154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:00]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um tímabundinn rekstrarstuðning vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Ef við förum aðeins yfir helstu atriðin þá felur frumvarpið í sér að einstaklingar og lögaðilar sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í Grindavíkurbæ þegar rýma þurfti bæinn þann 10. nóvember 2023, sem við munum öll vel eftir, og hafa orðið a.m.k. fyrir 40% tekjufalli vegna atburðanna, geti fengið rekstrarstuðning í formi beinna styrkja úr ríkissjóði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstrarstuðningur verði veittur vegna tímabilsins frá nóvember 2023 til og með apríl 2024.

Nefndin fjallaði um þetta mál, vann auðvitað hratt og að mínu mati vel og fékk á sinn fund gesti og nefndinni bárust einnig umsagnir. Þar ber kannski helst að nefna fulltrúa frá Skattinum og fulltrúa frá Grindavíkurbæ. Frekar er greint frá þessu í nefndaráliti sem liggur frammi. Nefndin áréttar mikilvægi málsins fyrir einstaklinga og lögaðila sem stunduðu atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í Grindavíkurbæ.

Ég ætla að fara í stuttu máli yfir þær breytingar sem hér eru lagðar til en nefndin leggur til fjórar mikilvægar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lögð til breyting er varðar gildistíma rekstrarstuðnings í 4. gr. og 6. gr. Nefndin leggur til að gildistími rekstrarstuðnings samkvæmt frumvarpinu verði lengdur og að miðað verði við að úrræðið gildi frá nóvember 2023 til og með júní 2024 en ekki apríl 2024 eins og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Þá telur nefndin rétt að færa samhliða dagsetningarviðmið um umsóknarfrest fram um tvo mánuði og hann verði þá til 30. september 2024. Nefndin leggur jafnframt áherslu á að þörf fyrir frekari framlengingu úrræðisins verði metin þegar frá líður enda er líkt og við öll vitum óvissa enn rík á þessu svæði.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar rekstrarkostnað í 3. gr. Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um fjárhæð rekstrarstuðnings. Gert er ráð fyrir því að rekstrarstuðningur jafngildi rekstrarkostnaði umsækjenda þann almanaksmánuð sem umsókn varðar eða margfeldi þriggja stærða, sbr. 2. tölulið 5. gr., eftir því hvor fjárhæðin er lægri. Rekstrarkostnaður er skilgreindur í 3. tölulið 3. gr. sem rekstrarstuðningur skv. 1. tölulið 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum niðurfærslum og fyrningum eigna og launum í skilningi laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavík, nr. 87/2023.

Við umfjöllun nefndarinnar um málið kom fram að óljóst væri hvort frádráttur við ákvörðun rekstrarkostnaðar samkvæmt ákvæðinu væri vegna heildarlaunakostnaðar viðkomandi rekstraraðila eða hvort hann takmarkaðist við hámark launagreiðsla samkvæmt lögum nr. 87/2023, þ.e. 633.000 kr. að viðbættu mótframlagi í lífeyrissjóð.

Nefndin bendir á að um 3. tölulið 3. gr. frumvarpsins segi í greinargerð að launum í skilningi laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ sé haldið utan rekstrarkostnaðarhugtaksins því að unnt sé að fá styrk vegna þeirra samkvæmt þeim lögum. Ekki er að finna skilgreiningu á hugtakinu „laun“ í orðskýringu í lögunum.

Hins vegar er ljóst af vísun til þeirra, og af skýringu í greinargerð, að vísað sé til launakostnaðar sem fæst bættur samkvæmt þeim, að hámarki 633.000 kr., að viðbættum þeim 11,5% viðbótarstuðningi sem ráðstafað er í lífeyrissjóð. Til að taka af allan vafa um þetta atriði leggur nefndin til breytingu þess efnis að í stað þess að vísað verði til launa í skilningi laganna verði vísað til stuðnings til greiðslu launa í skilningi laganna.

Hafi launakostnaður þannig verið umfram þann sem bættur er á grundvelli fyrrgreindra laga, svo sem vegna þess að starfsmaður hefur fengið greidd hærri laun en stuðningur samkvæmt þeim nemur, telst mismunurinn ekki til launa í skilningi laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Hið sama gildir um laun sem rekstraraðili hefur greitt en ekki fengið greiddan stuðning vegna. Í þeim tilvikum væri því heimilt að telja launakostnað til rekstrarkostnaðar í skilningi laganna.

Þá er í þriðja lagi lögð til breyting er varðar samspil rekstrarstuðnings og rekstrartekna við ákvörðun tekjufalls í 4. gr. Nefndin tekur fram að meðal skilyrða fyrir veitingu rekstrarstuðnings er að tekjur rekstraraðila í þeim almanaksmánuði sem umsókn varðar hafi verið a.m.k. 40% í sama almanaksmánuði árið áður og tekjufallið megi rekja beint til náttúruhamfara í Grindavíkurbæ. Ljóst er að stuðningur vegna launagreiðslna skv. lögum nr. 87/2023 og stuðningur samkvæmt frumvarpinu getur haft áhrif á það hvernig tekjufall rekstraraðila er ákvarðað. Í umsögn Skattsins er bent á að æskilegt geti talist að bæta við ákvæði um að rekstrarstuðningur samkvæmt frumvarpinu teljist ekki til rekstrartekna við ákvörðun tekjufalls. Hið sama gildir um stuðning skv. lögum nr. 87/2023. Nefndin leggur því til þá breytingu að við 2. tölulið 4. gr. bætist málsliður sem kveði á um að stuðningur samkvæmt lögunum skuli ekki talinn til tekna í þeim mánuði við útreikning á tekjufalli samkvæmt ákvæðinu.

Að lokum er í fjórða lagi lögð til breyting er varðar orðskýringu í 3. gr. Nefndin leggur til að skýring á hugtakinu föst starfsstöð verði orðuð á þann veg að átt sé við fasta atvinnustöð þar sem tekjuaflandi starfsemi aðila fer að nokkru eða öllu leyti fram. Þá leggur nefndin til að hugtökin launamaður og rekstraraðili verði skilgreind í ákvæðinu með sama hætti og í lögum um viðspyrnustyrki, nr. 160/2020. Þessar breytingar eru í takt og í samræmi við umsögn Skattsins.

Að öðru leyti vísast til ítarlegri umfjöllunar um breytingartillögur í nefndarálitinu sem, eins og fyrr segir, liggur hér frammi.

Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

Undir nefndarálitið rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Teitur Björn Einarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Jón Gunnarsson, Guðbrandur Einarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.