154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:39]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lögin um Menntasjóð og yfir höfuð hugmyndin um að styðja fólk í námi kemur af þeim grunngildum að fólk hafi jöfn tækifæri til menntunar óháð efnahag. Það eru markmið sjóðsins og markmið okkar hér, að við veitum fólki jöfn tækifæri til að fara í nám óháð efnahag. Það er þannig sem stuðningurinn á að virka. Ég hef sagt það að við erum ekki að ná nægilega miklum árangri þar sem við sjáum að nemendur telja þetta kerfi ekki skilað sér þannig að þau velji að taka lán. En á sama tíma erum við líka að sjá skýran vilja um að sumir vilja vinna meira með námi og velja að gera það frekar. Við erum ekki með mikinn kostnað fólginn í því að vera með háskóla á Íslandi og ég hef nú þegar boðið öllum einkareknum skólum að taka 100% framlag. Það er bara alveg skýrt að fólk vill hærri grunnframfærslu, aðrir vilja lægra vaxtaþak, (Forseti hringir.) enn aðrir vilja ekkert frítekjumark. Við þurfum einfaldlega að finna réttu leiðina áfram sem er sanngjörnust fyrir flest.