154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:33]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Gott og vel. Ég heyri að hæstv. ráðherra er annt um þennan málaflokk og er með vissa sýn og kannski mögulega skilning á því, vonandi, mér heyrist það, á hversu verðmæt þessi fjárfesting er. En af hverju í ósköpunum er ríkisstjórnin þá ekki að fjárfesta almennilega í þessum málaflokki? Af hverju er ekki verið að setja nægilega peninga í þennan málaflokk til að tryggja að grunnframfærslan sé nægilega há? Grunnframfærsla núna hjá stúdentum er á við helming af ásættanlegum lágum launum á vinnumarkaði. Það er augljóst að þetta er ekki nægilega há upphæð fyrir fólk til þess að framfleyta sér þannig að það er raunverulega verið að skapa kerfi þar sem fólk neyðist til að vinna nema það hafi einhverja fjársterka aðila á bak við sig til að redda sér í gegnum námið. Þetta er ekki að fjárfesta. Þess vegna spyr ég að þessu. Ef það er skilningur á því að þetta sér fjárfesting sem skilar sér, af hverju í ósköpunum er ekki verið að setja alvörupening í þetta kerfi og fjárfesta raunverulega?