154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:34]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar sitt. Efling eftirlits með lögreglu felur í sér innra gæðaeftirlit ríkislögreglustjóra með störfum lögreglu. Ráðherra skipi gæðastjóra, nefnd um eftirlit með lögreglu verði efld til muna með fjölgun nefndarmanna og formaður sé embættismaður í fullu starfi, lögfesting stýrihóps um aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi, skýrari skilyrði fyrir ákvörðun um að viðhafa eftirlit, lögbundin árleg skýrslugjöf til allsherjar- og menntamálanefndar vegna eftirlits lögreglu. Allt eru þetta þættir sem eru lagðir til í þessu frumvarpi vegna þess að lögreglan óskar eftir auknum heimildum til þess að berjast hér við og geta brugðist við mjög breyttum heimi hvað varðar skipulagða brotastarfsemi og hryðjuverkaógn. Ég tel að lögreglan vilji, samfara auknum heimildum, hafa eftirlitið í lagi. Við erum raunverulega að auka eftirlit með lögreglu í þessu frumvarpi frá því sem það er í dag. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé hafið yfir vafa og ef borgararnir telja á sér brotið hafa þeir alltaf þá leið að leita úrskurðar dómstóla ef þannig ber undir.