154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:32]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta er sannarlega áhugaverð umræða sem er að eiga sér stað í dag.

Spurningin sem mig langar að beina til hv. þingmanns varðar það sem við höfum svo sem talað dálítið mikið um hér í dag, hversu hrópandi vöntun er á því að í þessu lagafrumvarpi sé tekið á skorti á eftirliti með störfum lögreglu. Það er lagt til í þessu frumvarpi að nefndarmönnum í nefnd um eftirlit með störfum lögreglu verði fjölgað en það er augljóst að það að styrkja embætti sem hefur hvorki þau tæki né þær heimildir sem það þarf til að sinna sínum störfum og hefur kvartað undan því er væntanlega til lítils.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji fært að samþykkja frumvarpið eins og það er án þess að beinlínis sé komið á fót sjálfstæðri stofnun, sjálfstæðu óháðu eftirliti með störfum lögreglu, áður en eða samhliða því að lögreglunni séu faldar heimildir af þessu tagi.

Svo langar mig örstutt að impra á því varðandi þau dæmi sem hafa verið tekin í umræðunni í dag að lögreglan hefur gríðarlega víðtækar heimildir nú þegar. Hún hefur mjög víðtækar heimildir, sérstaklega ef fólk er grunað um afbrot eða er grunað um að ætla að fremja afbrot. Það eru heimildir til þess að stoppa fólk á landamærum ef það er talið ætla að brjóta af sér. Það þarf hins vegar að rökstyðja það og bera ýmsar ákvarðanir undir dómara, en í þessu frumvarpi er ekki verið að leggja til að það verði gert. Það eru í rauninni engir varnaglar í þessu frumvarpi sem tryggja að þessu valdi verði ekki misbeitt.