154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[15:11]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Það er nokkuð ljóst að markmið laga um Menntasjóð námsmanna, að tryggja stúdentum jöfn tækifæri til náms með fjárhagslegum stuðningi, hafa ekki náðst. Framfærslan er allt of lág til að ná endum saman og vegna þess neyðast allt of margir stúdentar til að vinna með námi en ef þeir vinna með skóla þá minnkar framfærsla þeirra því að frítekjumarkið er svo lágt og þá festast stúdentar í eins konar vítahring eða jafnvel fátæktargildru. Þeir geta ekki sinnt námi af heilum hug því að þeir eru að vinna en þeir ná ekki að vinna nóg til að hafa ofan í sig og á. Atvinnuþátttaka íslenskra stúdenta er með því hæsta sem þekkist en í könnun EUROSTUDENT frá árinu 2019 kemur fram að 71% íslenskra stúdenta vinna með námi, þar af 29% í yfir 20 tíma á viku. Þá segja tæplega þrír af hverjum fjórum að án vinnunnar hefðu þeir ekki efni á að vera í námi. Stúdentar sækja ekki vinnu vegna þess að þeim þyki svo skemmtilegt að hafa brjálað að gera eða af því að þeim sé sama um námið heldur er staðreynd málsins sú að það er ekki hægt að lifa af námslánunum einum saman.

Embætti umboðsmanns skuldara miðar við að lágmarksframfærsla einstaklings án húsaleigu sé 214.815 kr. á mánuði. Til samanburðar gerir Menntasjóður ráð fyrir að námsmenn geti lifað á aðeins 137.100 kr. á mánuði. Landssamtök íslenskra stúdenta hafa áður bent á að það skjóti skökku við að sama upphæð og er veitt fyrir fullt nám er lágmarksupphæð fyrir 50% vinnu. Þetta viðhorf endurspeglar það sjónarmið að fullt nám er ekki álitið full vinna og launin eða lánin eru í samræmi við það. Þetta er náttúrlega ömurleg staða. Ekki batnar það þegar húsnæðisliðurinn er tekinn inn en miðað við fullt nám fær námsmaður í leiguhúsnæði 97.853 kr. aukalega á mánuði í húsnæðislán. Það dugar hins vegar engan veginn fyrir húsnæðiskostnaði, jafnvel þegar þú ert eitt af þeim heppnu sem fá inni á stúdentagörðum, en þar kosta einstaklingsíbúðir frá 115.000 kr. upp í 141.000 kr. á mánuði, hvað þá ef viðkomandi nemandi þarf að leita á hinn almenna leigumarkað. Með öðrum orðum hafa stjórnvöld skapað kerfi þar sem stúdentar neyðast til að vinna með námi. Þrátt fyrir að íslenskir stúdentar séu virkir á vinnumarkaði er ekkert sem grípur þá ef þeir missa vinnuna. Námsmenn, líkt og aðrir, greiða hluta af launum sínum í Atvinnuleysistryggingasjóð en vegna þeirrar gloppu sem er á milli námslána og atvinnuleysistryggingakerfisins geta þeir ekki sótt um atvinnuleysisbætur í sjóðinn. Þetta kom skýrt í ljós í Covid-faraldrinum. Því er ekkert kerfi sem grípur námsfólk sem fær t.d. ekki sumarvinnu eða missir vinnu sína yfir veturinn. Eins og er eru námslán ekki greidd yfir sumartímann nema fólk sé í sumarnámi og þá er afkoma stúdenta fullkomlega ótrygg og getur þetta fyrirkomulag valdið brottfalli úr námi.

Ef stúdentar eignast barn í námi opnast ný fátæktargildra. Það þyrfti að hækka fæðingarstyrk námsmanna strax enda alveg ljóst að núverandi upphæð dugar ekki til að ná endum saman fyrir nýbakaða foreldra. Að stúdentar þurfi að ströggla í fæðingarorlofi getur haft margvísleg áhrif á framvindu náms, seinkað því að stúdentar stofni fjölskyldu og dregur úr jöfnum tækifærum stúdenta. Þeir sem nú þegar eru efnahagslega sterkir eða með gott bakland geta stjórnað því hvenær þeir hyggja á barneignir. Aðrir þurfa bara að gera svo vel að aðlaga sig. Þetta þykir mér vera ofboðslega lýsandi fyrir það hvernig við höfum byggt upp kerfin okkar, ekki bara þetta kerfi heldur mörg önnur kerfi. Gengið er út frá því að allir hafi eitthvert bakland, einhverja, hvort sem það eru foreldrar eða aðrir, sem eiga pening og geta aðstoðað á meðan þú gengur í gegnum námið eða ýmsa aðra erfiðleika í lífinu en það er bara ekki þannig. Þetta gerir það að verkum að tækifærin eru ekki jöfn.

Námslánakerfið átti til að byrja með að vera félagslegt jöfnunartæki en í stað þess eykur það ójöfnuð. Það tekur enginn lán hjá sjóðnum nema honum standi engar aðrar lausnir til boða. Þetta er, eins og hefur komið fram í þessari umræðu, áfellisdómur. Til að mæta þessu var sett á fót styrktarkerfi sem átti að styðja nemendur í að sækja nám eftir eigin höfði og stuðla að því að fleiri nemendur lykju námi. Styrkirnir eru hins vegar of lágir og miðast við framvindu náms sem þýðir að ef stúdentar lenda í skakkaföllum og ná ekki að ljúka námi á tilskildum tíma fá þeir ekki styrki.

Það eru alls konar aðrar hindranir sem standa líka í vegi fyrir að styrkjakerfið nýtist þeim sem standa höllum fæti. Það er til að mynda mjög líklegt að fólk sem þarf að vinna með skóla klári námið ekki á réttum tíma og eigi ekki rétt á styrk. Ekki var gert ráð fyrir yfirfærslu úr gamla kerfinu í nýja sem þýðir að nemendur sem sóttu um lán í gegnum LÍN eða Lánasjóð íslenskra námsmanna þegar nám hófst geta ekki fengið styrki, burt séð frá námsframvindu. Styrkjakerfið stuðlar jafnframt ekki að frelsi og sveigjanleika í námi. Það er nær ómögulegt að skipta um námsbraut og halda í styrkinn og hentar kerfið jafnframt ekki nemendum sem vilja blanda saman ólíkum námsbrautum. Þetta meikar engan sens miðað við þær áherslur sem eru núna varðandi þarfir menntakerfisins til að styðja við þarfir framtíðarsamfélagsins, eða ekki framtíðarinnar, við erum komin þangað, framtíðin er núna.

Forseti. Það skiptir máli að nemendur hafi svigrúm og getu til að sækja í það nám sem þeir brenna fyrir en til þess þurfum við að auka hlutfall styrkja í kerfinu jafnt og þétt og draga úr því að fólk sitji uppi með lán sem þarf að borga af í áratugi. Einhver skynsamlegasta fjárfesting sem stjórnvöld geta ráðist í er að stytta skuldahalann sem stúdentar taka með sér út í lífið að námi loknu. Þetta eykur líkurnar á góðum námsárangri og tryggir raunverulegt frelsi þegar kemur að ákvarðanatöku, sem sagt raunverulegt frelsi felur í sér að þegar við erum að koma úr námi og ákveðum hvað við viljum vinna eða starfa við þá erum við oft að taka ákvörðun sem er einhvern veginn algerlega byggð á því hver launin eru sem eru í boði út af því að við erum með þvílíkan skuldahala á bakinu sem við þurfum að borga. Þetta er ekki raunverulegt frelsi. Raunverulegt frelsi felst í því að vera frjáls til að velja starf og vinnu bara út frá ástríðu og áhuga frekar en hvað sé að fara að borga reikningana til að ná endum saman. Þá hvetjum við líka miklu frekar til þess að það verði einhver raunveruleg samfélagsleg nýsköpun þegar fólk hefur þetta frelsi. Þetta eykur líka möguleika ungs fólks á að fóta sig í samfélaginu ef það er ekki með þennan skuldabagga á bakinu. Það er alvörufjárfesting í fólki og í framtíðinni sem skilar sér margfalt til baka.

Við þurfum að gera stúdentum kleift að koma undir sig fótunum, kaupa sína fyrstu íbúð eða fara erlendis í frekara nám þrátt fyrir að hafa tekið þá ákvörðun að fara í háskóla eða annað framhaldsnám. Þetta viðhorf, að stúdentar þurfi að þjást með námi, að stúdentar þurfi að vinna fullt starf á sumrin þannig að þau geti sloppið með að vinna bara smávegis með fullu námi á veturna, er ótrúlega skammsýnt og skaðlegt viðhorf. Stúdentar eiga að hafa svigrúm til þess að geta einbeitt sér að náminu og tekið þátt í háskólasamfélaginu. Þeir eiga líka að hafa frítíma. Háskólanám er ekki bara bóklestur og verkefnaskil. Þetta er samfélag sem á sér fáa líka. Að verja tíma með fólki með mismunandi áhugasvið úr mismunandi deildum háskólanna og kasta á milli sín hugmyndum er ávísun á frjóa hugsun og nýsköpun sem mörg af stærstu fyrirtækjum landsins hafa sprottið upp úr. Það eru því ekki bara stúdentar sem fara á mis við margt ef þeir geta ekki tekið þátt í háskólasamfélaginu heldur Ísland allt. Stúdentar, eins og aðrir, þrífast best ef þeir hafa tíma til að sinna sjálfum sér, sinna áhugamálum sínum, sinna vinum sínum, skapa félagsleg tengsl. Stúdentar þurfa að eiga frítíma til að geta gert þetta. Allt of margir stúdentar hafa ekki þetta svigrúm og eru bara á fullu að vinna í námi og hafa varla tíma til að anda á milli.

Forseti. Við erum að horfa fram á gífurlegar samfélagsbreytingar og í stað þess að tala um hvernig við getum aukið hagkvæmni ættum við að vera að skapa menntakerfi sem getur mætt þörfum nemenda á fjölbreyttan hátt í síbreytilegu og lýðræðislegu samfélagi. Námið þarf að aðlaga að þörfum nemenda svo þeir geti menntað sig á eigin forsendum og að þekkingarsköpun sé ávallt höfð að leiðarljósi. En það er ekkert síður mikilvægt að einstaklingar hafi aðgengi að menntun og endurmenntun á öllum skeiðum ævinnar. Við mótun menntastefnu til framtíðar er mikilvægt að horfa til framtíðarsamfélagsins og þeirra öru samfélagsbreytinga sem nú eiga sér stað. Aðferðafræði síðustu aldar mun ekki duga til. Það þarf að hugsa algerlega upp á nýtt hvernig við byggjum upp samfélag sem er í stakk búið til þess að tækla hin fjölmörgu vandamál nútímans sem við stöndum frammi fyrir, og framtíðarinnar. Þarna er endurmenntun t.d. feikilega mikilvæg en í dag, sem dæmi, getur fólk sem er 60 ára og eldra ekki einu sinni sótt um námslán.

Ef stúdentar þurfa ekki að vega og meta allar ákvarðanir sem þeir taka í tengslum við nám út frá efnahagslegum framtíðarhorfum er aldrei að vita nema aðsókn myndi aukast í fleiri námsgreinar, að innflytjendur myndu í meira mæli sækja í framhaldsnám, að fólk myndi raunverulega sjá fyrir sér framtíð þar sem það starfar við það sem brennur fyrir, að fólk stofni fjölskyldur þegar því hentar og lifi hreinlega hamingjusamara lífi með aðeins minni áhyggjur. Streita, hvað við erum ótrúlega upptekin og erum að gera ótrúlega mikið og erum að bugast í streitu, er líka að buga heilbrigðiskerfið okkar. Þetta er allt hluti af miklu stærri mynd sem við þurfum að huga að. Fylgifiskur þessa væri eflaust öflugri háskólar með stúdentum sem eru líklegri til að skara fram úr á sínu sviði og njóta námsáranna.

Píratar lögðu fram ásamt öðrum flokkum breytingar á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna. Þær breytingar snúa að námslánum, lágmarksnámsframvindu, fæðingarstyrk og atvinnuleysistryggingum, því að það er algerlega ljóst að þörf er á öllum þessum breytingum og það væri upplagt fyrir þetta þing að hunsa ekki kröfur stúdenta lengur og samþykkja þetta frumvarp. En það er líka upplagt og mikilvægt að við hugsum til þess, þegar við erum að tala um breytingar á þessu kerfi, á námslánakerfinu og menntakerfinu í heild sinni, að það er ekki bara hægt að færa eitthvert takmarkað fjármagn til á excel-skjalinu og ætlast til þess að það sé að fara að gera einhvern gæfumun. Það þarf fjármagn. Það þarf raunverulega trú á því að menntun sé fjárfesting og að það borgi sig til baka að fjárfesta í ungu fólki, og þeirri hugmynd eða hugmyndafræði eða trú þarf að fylgja fjármagn, því annars verður það að engu. Ég hvet hæstv. ráðherra til að fá meira fjármagn í þennan málaflokk og tryggja að stúdentar hafi raunverulegan sveigjanleika og frelsi til að velja sér nám algjörlega óháð fjárhagsstöðu og geti streitulaust og áhyggjulaust stundað það nám án þess að vinna sig einhvern veginn í þrot og bugun meðfram því, því að það kostar okkur bara meiri peninga, forseti, í lokin.