154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[19:37]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa skemmtilegu spurningu. Eins og áður segir þá trúi ég því ekki að þetta frumvarp fari óbreytt í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd og ég held að það sé full ástæða til að skoða þennan kafla í frumvarpinu. Mér fannst til að mynda umræðan um það að ríkissaksóknari hafi ekki aðgang að þeim gögnum sem hann á að hafa eftirlit með vera sláandi og í rauninni alveg stórundarlegt, leyfi ég mér að segja, að því sé leyft að viðgangast árum saman. Mér finnst það ekki traustvekjandi. Ég held að það verði að finna einhverjar leiðir til að treysta þennan þátt í þessu frumvarpi til að það sé til þess fallið að skapa traust. Eins og áður segir þá held ég að eftirlit með lögreglunni verði að vera með þeim hætti að það sé hafið yfir allan vafa. Það er mín skoðun á því máli og ég held að hún sé tiltölulega skýr.