154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:24]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að við lögðum fram spurningar til allra háskólanema, hvort sem þau nýti sér kerfið eða ekki. Við náðum til fjölda nemenda sem eru ekki að nýta sér námslánakerfið og þau svöruðu hvaða þættir það væru sem hefðu áhrif á þá niðurstöðu sína. Þá sjáum við að 75% af þeim sem svara könnuninni vilja ekki vera með lán eða safna skuldum, burt séð frá síðan stöðunni í kerfinu. Þá sjáum við líka í niðurstöðunum að 40% nemenda eru í vinnu, velja sér frekar að vera með tekjur með námi. Það er það sem hv. þingmaður kemur inn á, að hækka frítekjumark atvinnutekna. Það er eitthvað sem stúdentahreyfingarnar sjálfar hafa ekki lagt mikla áherslu á sem athugasemdir inn í skýrsluna en kemur þó greinilega út úr könnun meðal fjölda nemenda sem ég tek alvarlega að skoða. Eins og með allar breytingar á þessu kerfi þarf að skoða forgangsröðun á þeim fjármunum sem við höfum um að ræða, en þetta er til skoðunar í ráðuneytinu.