154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:19]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hans andsvar og góðar athugasemdir í raun. Ég tek undir, svo maður haldi því áfram, mál annarra þingmanna en mér finnst það bara sjálfsagt og eðlilegt í þessum málum og í því máli sem við hér ræðum. Hv. þingmaður nefndi það að við séum að reyna að stoppa í öll göt og ég held að það liggi alveg fyrir að það verður aldrei stoppað í öll göt en við erum kannski að reyna að takmarka lekann, ef svo má segja, reyna að grípa sem flesta þó að við grípum ekki alla, svo það sé nú sagt. En það er auðvitað þannig, svo maður bara haldi áfram að nefna það, að það er þessi mikla óvissa til staðar. Við sjáum það bara hjá sérfræðingum sem nefna ítrekað að Reykjanesskaginn sé vaknaður. Við vitum ekki hvað gerist. Kannski verður bara stopp. Kannski heldur áfram að gjósa hér í einhverja áratugi, árhundruð jafnvel. Við vitum ýmislegt en við vitum ekki hvar næsta gos kemur upp þó að það sé svona sirka hægt að meta það. Við þurfum því, og það er kannski það sem ég er að reyna að segja, stöðugt að vera með öll þessi úrræði sem við erum hér að samþykkja til skoðunar. Við þurfum að reyna eins og við mögulega getum, ég tek undir með hv. þingmanni, að vera stöðugt að meta það hvaða áhrif þau frumvörp sem við erum hér að samþykkja hafa á ríkissjóð, eins langt og það nær. Það er auðvitað ýmislegt, það er óvissan aðallega, en við sjáum það líka að hlutir geta breyst mjög hratt. Það er búið að hleypa almenningi og fyrirtækjum inn í Grindavíkurbæ og einhver eru byrjuð þar að starfa, þannig hver þróunin verður er ómögulegt að segja.