154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:29]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að hafa það skýrt fyrir hv. þingmann hef ég verulegar áhyggjur af stöðu námslána og það gæti ekki verið skýrara en þegar ég hef rætt um það að markmiðsákvæði laganna um jöfn tækifæri til náms séu einfaldlega í hættu. Það eru of margir sem velja að taka ekki námslán í þessu nýja kerfi miðað við það sem lagt var upp með með breytingum á lögunum þar sem við vorum að reyna að ná fram árangri með því að hafa styrkinn og stuðninginn við námsmenn gagnsærri og nálgast stuðningskerfi Norðurlandanna. En við þurfum hér að geta tekið umræðu um þessi lög og þessa breytingu og rætt það hvar við þurfum að gera betur og þar tek ég undir með hv. þingmanni, að ég hef áhyggjur af því að nemendur velji að fara ekki í háskólanám eða taki ekki lán. En við sjáum líka könnunina meðal nemenda, hvað það er sem hefur áhrif á það. Síðan er þetta auðvitað (Forseti hringir.) risastór umræða, laun háskólamenntaðra og sá ávinningur í samfélaginu, (Forseti hringir.) sem ég kemst ekki í hér að vegna forseta.

(Forseti (ÁsF): Forseti minnir á ræðutímann.)