154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:17]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en er ekki alveg á því að hann hafi svarað spurningunni. Spurningin var hvort hann teldi það að veita lögreglunni þessar heimildir til eftirlits með almennum borgurum án þess að fyrir hendi séu ferlar, kerfi, stofnanir, viðmið eða annað sem tryggja að þessum valdheimildum sé ekki misbeitt, samræmast réttarríkinu. Réttarríkið gengur ekki bara út á það að reglum og lögum og reglum sé fylgt vegna þess að það er sannarlega tryggt í einræðisríkjum líka, bara með ansi grófum hætti. Við gætum alveg farið þangað en ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að við viljum ekki fara í þá átt. En ég ætla að ítreka þá spurningu mína hvort hann telji þetta ekki vera nauðsynlega forsendu þess að það sé tryggt að allir séu jafnir fyrir lögunum. Það er það sem réttarríkið gengur út á, að allir séu jafnir fyrir lögunum. Það á við um borgarana og valdhafa sömuleiðis. Út á það gengur réttarríkið.

Mig langaði líka einmitt að nefna það sem hv. þingmaður varð nú fyrri til að nefna, að lögreglan hefur sjálf kallað eftir því að það sé í rauninni virkara eftirlit með störfum hennar. Það snýst ekki um það að reyna að nappa lögregluna við að brjóta reglur og annað. Það snýst um að leiðbeina lögreglunni og aðstoða stjórnvöld við það að beita lögum og reglum jafnt fyrir alla borgarana og í samræmi við það sem hefur verið lýðræðislega samþykkt hérna. Þannig að ég vil taka undir það, en verð víst að ítreka spurningu mína til hv. þingmanns.