154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[16:17]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma hér í lokin á þessari umræðu og þakka fyrir góðar ábendingar og umræðu um skýrsluna sem liggur nú fyrir. Um leið og hún var birt hófumst við handa að vinna ákveðnar breytingar, og ætlum að ráðast í smá samtal og samráð um þær áður en þær koma hér inn í þingið í næsta mánuði, sem ég tel mikilvægt að ráðast í strax.

Ég tek undir þau sjónarmið, sem hér hafa verið reifuð, að þetta er vandasamt verkefni og gríðarlega mikilvægt að okkur takist betur til að styðja við stúdenta með gagnsæjum og einföldum hætti þar sem við nýtum fjármunina til að styðja við stúdenta til náms, minnkum flækjustigið og yfirbygginguna á kerfinu og gerum á sama tíma betur svo að nemendur sem telja þetta fyrirkomulag í dag vera ógagnsætt — sem og auðvitað að þeir bera ákveðna áhættu á því hvernig vextir eru ákvarðaðir á lán sitt.

Hér var farið yfir ýmislegt og okkur gefst auðvitað meira rými til að ræða breytingarnar þegar þær síðan koma. Það var aðeins spurt um aðskilnaðinn, um gamla styrkjakerfið og það nýja. Það er kannski mikilvægt, og ég tek undir það og það stendur í þessari skýrslu, að skilja á milli til að leiða fram kostnað við núverandi kerfi og líka til að tryggja að ríkisstuðningurinn nýtist sem best til að ná markmiðum nýju laganna um Menntasjóð námsmanna. Eins og ég kom fram með er nýja kerfið fjármagnað með lánum úr gamla kerfinu og það er enn óvíst hver kostnaðurinn er eða ávinningurinn af þeirri fjármögnun. En í greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins var fjallað um atriði eins og þetta sem og önnur atriði sem fjármögnun sjóðsins tekur ekki á sem við vinnum í að bæta úr.

Þá var spurt hér sérstaklega af þingmönnum hvaða breytingar ég teldi brýnast að ráðast í og ég fór aðeins yfir það í framsöguræðu minni hvaða þættir það væru sem ég teldi að gætu ekki beðið. Ég reifa það kannski stuttlega aftur að ég tel mikilvægt að við rýmkum skilyrði fyrir veitingu námsstyrkjanna þannig að í það minnsta á meðan við tökum umræðu um kerfið í heild sinni geti námsmenn fengið styrk vegna eininga af tveimur námsleiðum í stað einnar. Við skulum taka dæmi til skýringar um einstakling sem fer í hjúkrunarfræði og hættir þar eftir ár og byrjar í líffræði og fær stóran hluta af námi sínu metinn til gráðu og útskrifast á eðlilegum tíma en vegna þess að einstaklingurinn fór í tvær námsleiðir til að klára þá gráðu þá er styrkjakerfið ekki að koma til móts við slíka einstaklinga. Ég tel það líka mikilvægt vegna þess að við erum að reyna að ýta undir þverfaglegt nám. Í dag er menntakerfið þannig að nemendur fara ekki lengur í háskóla til að finna sér starfsheiti og mennta sig fyrir eitt starfsheiti heldur einmitt til að efla færni sína og hæfni og þverfaglegt nám og aukið samstarf háskóla verður lykilþáttur í því og Menntasjóðurinn og námsstyrkjakerfið þarf að koma til móts við það.

Þá tel ég að öðru gríðarlega mikilvægt að leggja til breytingar á útreikningi vaxta á námslánum og að við getum þá tekið ákvörðun um það strax að breyta útreikningi til að koma til móts við þá lánþega við þær aðstæður að það verður mikil hækkun vaxta sem hefur auðvitað gríðarleg áhrif á greiðslubyrði. Þetta á við bæði um verðtryggð og óverðtryggð lán. Ég held að við þurfum að skoða nákvæmlega og eiga samtal um það nú næstu daga og vikur hvaða leið verður farin nákvæmlega í því en þarna er hægt að skoða að horfa til lengri tíma við útreikning vaxta eða aðrar leiðir þar sem við getum horft til kerfa á Norðurlöndunum, þar sem oft eru skoðaðir meðaltalsvextir eða þeir endurreiknaðir mun oftar og við þurfum að finna út úr því hvaða leið verður best til þess. Þessar tvær breytingar legg ég mesta áherslu á að komi hingað í þingið hratt og örugglega til að klárast á þessu vorþingi, mögulega einhverjar aðrar minni háttar breytingar sem ég mun þá kynna á næstu dögum og vikum. En ég ætla að segja það, og tek undir með hv. þingmönnum sem það sögðu, að hér er einstakt tækifæri og bara verkefni fyrir höndum fyrir þingið að læra af og læra af því frumvarpi sem fór hér í gegn síðast og þeim lögum sem var ætlað að ná betur utan um nemendur með gagnsærra styrkjakerfi, hvað fór úrskeiðis í því og hvar við getum gert betur, hvaða hluti við þurfum enn þá að fá aðeins meiri reynslu á. En við erum öll sammála um að þetta kerfi á að styðja við jöfn tækifæri til menntunar og þannig verðum við að búa um hnútana þó að við getum aldrei alltaf mætt öllum kröfum og þurfum auðvitað að finna bestu leiðina til að fá sem besta og sanngjarna niðurstöðu fyrir nemendur sem sækja háskólanám, hvort sem það er hérlendis eða erlendis.