá muninum á málafjöldanum þá held ég að það ætti ekki að standa í vegi fyrir því að við reynum að uppfylla eftir fremsta mætti okkar skyldur þegar kemur að því að vernda borgararéttindi einstaklinga á Íslandi. Við erum ekki að gera það með fullnægjandi hætti. Það er alveg skýrt af dómasögu Mannréttindadómstóls Evrópu að til þess að eftirlit með störfum lögreglu — og þetta skiptir sérstaklega miklu máli þegar kemur að rannsóknum á dauðsföllum, t.d. eins og í Hraunbæjarmálinu. Það varð ótrúlega skýrt hvað við vorum með veikt regluverk þegar það kom upp. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli þar og það eru margir dómar sem hafa fallið í tengslum við rannsókn á slíkum andlátum sem verða af völdum stjórnvalda um að hún hafi ekki verið sjálfstæð og óháð lögreglunni. Það er mjög skýrt af dómaframkvæmdinni hvað þarf til til þess að rannsókn teljist sjálfstæð og óháð, m.a. að ekki sé daglegt vinnusamband á milli aðila sem fer með rannsókn og (Forseti hringir.) þess sem sætir rannsókn og það sé ekki „híerarkía“ þeirra á milli og þeir séu með sjálfstæða fjárveitingu. (Forseti hringir.) Við uppfyllum ekki þessar kröfur. — Ég vona að ég hafi komið að flestum punktum hæstv. ráðherra.