154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundinn rekstrarstuðningur vegna náttúruhamfara i Grindavíkurbæ.

675. mál
[12:21]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ómögulegt að segja, það er alveg rétt, en á sama tíma er hægt að taka ákvörðun og ákvörðun gerir það að verkum að óvissan hverfur, hvað svo sem gerist síðan. Það er ýmsum sem finnst það mjög óábyrgt að hleypa aftur af stað starfsemi í Grindavík eins og staðan er í dag og mér finnst í raun vanta ákvörðun hvað það varðar. Þegar það er ekki tekin ákvörðun sem er grundvölluð á einhverjum skilyrðum heldur bara hentugleika hverju sinni þá verður útkoman úr því að við erum alltaf að breyta um, skipta um kúrs. Það ruglar rosalega mikið og hringlar rosalega mikið með efnahagsstjórnina eins og ég nefndi hérna áðan. Ef við einfaldlega tökum þá ákvörðun að það sé of hættulegt að vera í Grindavík fyrr en búið er að gera við þessar sprungur sem eru þar þá eru forsendur fyrir því t.d. að það verði ekki hægt að gera neitt fyrr en tveimur árum eftir að jarðhræringum lýkur. Ef við tökum þá ákvörðun erum við búin að gera það skýrt. En með því að við tökum ekki þá ákvörðun erum við einhvern veginn að flakka fram og til baka og við búum til meiri áhættu og meiri óvissu um það hvenær fólk þarf að fara út aftur og hvað gerist þá. Án þess að taka ákvarðanir sem eyða óvissu í einhvern tíma, hérna erum við að eyða óvissu fram í júlí, september, ekki lengur en það, (Forseti hringir.) en ef við tökum ákvörðun sem dugir í tvö ár þá getum við byggt einhverja efnahagsstefnu á því í kjölfarið.