154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:22]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa áhugaverðu og mikilvægu umræðu sem hér hefur farið fram því að þetta er veigamikið frumvarp. Greinargerðin er ítarleg og verður áhugavert að sjá þá þinglegu meðferð sem þetta frumvarp fær í allsherjar- og menntamálanefnd. Mér fannst hæstv. ráðherra fara vel yfir efni og anda frumvarpsins og síðan hafa auðvitað skapast mjög áhugaverðar og mikilvægar umræður um bæði valdheimildir lögreglunnar, sem er inntak frumvarpsins, og eftirlit sjálfstæðra stofnana með starfsemi lögreglunnar sem er ekki síður mikilvægt og í rauninni grundvallaratriði í réttarríki, eins og hefur komið svo ágætlega fram í þeim góðu umræðum sem hafa farið hér fram.

Það vakna auðvitað fjöldamargar spurningar við lestur svona frumvarps, um borgaraleg réttindi, friðhelgi einkalífs o.s.frv., og verður án efa tekin frjó og mikilvæg umræða um það allt saman, ekki bara í þessum sal heldur líka inni í allsherjar- og menntamálanefnd þegar frumvarpið kemur þangað eins og líklegt er að það geri. Það er gríðarlega mikilvægt að lögreglan búi við traustan ramma og hafi tæki til að tryggja öryggi borgaranna og ríkisins. Við treystum á lögregluna í okkar lífi og við þurfum líka að treysta á lögregluna til að gæta að öryggi samfélagsins og ríkisins ekki síst. Ég held að það skref sem verið er að tala um, að vera með sjálfstæða og sterka greiningardeild og að styrkja greiningardeild lögreglunnar, sé mikilvægt skref í þeim efnum. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt í ríki eins og okkar, fullvalda ríki sem er í miklu alþjóðlegu samstarfi og viðamiklu varnarsamstarfi við bandalagsþjóðir í Atlantshafsbandalaginu o.fl., að sterkt apparat sé til staðar sem hafi tæki til að sinna verkefnum, á borð við PET í Danmörku og SÄPO í Svíþjóð. Eins og hefur komið fram í umræðunni hér í dag, sem var ágætur punktur að benda á, þá stofnar það líka öryggi nágrannaríkjanna í hættu að hafa veikan hlekk hér í því samstarfi. Það verður að hafa í huga að hægt er að ráðast gegn bandalagsþjóðum okkar í umdæmi íslensku lögreglunnar og því er mikilvægt að hér sé til staðar geta, þekking og bjargir til að bregðast við því ef upp koma ógnir við öryggi bæði okkar og bandalagsþjóða okkar á þessu landi.

Það hefur líka komið ágætlega fram í umræðunni að við búum því miður við nýjan veruleika í heiminum, kannski ekki síst í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu árið 2022. Við búum við fjölþáttaógnir eins og hefur líka ágætlega verið tíundað hér. Við erum ekki með her og þess vegna hlýtur að vera einhvers konar lágmark að lögreglan hafi heimildir og þekkingu til að takast á við þessar fjölþáttaógnir og taka þátt í samstarfi. Hér hafa orðið atburðir sem má flokka sem alvarlega. Ég vil bara minna á t.d. sprengjutilræði sem var gert við forsætisráðherra árið 2012. Eftir á að hyggja voru viðbrögðin við því atviki alveg ótrúlega léleg og hláleg í raun og veru og var það engan veginn tekið alvarlega. Kann það að vera út af því undarlega andrúmslofti sem ríkti á þessum tíma í kjölfar efnahagshrunsins. Við höfum líka séð skotárásir á skrifstofur stjórnmálaflokka, þar á meðal þann stjórnmálaflokk sem ég er fulltrúi fyrir hér inni á þessu þingi. Við höfum líka séð skotárás á bíl borgarstjóra árið 2021 og svo erum við með stórt hryðjuverkamál núna í meðförum dómstóla, eða meint hryðjuverkamál, við skulum kalla það það því að ekki er komin niðurstaða í það enn þá. Í öllum tilfellum, af því að hv. þm. Birgi Þórarinssyni sem talaði hér áðan var tíðrætt um að það þyrfti hugsanlega að fylgjast með einhverjum sem kæmi hingað til lands í þeim tilgangi að mögulega undirbúa eða fremja hryðjuverk, er um innlenda gerendur eða vænta gerendur að ræða. Það þarf líka að hafa það í huga og við skulum ekki gleyma því að mörg af hroðalegustu hryðjuverkum sem við höfum séð undanfarin ár hafa verið framin af nákvæmlega slíkum aðilum, innlendum hryðjuverkamönnum. Stærsta og mannskæðasta hryðjuverk sem framið hefur verið í Bandaríkjunum fyrir árásirnar á tvíburaturnana og Washington árið 2001 var sprengingin í Oklahoma árið 1995 sem var framin af innlendum bandarískum hryðjuverkamönnum, einhvers konar nýnasistum eða hægri öfgamönnum. Það sama á auðvitað við um hryllilegasta hryðjuverk sem höfum séð á Norðurlöndum, fjöldamorðin árið 2011 í Ósló og Útey, sem voru framin af hryðjuverkamanninum Anders Behring Breivik sem situr nú í fangelsi og er einhvers konar hægri öfgamaður líka.

Við skulum ekkert loka augunum eða vera barnaleg gagnvart því að við erum auðvitað komin á kortið alþjóðlega að mörgu leyti. Við erum NATO-ríki og höfum tekið þátt í ýmsum aðgerðum á vettvangi NATO í gegnum tíðina. Þar af leiðandi þurfum við að vera meðvituð um það að við getum búið við óöryggi, þó ekki væri nema bara af þeim sökum. Þó svo að það bandalag sé til að tryggja öryggi okkar þá getur verið að einhverjum finnist ástæða til að ráðast á veikan hlekk í þeirri annars ágætu keðju.

Hér er líka komið inn á aðra hluti sem er vert að nefna, þessa skipulögðu brotastarfsemi sem hefur því miður verið að skjóta rótum undanfarin ár hér á landi og virðist vera orðið ljóst að þó nokkrir skipulagðir hópar afbrotamanna eru að störfum hér á landi. Það er auðvitað gríðarlega alvarlegt mál og mikilvægt að hægt sé að bregðast við því sem skyldi. Þá er mikilvægt að heimildir séu til staðar fyrir lögregluna til að eiga við það ástand. En ég vil enn og aftur undirstrika að það er mikilvægt að heimildir til að sinna slíku eftirliti séu staðfestar af til þess bærum aðilum og hallast ég frekar að því að eðlilegt sé að slíkt sé í höndum dómstóla eins mikið og kostur er og tek þar með undir málflutning sem hefur verið hafður frammi í dag í þeim efnum.

Annað í þessu frumvarpi. Verið er að færa ákvæði um vopnanotkun lögreglu úr almennum vopnalögum yfir í þessi lög og held ég að það sé bara mikilvægt og gott að hafa lögin um vopnaburð lögreglu á þeim stað þar sem fjallað er um lögreglu í lögum. Mér sýnist það vera ágæt tiltekt. Það er hins vegar rétt að ítreka þær spurningar sem hafa vaknað hérna í dag um það hvort sómasamlega verði búið að þessum aðilum sem eiga að sjá um þessar greiningar og þá sérstaklega greiningardeildinni, hvort hún muni hafa á að skipa þeim mannafla og þeim björgum sem á þarf að halda til að sinna þessu veigamikla verkefni. Við höfum séð það, og sporin hræða í þeim efnum, að lögreglan hefur ekki verið í forgangi þegar kemur að úthlutun fjármuna undanfarin ár og hefur þurft að búa við það að lögreglumönnum hefur hlutfallslega fækkað undanfarinn áratug meira en góðu hófi gegnir og horfir í óefni þar. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa talað hér í dag um að það sé ekki æskilegt eða líklegt til góðra verka eða árangurs að færa almenna lögreglumenn yfir í einhver skrifstofustörf í greiningum, heldur þurfi að passa það að lögreglunni séu a.m.k. veittar þær bjargir sem hún þarf, bæði til að sinna störfum sínum á götum úti og svo í þeim verkefnum sem þetta frumvarp reiknar með að hún muni hafa með höndum.

Eins og áður segir er þetta ákaflega veigamikið og ég viðurkenni að ég hef svo sem ekki náð að lúslesa frumvarpið alveg í þaula, enda er það langt og greinargerðin ítarleg, en komi ég að umfjöllun um það í allsherjar- og menntamálanefnd hlakka ég til að fá færi á að bora mig ofan í það í samstarfi við þá gesti og aðra aðila sem nefndin mun óhjákvæmilega kalla til í þessum efnum.