154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég átta mig vel á því að hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins skilji ekki sjónarmið Pírata í þessu enda er hv. þingmaður ekki í Pírötum, hann er í Sjálfstæðisflokknum og eftir því sem maður kemst næst er áhugi Sjálfstæðismanna almennt séð á því að hafa eftirlit með borgurum landsins á meðan Píratar vilja hafa eftirlit til að fylgjast með valdhöfum, þeim sem hafa valdið og beita valdinu á sérstaklega ómálefnalegan hátt. Svoleiðis er okkar hvati til þess að réttarríkið virki, að valdhafar komist ekki upp með það að misbeita valdi sínu.

Hér er um forvirkar rannsóknarheimildir að ræða. Það stendur bókstaflega í 6. gr. a, um aðgerðir í þágu afbrotavarna. Þar er talað um frumkvæðisverkefni, þar á meðal samskipti við uppljóstrara, eftirlit á almannafæri og vöktun vefsíðna sem opnar eru almenningi. Hvernig er frumkvæðisverkefni þar sem fylgst er með og vaktaðar vefsíður sem eru opnar almenningi ekki forvirk rannsóknarheimild þegar allt kemur til alls? Það er hægt að fylgjast með ýmsu þar á bak við, t.d. hverjir heimsækja vefsíður, ekki endilega hverjir skrifa á vefsíður heldur hverjir heimsækja þær. Það er ekkert smáræðisskref að taka að leyfa slíkt. Það er almenn vöktun á netumferð sem er ekki dulkóðuð, sem er mjög áhugavert. Mig langaði til þess að fræðast aðeins hjá hv. þingmanni um það hvernig hann kemst að því að það þurfi að vera einhvers konar þvingun í þeim aðgerðum og heimildum sem lögreglan hefur til að þær flokkist sem forvirkar rannsóknarheimildir.