154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[15:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu um Menntasjóð námsmanna, framsögu hæstv. ráðherra um hana og umræðuna hér í dag. Eins og hér hefur komið fram var stigið mjög mikilvægt umbótaskref þegar ný lög um Menntasjóð námsmanna voru samþykkt hér á Alþingi árið 2020 í tíð þáverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur. Munum það líka að að þeirri breytingu var langur aðdragandi. Bæði fyrri ráðherrar og Alþingi höfðu gert nokkrar atlögur að breytingum og þetta var fyrsta heildarendurskoðunin á námslánakerfinu frá því 1991. Sannarlega hefur margt breyst í íslensku samfélagi á þeim tíma, frá 1991–2020, en þegar lögin voru samþykkt var í þeim mikilvægt endurskoðunarákvæði um að fylgjast með þróuninni og gera úttekt á stöðunni með það að markmiði að meta hvort meginmarkmið námslána- og styrkjakerfisins væru að nást eða hvort eitthvað mætti bæta. Þess vegna er mjög mikilvægt að fyrirmælum Alþingis er hér fylgt og við komin með skýrslu til að fjalla um.

Mér finnst samt, eins og margir hafa gert hér í dag, mikilvægt að halda því til haga að skammt er liðið frá lagabreytingunum og lítil reynsla komin á margt í lagaumhverfinu. En á sama hátt finnst mér mjög mikilvægt að við tökum til okkar það sem við getum metið eftir þennan skamma tíma og mér finnst skynsamlegt, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra, að horfa á breytingar sem hægt væri að fara í strax á þessu þingi og halda svo áfram að rýna lausnamiðað þær breytingar sem þarfnast kannski lengri tíma til undirbúnings.

Markmiðið er auðvitað alltaf að jafna tækifæri til náms eins og ég held að hver einasti ræðumaður hafi komið inn á í dag. Mig langar að koma inn á nokkur atriði sem skipta máli og koma fram í skýrslunni og hafa verið nefnd hér, sum en kannski ekki öll. Það fyrsta er námsframvindan. Mér finnst einmitt margt benda til þess að eitt fyrsta skrefið sem hægt væri að fara í til umbóta sé rýmkun á kröfunni til námsframvindu og sérstaklega hvað varðar möguleikann á að færa sig á milli námsleiða, ekki síst í ljósi þeirrar kröfu samfélagsins að við teljum mjög mikinn kost að blanda saman þekkingu þvert á námsleiðir. Ég hef skilið ráðherra þannig að þetta verði mögulega eitt af því sem komi fyrst til kasta ráðuneytisins að skoða en vil jafnframt nefna það að ég álít að við í allsherjar- og menntamálanefnd munum rýna þetta sérstaklega í yfirferð um skýrsluna.

Grunnframfærslan og frítekjumarkið eru svo stöðugt viðfangsefni og hafa verið það frá því að ég fór að fylgjast með umræðum um námslán, sem er nú býsna langt. En í umræðunni um þessa skýrslu hafa komið fram hugmyndir um aðskilið frítekjumark á námstíma og utan hans og þannig skilst mér að fyrirkomulagið sé í Danmörku, að frítekjumarkið sé tvískipt. Á hinn bóginn hefur í umfjöllun verið bent á að það gæti kostað mikla vinnu og utanumhald og verið mannaflsfrekt að fara í tvískipt frítekjumark. Ég tel samt að þetta sé hugmynd sem sé verð frekari skoðunar og mögulega bara tæknilegt úrlausnarefni, af því ég tel að það að aðskilja frítekjumark geti skapað ný tækifæri, bæði fyrir þá sem þurfa að treysta á mikið lán frá lánasjóðnum og mögulega minna, og gæti þess vegna verið mjög mikilvægt tæki til aukins jafnréttis og aukins aðgengis þar sem það fólk sem hefur tækifæri til að afla tekna utan námstíma gæti þá jafnvel sleppt því að vinna með námi eða unnið mjög lítið með námi og fengið fulla greiðslu frá sjóðnum. Auðvitað þarf framfærslan að duga til að ná endum saman en á sama hátt er mikilvægt fyrir stúdenta að skuldsetja sig ekki meira en þörf er á og ég held að á hverjum tíma þurfi að gera atlögu að skynsamlegum viðmiðum um framfærslu.

Ég vil líka taka undir það, sem hv. þm. Halldóra Mogensen kom inn á hér áðan, að það er mjög mikilvægt í þessu sambandi að horfa á fæðingarstyrki og atvinnuleysisbætur. Réttindi námsmanna til fæðingarstyrks og atvinnuleysisbóta geta haft mjög mikil áhrif, bæði á meðan á námi stendur, á tækifærin til námsframvindu, og svo eftir nám, á tækifæri til endurgreiðslu námslána.

Þá kem ég að atriði sem ég tel mjög mikilvægt og ég hef ekki heyrt aðra tala um hér í dag: Við þurfum betri greiningar á þörfum námsmanna á árinu 2024 og betri greiningar en eru dregnar fram í þessari skýrslu þótt þar séu auðvitað dregnar fram mjög mikilvægar staðreyndir um vilja námsmanna. Ég velti t.d. fyrir mér hvort stytting framhaldsskólans hafi haft áhrif á þörf námsmanna til lántöku á meðan þeir eru í grunnnámi. Búa hugsanlega fleiri námsmenn í foreldrahúsum lengur á meðan þeir stunda grunnnámið? Eigum við eftir að sjá meiri ásókn þessara sömu námsmanna í lán þegar þeir fara í framhaldsnám? Sá sem byrjaði í námi eftir að lögin tóku gildi er hugsanlega að ljúka grunnnáminu núna og væri þá að fara í framhaldsnám í ár eða á næsta ári. Þar gætum við séð meiri eftirspurn eftir lánum.

Svo velti ég fyrir mér hvernig atvinnuþátttaka námsmanna er metin og ég leyfi mér að álykta að við höfum ekki nógu góða mynd af því raunverulega hvað sé er á bak við atvinnuþátttökuna. Greinum við á milli þeirra sem vinna með námi eða þeirra sem stunda nám með vinnu, þ.e. greinum við á milli þeirra sem eru að afla sér grunnmenntunar, á hvaða stigi sem hún er, eða eru í háskóla sem lið í sinni símenntun og lið í að viðhalda sinni færni á vinnumarkaði? Á meðan okkur tekst ekki að greina á milli þessara hópa þekkjum við ekki raunverulegar þarfir hópsins sem vinnur með námi af illri nauðsyn, þ.e. af því að hann treystir sér ekki til að taka námslán eða vegna þess að upphæð grunnframfærslunnar er of lág. Það er einmitt hópurinn sem við þurfum að tryggja að geti tekið námslán. Á sama hátt er kannski mikilvægt að átta sig á hvort það er einhver hópur í námi sem telur sig raunverulega ekki þurfa á námslánum að halda. Það sem ég á við með því er að við séum ekki einhvern veginn að taka mögulega í matinu þarfir þess hóps fram yfir þarfir hópsins sem er í brýnni þörf fyrir námslán.

Eitt af því sem var nýmæli í lögunum um Menntasjóðinn eru ívilnanir, mögulegar ívilnanir vegna skorts á þekkingu á tilteknu svæði eða í tilteknum greinum. Í kringum þessa heimild til ívilnana er smíðað ákveðið kerfi þar sem bæði Byggðastofnun og sveitarfélög koma að og síðan ráðuneyti þar sem mögulega hefur vantað yfirsýn yfir skort á sérþekkingu, eins og t.d. heilbrigðisstarfsmanna, ef það vantar heilbrigðisstarfsmenn á dreifbýl svæði. Mér sýnist að þessi leið sé kannski fullþung í vöfum. Það er búið að vinna þarna ákveðna vinnu, t.d. hjá heilbrigðisráðuneytinu, en eftir að heilbrigðisráðuneytið hefur greint þörf þá þarf í raun að taka ákvarðanir um hver sé fjöldinn og afla fjárheimildanna. Þetta þarf síðan, eins og áður sagði, að vera í samvinnu við Byggðastofnun og sveitarfélög þannig að ég held að þessi heimild til ívilnana, sem ég tel mjög mikilvæga, sé eitt af því sem þarf að fylgjast mjög vel með framkvæmdinni á og einmitt að tryggja að kerfið sé ekki of þungt.

Svo er auðvitað stóra málið sem margir hafa komið inn á og í raun sá þáttur sem hefur þegar upp er staðið mest áhrif á hvort fólk getur nýtt sér Menntasjóðinn í samræmi við markmið hans, það eru fjármögnunin, greiðslukjörin, vaxtastigið og vaxtaáhættan. Endurskoðun og útfærsla á þessu þarf auðvitað að vera í virku samstarfi þess ráðherra sem fer með háskólamál og fjármálaráðuneytis og jafnvel fleiri ráðuneyta og það sem mér sýnist kannski vera stærsta áskorunin núna er óvissan sem námsmenn standa frammi fyrir þegar þeir taka lánin. Þá velti ég fyrir mér, hvað eigum við eiginlega við þegar við tölum um að sjóðurinn eigi að vera sjálfbær fjárhagslega? Það þarf að skilgreina vel. Auðvitað er lykilatriðið fyrir bæði námsmenn og þá sem bera ábyrgð á sjóðnum og starfa hjá sjóðnum, eru í stjórn sjóðsins, að okkur takist að halda áfram að þróa regluverkið þannig að það verði sem einfaldast og gagnsæjast fyrir alla sem að málum koma.

Að lokum langaði mig að taka undir það sem hér var nefnt fyrr í umræðunni, að það skipti máli að skoða hvort hægt sé að bregðast við varðandi ábyrgðarmenn sem enn standa eftir hjá sjóðnum vegna eldri lána og eins atriði varðandi það hvenær styrkur kemur í rauninni til útborgunar eða hvernig það er, eða sem sagt lækkunar, þannig að það er liður í gagnsæinu sem ég nefndi áðan.

En að lokum finnst mér það fyrst og fremst fagnaðarefni að við skulum árið 2024 vera að fjalla um reynslu af nýjum lögum og leiðir til að bæta þau því að við höfðum í allt of mörg ár hjakkað í sama farinu við að reyna að fara í umbætur sem ekki tókust. Nú erum við á beinu brautinni og höfum öll tækifærin til að gera betur.