154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:58]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er áhugaverð umræða og góð. Þetta er gríðarlega mikilvægur sjóður eins og hér hefur komið fram og jöfnunartæki sem við höfum sem betur fer búið að í áratugi núna; alls ekki gallalaus, eins og vel hefur komið fram í umræðunum í dag, og þessi nýju lög um þennan Menntasjóð eru það ekki heldur og heyrist mér sem betur fer á hæstv. ráðherra að hún hafi í hyggju að taka það til gaumgæfilegrar skoðunar.

Ég er að hugsa um kannski hinn endann á þessu öllu saman þegar horft er á tíma, þ.e. þegar námsmenn sem hafa tekið þessi námslán til að komast í gegnum nám á einhverjum tímapunkti í lífi sínu eru búnir að vera að greiða af þessum námslánum kannski í áratugi. Eins og maður veit dæmi um þá lækka þau kannski ekki mjög mikið á þeim áratugum sem greitt er af þeim af einhverjum ástæðum og standa síðan uppi sem skuld við ríkið sem gjaldfellur, ef ég hef skilið hlutina rétt, við 65 ára aldur. Mig langar að spyrja hvort það sé einhver hugmynd uppi um að endurskoða þetta með þeim hætti hreinlega að lánið sé afskrifað þegar fólk er búið að borga af því, segjum í 30 ár eða við einhvern ákveðinn lífaldur.

(Forseti (ÁsF): Forseta varð svolítið á í messunni, það er bannað að samflokksmenn tali saman í andsvari. Vegna þess ætla ég að gefa hv. 8. þm. Suðvest., Þórunni Sveinbjarnardóttur, færi á að svara þessu eina kalli.)