154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:34]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir tækifærið til að lýsa skoðun minni á þessu. Ég viðurkenni að mér hefur þótt umræðan hérna um þetta sannfærandi og rökin fyrir því að þarna skorti talsvert á til að við höfum eðlilegt eftirlit með störfum lögreglu. Eins og kom fram í máli mínu þá held ég að það sé gríðarlega mikilvægt í réttarríki að það séu til þess bærar og sjálfstæðar stofnanir sem fylgjast með þeim sem geta beitt borgarana íþyngjandi aðgerðum. Svo ég svari spurningu hv. þingmanns beint þá held ég að tækifæri sé til að laga þetta frumvarp eins og það er núna hvað snertir þetta tiltekna atriði. Ég treysti því að það verði gert í nefndinni, enda veit ég að lögreglan hefur ekkert á móti auknu eftirliti með sínum störfum og hvet ég til þess að það eftirlit verði styrkt og því komið í það form að það sé hafið yfir allan vafa.