154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:42]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að fagna þeirri skýrslu sem hér er til umræðu á Alþingi og þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og reifun efnis hennar. Í mínum huga er mikilvægast við þessa umræðu hér að við höfum alltaf í brennidepli hlutverk Menntasjóðs, sem áður hét Lánasjóður íslenskra námsmanna, sem sjóðs sem á að tryggja félagslegan jöfnuð, á sem sagt að tryggja það að öll sem hafi áhuga á því að fara í háskólanám komist þangað án tillits til efnahags og oftast er það nú þá efnahagur foreldranna sem þar um ræðir. Það hefur auðvitað verið hlutverk Menntasjóðsins og forvera hans um áratugaskeið og ég er ekki í nokkrum vafa um að hér er á ferðinni eitt besta jöfnunartæki sem við höfum búið til hér á landi

Nýja löggjöfin sem samþykkt var árið 2020 bar ýmis fyrirheit í sér en ég ætla að leyfa mér að benda á, svona í upphafi minnar tölu hér, að það voru líka ýmsar ábendingar sem komu fram við vinnslu þess frumvarps og við afgreiðslu þess hér á Alþingi sem í rauninni þessi skýrsla ber vitni um eða hún endurspeglar það, því að það komu ábendingar, bæði frá námsmannasamtökum og einnig frá samtökum launafólks, um þetta kerfi sem kannski hefði þurft að hlusta aðeins meira á í aðdragandanum.

Það er alltaf deilt um framfærsluviðmið. Ég get svo sem tekið undir með hæstv. ráðherra að það er oft deilt um þau en þau þurfa að vera í lagi þannig að fólk geti haft framfærslu af þeim lánum sem það tekur hjá Menntasjóðnum og verið í fullu námi.

Það eru mjög háir vextir núna á þessum lánum. Ég man þá daga þegar fólk gat tekið námslán á 1% vöxtum og í gamla kerfinu kom afslátturinn inn í lokin. Hann fór þá í miklum mæli til fárra einstaklinga sem höfðu tekið há lán og kannski verið í löngu námi. Ég skil vel að það hafi verið reynt að jafna þann stuðning eins og hefur verið reynt með þessum lögum en eftir situr að afborganir eru mjög háar, lánin verða að vera greidd upp fyrir 65 ára aldur og þó að fólk geti valið leiðina eigi síðar en við 35 ára aldur þá gefur að skilja að samkvæmt þessum lögum þá verður greiðslubyrðin mjög há.

Það er rétt eins og hæstv. ráðherra bendir á að það er kannski ekki komin mikil reynsla á þessi lög en ég hygg að það hafi verið alveg rétt að fara í þessa endurskoðun strax að þremur árum loknum vegna þess að það eru alls kyns atriði sem er hægt að laga núna og ég vona að hæstv. háskólaráðherra greini betur frá þeim hugmyndum sem hún hefur um lagabreytingar á yfirstandandi löggjafarþingi þannig að við getum rætt þær betur hér við þessa umræðu.

Uppleggið var og er ofuráhersla á fjármögnun sjóðsins en sú fjármögnun hefur að mestu komið úr vasa stúdenta eða lántaka. Það var sagt frá upphafi, þegar þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, lagði þetta frumvarp fram að þetta væri ekki sjálfbært kerfi. Það væri alveg ljóst að þetta kerfi myndi ekki ganga upp fjárhagslega ef ríkið myndi ekki láta sjóðnum í té hærri upphæðir. Sjálfbærni var ekki tryggð og það kemur ekki á óvart að það sé nefnt hér í skýrslunni.

Vextir þessara lána eins og nú gildir eru kannski það alvarlegasta í stöðunni. Það er hægt að velja verðtryggt eða óverðtryggt, það er vaxtaþak, 4% og 9%, og það er rétt, eins og hér hefur verið bent á, að þegar þessi lög voru sett þá stóð yfir skammvinnt lágvaxtatímabil í landinu. Kannski erum við þannig gerð hér í þessu landi að við erum alltaf bjartsýn á að hlutirnir verði góðir áfram og haldist eins og þeir þurfa að vera en svo bara gerist það ekki. Stúdentar taka alla áhættu af vöxtunum, af ákvörðunum þeirra og hvar þau hreinlega lenda í vaxtastiginu í landinu þegar þau ljúka námi. Þetta verður að laga, hæstv. forseti. Það er ekki hægt að láta lántakandann búa misserum og kannski árum saman í óvissu um hver kjörin séu á láninu sem verið er að taka og greiðslubyrðin, sem verður þá fljótandi, eins og kemur fram í skýrslunni og í takt við efnahagsástandið. Það kann að vera gott, það kann að vera vont, og það er bara eins og hvert annað happdrætti hvar þú lendir í tíma og rúmi í því að ljúka námi og hefja síðar greiðslur af því láni sem þú hefur tekið. Þetta er stærsta málið, finnst mér, við þessa skýrslu og við þessar ábendingar og eitthvað sem verður að taka á strax. Vaxtaþakið kemur að einhverjum notum en það er ekki næg trygging.

Það er líka þannig að það sem hér var lagt til, og við mörg bundum miklar vonir við, var að styrkir væru greiddir, þ.e. sem sagt að hluti lánsins breyttist í styrk við námslok. Það hefur ekki gengið eftir eins og við vorum að vona. Þá er mjög brýnt að rýna það og þá sjáum við bæði í skýrslunni, og við höfum kynnt okkur aðdragandann, að það var auðvitað bent á það frá upphafi að það væri best að gera þetta eins og Norðmenn. Stundum er best að gera hlutina eins og Norðmenn, verður að segjast, þ.e. að styrkurinn kæmi inn við lok hverrar annar. Og hvað þýðir það? Það er stórkostlegt efnahagslegt atriði fyrir lántakann að þú fáir lækkun á höfuðstóli við lok hverrar annar en ekki í lok námsins. Það segir sig sjálft. Þetta þarf líka að endurskoða en ég tek það skýrt fram að ef styrkirnir virka þá eiga þeir að virka þannig og þeir eru góðir til þess bæði að lækka lánsupphæðina en ekki síður til að hvetja námsmenn til að klára á réttum tíma eða u.þ.b. Það er sveigjanleiki í kerfinu, ég held hann sé nægur. Nú er ég kannski ekki best fær um að dæma það en það er samt þannig að það skiptir máli að fólk hafi eitthvert svigrúm en líka að það sé ákveðinn hvati til þess að fólk ljúki sínum gráðum á svo að segja tilsettum tíma. Það er gott fyrir stúdentana, gott fyrir samfélagið, það er gott fyrir háskólann, það græða allir á þeirri stöðu.

Barnastyrkirnir, sem ekki hefur kannski verið mikið fjallað um hér, voru, man ég vel, mikið lykilatriði við þessa lagasetningu, þ.e. að hafirðu kostnað af framfærslu barna þá takirðu ekki lán fyrir þeirri framfærslu heldur fáir styrk. Þetta er gríðarlegt jafnréttismál, gríðarlegt. Ég hef ekki tölu á þeim konum sem ég þekki sem fóru seint í háskólanám, tóku námslán og voru kannski einstæðar með tvö eða þrjú börn. Hvað haldið þið að þessar konur skuldi eða hafi skuldað? Þetta er mikið réttlætismál og það er gott að sjá að þetta er nýtt og þetta skiptir miklu máli og þessu má ekki breyta.

Annað sem var mikið í umræðunni var afnám ábyrgðarmannakerfisins í gamla kerfinu, LÍN-kerfinu, og við þekkjum öll sorgarsögu þess ábyrgðarmannakerfis í gegnum árin og áratugina. Það var ekki gengið alla leið við þessar lagabreytingar. Það náðist að afnema ábyrgðarmannakerfið eins og það stóð 1. júlí 2020, ef ég man þetta rétt, og þá á öllum lánum sem voru í skilum. Þau lán sem hafa farið í skil eftir þann tíma, gömlu lánin, hafa ekki fengið afnám ábyrgðar og þessu þarf að breyta.

Hitt er líka að ég hygg að það sé löngu tímabært að afnema ábyrgðarmannakerfið eða sem sagt afnema ábyrgð á lánum sem voru ekki í skilum við þennan tíma. Þetta eru þegar grannt er skoðað kannski ekki mjög margir einstaklingar, oft kannski um háar upphæðir að ræða en ekki alltaf, en þetta er í rauninni það sama og að afskrifa. Þú bara afskrifar þessi afföll. Þannig líka leysir þú margt fólk undan því þrúgandi oki sem það er að vera ábyrgðarmaður á lánum sem eru í vanskilum með þessum hætti. Ég held að það sé kominn tími til að við skoðum það af fullri alvöru, það tókst ekki að gera þetta algerlega 2020 en ég held að við séum komin þangað að við eigum að geta stigið þetta skref.

Ég sagði hér fyrr í minni ræðu að ég vonaðist til að hæstv. ráðherra segi okkur hvaða breytingar hún er að hugsa um að leggja til á þessu yfirstandandi löggjafarþingi af því ég hygg að það væri bara gott að fá einhvern svona til að ámálga þær a.m.k. hér og taka þær til umræðu. Ég hef áhyggjur af því, eins og kom fram í máli ráðherrans, að 20% af framlögum til Menntasjóðsins fari í rekstur sjóðsins, hafi ég skilið það rétt. Það verður að breytast. Við viljum ekki hafa það þannig, það er allt of hátt hlutfall og ég ítreka það sem ég sagði áður að það verður að taka þessa miklu vaxtaáhættu af stúdentum.

Mig langar líka að biðja hæstv. ráðherra að ræða það hér í seinni ræðu sinni hvernig það geti verið að lánasöfnin hafi ekki verið aðskilin og að lántaka fari fram í gamla lánasafninu hjá LÍN. Ég hreinlega skil ekki alveg hvernig þetta er gert en það var búið að benda á það, fjármálaráðuneytið var búið að benda á það, að þetta væri ekki góð leið að fara.

Mér finnst mikilvægt við þessa umræðu að við viðurkennum að það verði að vera möguleiki að vera í fullu námi án atvinnuþátttöku, a.m.k. að vetri til, að fullt nám sé fullt nám. Þetta er líka akademísk spurning og ég heyri það oft í samtölum mínum við fólk sem kennir og starfar innan háskólanna að atvinnuþátttakan er svo mikil að hún stýrir öllu öðru í náminu. Það er ekki góð staða að vera í, hvorki fyrir stúdentinn né háskólann. Ég skil það, Íslendingar eru bara vanir því og námsmenn hér að vinna á sumrin og allt í góðu með það en að vera í fullri vinnu kannski með fullu námi, það segir sig sjálft að þar mun eitthvað fara úrskeiðis. Ég held að þetta sé nefnilega líka akademískt mál. Þetta snýst um gæði námsins og það að geta stundað það að mestu ótrufluð. Það er auðvitað þannig, eins og fram hefur komið og stendur líka hér í þessari ágætu skýrslu, að efnahagsástandið í samfélaginu, staðan á vinnumarkaði, ræður auðvitað einhverju um það hversu mikil atvinnuþátttaka stúdenta er. Þegar við erum á þenslutímum þá óneitanlega kallar vinnumarkaðurinn á meiri þátttöku og meira framlag frá unga fólkinu okkar sem er í háskólanámi.

Ég vil fagna því í lokin að hæstv. dómsmálaráðherra hafi viðurkennt það strax í upphafi sinnar ræðu að alvarlegir meinbugir hafi verið og séu á þessum lögum og þá þurfi að laga. Það er auðvitað ekki sama hvernig það er gert en ég hygg að við hljótum að geta náð saman um skynsamlegar breytingar og breytingar sem stuðla að því að öll þau sem hafi hug á háskólanámi geti stundað það án tillits til efnahags eða stöðu í samfélaginu og að það sé það sem við séum að tryggja með þessari löggjöf, með starfsemi Menntasjóðsins og með því kerfi sem þarna var innleitt, sem sagt með barnastyrkjunum og með hvatakerfinu sem felst í niðurfellingu hluta lánsins. Þar þarf augljóslega að gera betur svo að það virki og við verðum líka að taka þessa miklu áhættu af herðum stúdenta á kjörunum sem eru á láninu. Það hreinlega gengur ekki upp að hafa þetta með þessum hætti.

Ég hygg að ég láti þetta duga hér, í bili a.m.k. Ég bendi hv. þingmönnum á áherslur stúdenta, Landssamtaka íslenskra stúdenta, og það sem þau hafa látið frá sér fara um lögin um Menntasjóðinn og stöðuna. Það er mikilvægt að við tökum tillit til þeirra ábendinga en það er líka mikilvægt að við skoðum stöðu þeirra sem eru greiðendur lánanna, hvort sem það er í nýja kerfinu eða gömlu kerfunum, og þær þúsundir manns sem enn eru að greiða af þeim.