154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:22]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Það er sama hvaðan gott kemur, þessi hugmynd verður vonandi til þess að það verður að leita til þeirra sem ekki hafa treyst sér til að nýta kerfið. Það er bara um að gera kýla á það og fá sem flesta aðstandendur og aðra til að koma þar að málum, og það er svigrúm eins og hæstv. ráðherra bendir á. Mál sem hv. þm. Tómas A. Tómasson lagði fram í fyrra lýtur einmitt að því að hvetja fólk til dugnaðar og til að vinna með námi og það er þáttur í þessu stóra samhengi sem ég held að við ættum að taka mjög alvarlega, að það sé ekki letjandi að reyna að bjarga sér. Einstæðir foreldrar með börn, eins og ég þekki nokkur dæmi um, geta engan veginn komist af miðað við núverandi kerfi. Þess vegna myndi ég telja að við ættum að skera út þann faktor sem hvetur fólk, eða letur öllu heldur fólk til að vinna með námi. Þvert á móti (Forseti hringir.) ættu þau sem eiga tök á því og hafa til þess orku að geta gert það og skapað sér og sínum betra líf meðan þau brjótast til mennta. (Forseti hringir.) Væri ráðherra sammála þessari ábendingu?