sjúklingatrygging.
Forseti. Í síðustu viku mæltu Píratar fyrir þingsályktunartillögu um umboðsmann sjúklinga. Það er mikilvægt mál sem felur heilbrigðisráðherra það verkefni að stofna sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga sem hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi sjúklinga. Það er óhjákvæmilegur hluti af lífinu að lenda á einhverjum tímapunkti í veikindum eða að ástvinir veikist eða deyi. Þegar það gerist er mikilvægt að til staðar sé kerfi sem grípur okkur og ferlar sem fara af stað án þess að við, á okkar viðkvæmustu augnablikum, þurfum að ganga á eftir því eða eltast við það. Það eru nefnilega fáir sem þekkja réttindi sín og skyldur þegar kemur að veikindum og missi fyrr en á reynir, hvað þá þegar um læknamistök eða vanrækslu er að ræða. Ég þekki það sjálf að slasast illa, fá rangar leiðbeiningar um það hvernig ég ætti að bera mig að eftir það og þurfa að takast á við afleiðingar þess að ná færni sem hafði glatast vegna þess tíma sem ég hafði eytt í rangri meðferð. Það getur reynst afar dýrkeypt að lenda í því, ekki einungis fyrir okkur sjálf heldur líka fyrir heilbrigðiskerfið.
Eins og svo mörg okkar þekki ég það líka að vera umönnunaraðili aldraðs foreldris og að þurfa að sinna því nánast eins og um fullt og ólaunað starf væri að ræða ofan á það fulla launaða starf sem ég var í á þeim tíma. Það var vegna óaðgengileika í heilbrigðiskerfinu og langra biðlista. Það er tímafrekt fyrir aðstandendur að finna út úr því hverju sjúklingar eiga rétt á, hvaða úrræði eru í boði fyrir þá og fylgja því eftir. Það á ekki að þurfa að vera nánast full vinna fyrir aðstandendur að annast veika fjölskyldumeðlimi í velferðarsamfélagi. Við erum jú að borga ríflega skatta og gjöld alla ævi til að fjármagna velferðarkerfið sem á að vera byggt upp af sanngirni og skilvirkni.
Þetta frumvarp er löngu tímabært og ég vona að það verði til þess að einhvers konar embætti sem samsvarar umboðsmanni sjúklinga verði sett á til að það verði skilvirkt og aðgengilegt. Reglulega heyrum við af því að fólk missi ástvini sína vegna mistaka eða vanrækslu í heilbrigðiskerfinu og því fylgir gjarnan saga af margra ára baráttu eftirlifenda við kerfið með tilheyrandi kostnaði fyrir þau sjálf, til lögfræðinga og til sérfræðinga sem fengnir eru til að rannsaka tilvikin ef embættin okkar gera það ekki eða gera það illa.
Það er mikilvægt að bæta málsmeðferð og auka jafnræði tjónþola, hvort sem þau hafa sótt sér þjónustu heilbrigðisstofnunar í einkarekstri eða hjá hinu opinbera. Við Píratar fögnum því að með þessu frumvarpi fellur meðferð allra sjúkratryggingamála undir meðferð samkvæmt stjórnsýslulögum og sjúkratryggingastofnuninni er veitt skýr heimild til gagnaöflunar og málsmeðferðar en í gildandi löggjöf á sú meðferð aðeins við um atvik sem verða hjá heilbrigðisstofnunum í ríkisrekstri.
Einnig er brýnt að bæta upplýsingagjöf milli stofnana eins og með þeirri heimild sem kveðið er á um í frumvarpinu, að sjúkratryggingastofnunin og embætti landlæknis geti miðlað gögnum sín á milli til að bæta málsmeðferð sjúklinga. Það mun vonandi leiða til hagræðingar, frekari skilvirkni og umbóta innan heilbrigðiskerfisins en umfram allt vona ég að þetta leiði til aukinnar sanngirni og réttlætis fyrir tjónþola.