sjúklingatrygging.
Hæstv. forseti. Ja, það tók þann sem hér stendur ekki nema eitt ár að setja þá vinnu í gang. En aftur að spurningunni. Þetta er nefnilega mjög góð spurning: Af hverju ekki að afnema hámarksákvæðið og greiða allt tjón úr sjúklingatryggingu? Hér er verið að hækka verulega hámarksbætur og sú ákvörðun var tekin meðvitað að fylgjast með áhrifum þeirra breytinga en það útilokar ekki tjónþola. Í þeim tilvikum þar sem tjón er það alvarlegt að það er augljóst að bæturnar kunni að vera hærri þá er sá réttur til staðar. Með því að setja hámarksákvæði hér erum við vissulega að setja skorður við því að sjúklingur geti fengið fullar fébætur úr hendi sjúkratryggingastofnunarinnar. Ef raunverulegt fjártjón nemur svo hærri fjárhæð en þessari 21 milljón króna, sem er veruleg hækkun, þá er hægt að sækja þann rétt. Það hefur reynt á hámarksákvæði gildandi laga í dómum Hæstaréttar og í því máli tók Hæstiréttur fram um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar í dómaframkvæmd að löggjafinn hafi nokkurt svigrúm til að takmarka fjárhæð bóta. Þetta er vonandi hér mjög jákvætt skref fyrir tjónþola og meiri hlutann og á að geta fyrir heildina komið vel út, fyrir flesta að fá hraða málsmeðferð og bætur sem viðkomandi eiga rétt á og svo í þeim tilvikum sem kunna að reyna á hærri bætur þá er það alveg skýrt í hvaða ferli það fer í samhengi við önnur lög, skaðabótalög. Þannig að ég held að við séum að stíga hér mjög jákvæð og markverð skref fyrir fólkið og fyrir sjúklingana okkar í landinu.