154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er búin að lesa frumvarpið. Ég átta mig á þeim breytingum sem verið er að leggja til varðandi eftirlit með störfum lögreglu og ég er að benda á að þær eru ekki fullnægjandi og uppfylla ekki þær kröfur að geta talist sjálfstætt eftirlit og óháð lögreglunni, sem er það sem mér finnst vera forsendan fyrir því að við getum farið að tala um einhverjar frekari heimildir lögreglu. Ég verð að segja að ég varð fyrir ofurlitlum vonbrigðum með að ráðherra hafi ekki komið hérna upp til að segja mér að hún ætli að grípa til tafarlausra aðgerða vegna vanrækslu lögreglunnar gagnvart ríkissaksóknara ár eftir ár og komið í veg fyrir að ríkissaksóknari geti sinnt eftirliti sínu. Sem æðsti embættismaður þessa málaflokks tel ég ríkar skyldur hvíla á ráðherra að tryggja það að lögreglan gerir ríkissaksóknara kleift að sinna því eftirliti sem honum ber lögum samkvæmt að sinna, með þeim eftirlitsheimildum sem lögreglan hefur nú þegar. Af hverju eigum við að treysta dómsmálaráðherra, lögreglunni, öllum þeim sem fara með eftirlitsheimildir sem þessar í samfélaginu okkar, fyrir frekari heimildum þegar lögreglan neitar að sæta því eftirliti sem henni ber lögum samkvæmt að sæta gagnvart þeim heimildum sem hún hefur nú þegar? Mér dettur í hug myndlíking en ég held að það taki bara of langan tíma, þið hljótið að geta séð þetta fyrir ykkur — já, ég nenni því ekki, þetta hlýtur að vera skýrt. Það er ekki hægt að gefa lögreglunni meiri heimildir ef hún virðir ekki þær reglur sem gilda um þær heimildir sem hún hefur nú þegar.

Síðan vildi ég bara árétta að það sem helst tryggir öryggi okkar, það sem helst hjálpar lögreglunni að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi og auka öryggi borgaranna, er fjármögnun og efling almennrar löggæslu í landinu. Við séum ekki alltaf að pikka fólk út úr almennu löggæslunni til að fara á einhver skrifborð hér og þar og missa alltaf fleiri og fleiri af vaktinni, þannig að þau eru alltaf með fleiri og fleiri nýliða og það er orðið hættulegra fyrir lögregluna á hverjum degi að vera úti á meðal borgaranna. Og þegar hún fer að koma sér fyrir í eftirlitsturnunum sínum til að fylgjast með okkur þá missir hún tenginguna við almenning og borgarana og það minnkar öryggi okkar allra. Það að lögreglan telji sig vanfjármagnaða og vanbúna til að sinna almennri löggæslu í landinu er slæmt fyrir okkur öll.