154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[18:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni þegar hún vísar í skýrslu ríkissaksóknara um eftirlit með símahlustun og skyldum úrræðum og er hjartanlega sammála því að eftirlitið þarf að vera í lagi. Þegar maður les þessa skýrslu þá er svolítið vísað í tæknimálin, mér skilst að það sé vandamálið, en við þurfum bara að ganga eftir því, það er engin afsökun. Það þarf auðvitað að fylgja þessum lögum. En þarna erum við að tala um þvingunarúrræði og mér finnst það kannski ekki rök fyrir því sem við ræðum hér ef einhver annar þáttur kerfisins okkar er ekki að virka. Það sem við þurfum að gera í því er að láta það virka. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt, ríkissaksóknari á að geta sinnt þessum skyldum sínum og lögreglunni ber að eyða út úr kerfinu eins og sagt er fyrir um í lögunum og upplýsa ríkissaksóknara þar um.

Virðulegi forseti. Mig langar kannski að spyrja sömu spurningar og ég spurði hv. þm. Halldóru Mogensen: Telur hv. þingmaður að það sé engin þörf á að breyta þeim heimildum, þeim tækjum og tólum sem lögreglan hefur í dag? Hv. þingmaður sagði að þetta frumvarp væri ekki tímabært. Ég vil alls ekki hengja mig í það að eitthvað sé ekki í lagi hérna megin og þá eigi ekkert að gera neitt nýtt. Ég segi: Lögum þetta hérna megin en horfum á sama tíma til þess breytta tíma sem við störfum í í dag. Við höfum heyrt ákall lögreglunnar um auknar heimildir, tæki og tól. En við erum ekki komin inn í sakamálin, við erum ekki að tala um þegar það er grunur um einhverja háttsemi eða starfsemi eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir. Ég vísa í það sem er að gerast t.d. í Svíþjóð þar sem kúrdíski refurinn svokallaði er talinn stýra ungum börnum í því að fremja morð og einhvern hrylling þar. Ef við fengjum upplýsingar um það að kúrdíski refurinn væri að koma til landsins en það væru engar upplýsingar um að hann ætlaði fremja eitthvert brot hér á Íslandi, er ekki eðlilegt að lögreglan myndi fylgjast með slíkum aðila?