154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni. Ég held að það hafi komið alveg skýrt fram, bæði í minni ræðu hér og í framsöguræðu hæstv. dómsmálaráðherra, að það er ekki nein hætta á því að hér eigi að fara að beita þessum valdheimildum af einhverjum geðþótta. Það er alveg skýrt í frumvarpinu með hvaða hætti á að gera þetta og ég tel að það sé alveg fullnægjandi. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði hér, lögreglan hefur kallað eftir auknu eftirliti og setur sig ekki á móti því og það er einmitt í frumvarpinu. Það er verið að ramma inn með hvaða hætti það eigi að vera. Við getum haft skiptar skoðanir á því hvort það sé fullnægjandi eða ekki, en ég tel það vera algerlega fullnægjandi. Mér finnst líka bara mjög mikilvægur þessi samanburður við Norðurlöndin, og væri kannski ágætt að heyra um það þó að ég viti að hv. þingmaður sé kannski ekki sá sem á að svara hér, að við séum að færa þetta til sama vegar og á Norðurlöndum. Það hlýtur að vera mikilvægt. Það hlýtur að skipta okkur máli og að geta horft til þeirrar framkvæmdar sem þar er. Ég held að hún sýni það að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að hér verði um einhverjar geðþóttaákvarðanir að ræða. Það er mjög mikilvægt að við lögfestum þessa heimild. Lögreglan hefur sjálf kallað eftir þessu vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu og á Norðurlöndum og í Evrópu og því umhverfi sem við erum í. Það eru mörg mál sem hafa komið upp á Íslandi sem varða skipulagða brotahópa eins og fíkniefnasmygl, mansal o.s.frv. Ég segi það hér enn og aftur, frú forseti, að ég fagna þessu frumvarpi og ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem hefur verið hér. Hún er líka mikilvæg og ég vænti þess að málið fái góða umfjöllun í nefndinni. (Forseti hringir.) En ég segi það enn og aftur að frumvarpið er mikilvægt og það er gott.